Fjallabjörgun við Skessuhorn

Post date: Mar 29, 2009 12:59:29 PM

Tvö teymi frá Kyndli annars vegar þrír fjórhjólamenn og hins vegar fjórir vélsleðamenn með sjúkraflutningakerru tóku þátt í umfangsmikilli fjallabjörgun í Skessuhorni í gærkvöldi. Kona í fjallgöngu datt illa í rúmlega 800 metra hæð og rann meðvitundarlaus niður um 100 metra í brattri hlíð. Voru aðstæður til björgunar afar erfiðar því skafrenningur, mikill vindur og snjóflóðahætta gerðu allt björgunarstarf erfitt. Þurftu 11 samferðamenn konunnar t.d. að grafa sig í fönn á meðan beðið var eftir að björgunarmenn kæmust á vettvang. Konan var flutt niður mesta brattann af sérhæfðum fjallabjörgunarmönnum og síðan flutt í sjúkraflutningakerru Kyndils niður fjallið að heitum snjóbíl þar sem læknir hlúði að henni. Snjóbíllinn ferjaði konuna síðan að þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti konuna á sjúkrahús í Reykjavík.

Alls tóku um 120 björgunarmenn þátt í aðgerðinni frá 15 björgunarsveitum. Konunni heilsast að atvikum en er enn á gjörgæsludeild þegar þetta er ritað.

(NILA sjúkraflutningakerra Kyndils - mynd tekin á æfingu 2008)