Talsvert að gera undanfarna daga

Post date: Jan 15, 2014 11:03:42 AM

Það hefur verið talsvert um að vera hjá okkur frá því í byrjun síðustu viku.

Mánudagur 06.01 - Útkall F2-Rauður-Neyðarstig

Kyndill var boðaður út vegna ferðamanns sem hafði fallið ofan í sprungu nærri Öxarárfossi á Þingvöllum. Maðruinn hafði verið á göngu á svæðinu og stigið í gegnum snjó sem huldi sprungu á svæðinu og féll hann 6-8 metra niður. Til allrar hamingju þá slasaðist maðurinn ekki.

Fimmtudagur 09.01 - Útkall F3-Gulur

Leit að Gunnari Loga sem hefur verið saknað síðan 30. desember og auglýst hefur verið eftir. Kyndill sendi 3 björgunarmenn sem gengu meðfram fjöru á Kjalarnesi. Leitin bar því miður ekki árangur.

Laugardagur 11.01 - Útkall F3-Gulur

Tveir hópar frá Kyndli tóku um helgina þátt í leit að ungum manni sem týndist við Saltvík á Kjalarnesi. Alls voru rúmlega 100 björgunarsveitarmenn að störfum ásamt lögreglu og landhelgisgæslu við afar erfiðar aðstæður. Fjörur voru gengnar og leitað var í nánasta nágrenni Saltvíkur á landi.

Þriðjudagur 14.01 - Verðmætabjörgun á Kjalarnesi

Kyndill ásamt Björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi voru beðnar um að aðstoða við að tæma vöruflutningabifreið sem hafði farið út af veginum skammt frá Grundarhverfi á Kjalarnesi. Kyndill sendi 4 aðila og einn bíl á svæðið, um var að ræða ýmsar vörur sem þurfti að ferja úr flutningabílnum.