8. Febrúar - aðstoð á höfuðborgarsvæðinu

Post date: Dec 8, 2008 9:43:06 PM

Björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar hafa frá því í dag farið í um 300 útköll vegna óveðurs sem gengið hefur yfir landið. Um 300 björgunarsveitarmenn eru, þegar þetta er skrifað, að störfum víða um land.

Mest hefur verið að gera á höfuðborgarsvæðinu þar sem tæplega 200 beiðnir um aðstoð hafa borist, á Suðurnesjum þar sem yfir 60 verkefni hafa verið leyst, Akranesi þar sem 20 útköll hafa borist.

Einnig hefur töluvert verið að gera í Vestmannaeyjum og björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í Hnífsdal, Hellissandi, Hveragerði, Ísafirði, Þorlákshöfn, Grímsnesi, á Holtavörðuheiði, Hvanneyri, Blönduósi, Seyðisfirði, Eyrarbakka og Hvolsvelli.

Fram eftir kvöldi var mest um foktjón af ýmsu tagi; tré rifnuðu upp með rótum, fjögur strætóskýli fuku, rúður brotnuðu, hurðir fuku upp og þakplötur og klæðningar losnuðu af húsum svo fátt eitt sé nefnt. Þegar leið á kvöldið fjölgaði vatnstjónum en víða flæddi í kjallara húsa, mismikið þó.