Mikið um að vera hjá Kyndli undanfarna daga

Post date: May 12, 2013 11:39:10 PM

Oft vill það verða þannig að verkefnin og útköllin koma í gusum hjá okkur, þannig var síðasta vika

Þriðjudagur 07.05.2013

Um klukkan 21:00 kom heildarútkall á svæði 1 þar sem óskað var eftir bílum, fjórhjólum, mótorhjólum og öðrum tækjum til að leita alla slóða í kringum höfuðborgarsvæðið. Kyndill sendi einn bíl með þremur björgunarmönnum og tvö fjórhjól með tveimur björgunarmönnum hvort. Leitarsvæðið var stórt og leitaði meðal annars bíll frá Kyndli veginn inn að Nesjavöllum og hélt svo að því loknu inn í Hvalfjörð þar sen leitað var í kringum Meðalfellsvatn. Kyndilsbíllinn endaði svo nóttina við Skorradalsvatn er leit var afturkölluð þar sem sá sem leitað var að fannst heill á húfi. Síðustu menn frá Kyndli voru komnir í hús um kl 04:00 aðfararnótt miðvikudagsins 08.05.

Miðvikudagur 08.05.2013

Kyndill fór í Krikaskóla að afhenda endurskinsvesti handa krökkunum í fyrsta bekk. Þar voru á ferð sama fólk og hafði verið að leita til klukkan 04:00 um nóttina og ekki mikið búin að sofa.

Föstudagur 10.05.2013

Aðstoðarbeiðni barst um klukkan 22:00 þar sem aðstoða þurfti ungt par við að komast niður af Þverfellshorni í Esjunni. Verkefnið gekk vel og voru ungmenin komin niður á plan við Esjuna um klukkan 01:00 eftir miðnætti. Þar sem færið var mjög erfitt í Esjunni fyrir fjórhjólin voru þau ekki komin í hús fyrr en að ganga 03:00 en þá var hópurinn sem fór á jeppa sveitarinnar búinn að ganga frá búnaði og gera jeppan aftur klárann í næsta útkall.

Sunnudagur 12.05.2013

Aðstoðarbeiðni barst um klukkan 15:00 vegna bíls sem sat fastur við Leirvogsvatn. Kyndill sendi einn jeppa og tvo menn á staðinn og gekk greiðlega að losa bílinn.

Þennan dag tók Kyndill einnig þátt í stórri æfingu í og við Esjuna á vegum Landsbjargar þar sem bæði fjórhjól sveitarinnar og mannskapur var við æfingar.

Það hefur því verið margt um að vera hjá okkur þessa vikuna, en það er einmitt þannig sem við viljum hafa hlutina. Það sem er líka jákvætt við þessa viku er að öll verkefnin enduðu á jákvæðum nótum og engin slys urðu á fólki.