Saga Kyndils

Það var á haustmánuðum 1968 sem nokkrir félagar (Erlingur Ólafsson, Andrés Ólafsson, Albert Finnbogason, Guðjón Haraldsson og Stefán oftast kallaður Diddi í Ullarnesi ásamt fleirum) tóku sig saman og stofnuðu björgunarsveit og gáfu henni nafnið Kyndill. Fyrst var starfsemi Kyndils í kjallaranum í gömlu sundlauginni. Þá næst í Brúarlandi. Þaðan fluttist hún í bílskúrinn á Markholti 17. Að lokum fékk sveitin aðstöðu í gamla leikskólanum á Rykvöllum. Má segja að Kyndill hafi verið faraldsbjörgunarsveit fyrstu árin sín. Árið 1978 var byggt við leikskólann stór skemma og voru Rykvellirnir heimili Kyndils næstu 20 árin.

1997 var svo farið í að byggja núverandi húsnæði að Völuteig 23. Við hönnun hússins var sérstaklega hugsað fyrir því að húsið þyrfti að standast ef til náttúruhamfara kæmi og var burðarvirki þess því sérstaklega styrkt til að standar öfluga jarðskjálfta. Pétur Gunnarsson var fenginn til að smíða grunn hússins fyrir okkur en að öðru leiti byggðum við félagsmenn húsið sjálfir. Árið 2000 fluttum við hluta af búnaði okkar inn í nýja húsið og héldum síðustu flugeldasöluna okkar að Rykvöllum. Fyrsta árið vorum við í húsinu hálfkláruðu á meðan við notuðum allar helgar til að standsetja en smátt og smátt for þetta að taka á sig endanlega mynd.

Fyrstu ár Kyndils voru verkefnin helst að sækja rjúpnaskyttur uppá heiði, sækja fasta bíla, flytja fólk og krakka heim þegar ófært var og svo að ferja starfsfólk og lækni á Reykjalundi. Síðan þá hafa miklar breytingar orðið og starf björgunarsveita þróast og breyst til þess sem það er orðið í dag. Í dag er rekið öflugt og mikið starf hjá Kyndli. Félagsmenn tæplega 70 og þar af eru um 28 virkir félagar. Hinir koma þó inn þegar mikið liggur við og í flugeldasöluna okkar sem er ómetanlegur stuðningur.

Nýliðun hjá Kyndli hefur sjaldan verið meiri hjá okkur og núna. Mikið og virkt unglingadeildarstarf er hjá Kyndli og eru 37 unglingar í þremur aldurshópum hjá okkur núna. Á þessu ári gengu 4 meðlimir elsta hóps unglingadeildarinnar inn í björgunarsveitina og jafngildir það um 6% nýliðun frá unglingadeildinni. Unglingadeildin okkar er lífæð björgunarsveitarinnar og hefur Kyndill því ávalt lagt mikinn metnað og alúð í að fylgja eftir og styðja umsjónarmenn unglingadeildanna okkar. Með sama áframhaldi og því metnaðarfulla starfi sem rekið er þurfum við að fjölga skápum, bæta við bíl og síðar að stækka húsið okkar eftir ekki mjög langan tíma.

Framtíð Kyndils er björt og markmið okkar er að halda áfram því starfi sem félagarnir hófu í kjallara sundlaugarinnar fyrir 40 árum og byggja sveitina áfram upp.

KYNDILL Í FJÖLMIÐLUM

2009 - 4.september - Fréttablaðið

Formenn Kyndils frá upphafi

  • Erlingur Ólafsson 1968-1981
  • Guðjón Haraldsson 1981-1987
  • Þorsteinn Theódórsson 1987 - 1988
  • Albert Finnbogason 1988 - 1990
  • Lárus Einarsson 1990 - 1991
  • Helgi Kjartansson 1991-1996
  • Gísli Páll Hannesson 1996-1997
  • Helgi Kjartansson 1997-2005
  • Ingvar Stefánsson 2003-2008
  • Hlynur Sigurðarson 2008 - 2009
  • Helgi Kjartansson 2009-2012
  • Gísli Páll Hannesson 2012-2013
  • Davíð Þór Valdimarsson 2013-2016
  • Fannar Þór Benediktsson 2016-2018
  • Björn Bjarnarson 2018 -

2009 - 12. janúar - Fréttablaðið

2009 - 11. janúar - RÚV