Námskeið í fjallabjörgun

Post date: Apr 29, 2013 1:40:24 PM

Þrír félagar úr Kyndli tóku þátt í fjallabjörgunarnámskeiði helgina 19-21 apríl síðastliðinn.

Á námskeiðinu kynnast nemendur grunnatriðum fjallabjörgunar. Farið er yfir ýmis atriði er tengjast fjallabjörgun eins og ferðast upp og niður línur, uppsetningu á öryggis- og aðallínu, hvernig björgunarmanni er slakað niður og tekinn aftur upp, innsetningar á tryggingum fyrir björgunarmenn og sjúklinga og margt fleira.

Á föstudeginum var farið yfir fræðileg atriði er tengjast fjallabjörgun, hvað þarf að hafa í huga, hvaða krafta er verið að vinna með, hvaða verkfæri og tól eru notuð, hvaða hnútar eru mikilvægir og svo framvegis.

Farið var í verklegar æfingar á laugar- og sunnudeginum. Á laugardaginn var haldið á Þingvelli þar sem æfð var björgun í klettum og líkt eftir aðstæðum þar sem björgunarmaður þarf að síga niður og ná í slasaðan einstakling.

Á sunnudeginum voru æfingar í Búhömrum í vestanverðri Esjunni. Þar voru framkvæmdar æfingar með sjúkling í sjúkrabörum sem þurfti að koma niður bratta brekku.

Báða dagana sem farið var í verklegar æfingar sáu nemendurnir alfarið um að setja upp tryggingar og tengja línur inn í þær. Allt var þetta gert undir handleiðslu þaulvanra fjallabjörgunarmanna og undanfara frá Hjálparsveit Skáta í Garðabæ (HSSG).

Eftir námskeiðið hafa því þrír nýjir aðilar bæst í hóp þeirra innan Kyndils sem geta farið í björgun í fjalllendi og starfað þar við hlið undanfara. Þetta er afa mikilvægt þar sem Mosfellsbær er bókstaflega umkringdur fjöllum og Esjan er í næsta nágreni við okkur. Innan Kyndils fer einnig fram öflugt starf fjallahóps sem heldur reglulegar æfingar.

Mikill bratti og ekki hægt að athafna sig öðruvísi en að setja upp viðeigandi línur og kerfi fyrir sjúkrabörurnar til að koma þeim niður

Uppsetning á tryggingum og gert klárt fyrir björgun

Hluti af þeim tryggingum sem settar voru upp í Esjunni

Verið að slaka sjúkling í börum niður bratta brekku

Það þarf að hnýta nokkra hnúta, þarna sést hvernig börunar eru bundnar inn í "kerfið"