Svikin loforð 2003

Kosningaloforðasvikin. --- 2. júlí 2003

Ásmundur Einarsson, Norðurfrakt/Flytjandi, var óhress í máli, raunar niðurbrotinn. Hann hafði gert sér miklar vonir um aukin umsvif vegna fyrritækis síns Norðurfrakt. Hann var eldheitur Sjálfstæðismaður og starfaði mikið fyrir flokkinn í kosningabaráttunni og ráðherrar núverandi og fyrrverandi klöppuðu á öxlina á honum og sögðu að nú væri framtíð fyrirtækis hans björt þegar göngin kæmu, því það væri sko tryggt, ef þeir ynnu kosningarnar. Einn (fyrrverandi ráðherra) var svo orðhvatur að hann hafði orð á því að fyrr yrði hann grafinn, en að loforðin stæðust ekki. "Mummi" hringdi í þennan baráttumann og spurði, hvort hann væri búinn að panta kistuna, hann sagði ekki frekar frá samtali sínu, en ef að líkum lætur, þá hafa það ekki verið nein guðspjöll. Ásmundur hefur nú þegar sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum. Og ekki treystir hann yfirlýsingum um að þetta sé aðeins frestun

Andrés Stefánsson rafverktaki, var einnig óhress með þessi mál, þó svo að hann hafi ekki treyst þessum mönnum sem töluðu svo glaðhlakkalega og lofuðu á báða bóga, Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn. Hann sagðist, ekki vera flokksbundinn, og tryði kosningaloforðum yfirleitt varlega. Honum þótti sárast, að það kapp sem lagt hefur verið á, að gera Siglufjörð að þekktari vetraríþróttastað með bættri aðstöðu í "Siglufjarðarskarði", mikilli vinnu bæði sjálfboðavinnu og annarri, að með frestun(?) jarðgangnanna, væri þessar fyrirhöfn að miklu leit spillt, miðað við að auka ferðamannastraum til Siglufjarðar. Og ekki má gleyma þeirri baráttu og vonum sem Síldarminjasafnið hefur gert sér, með tilkomu Héðinsfjarðargangnanna.

Hjörtur Þorsteinsson vélsmiður, sagði ekki mikið enda frekar hæglátur og orðvar maður, en það fór ekki á milli mála að hann var verulega vonsvikin með þessi málalok

Sverrir Júlíusson vélsmiður, var ómyrkur í máli að venju. Hann sagði ma. að þó hann hafi ekki verið neitt yfir sig hrifinn að ákvörðun um gerð Héðinsfjarðargangna, verið nánast hlutlaus, þá færi ekki á milli mála, að þessir menn og konur sem blöðruðu um jarðgöngin og loforðin sem þau gáfu, ef þau kæmust til valda, væru sínum huga ekkert annað en ósviknir loddarar.Og sín tillaga til þessara jólasveina, væri einföld. "Hættið við að byggja snjóvarnargarðana, þeirra verður ekki þörf í framtíðinni, því hér verður eingöngu sumarbústaða svæði í framtíðinni, fólk mun flytja héðan"

Ekki koma hér fleiri tilvitnanir, þó svo af mörgu sé að taka, því mikill hiti er í mönnum, og heyrst hafa margar raddir, þar sem fólk hefur sagst ætla að yfirgefa Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki hefi ég náð tali af Guðmundi Skarphéðinssyni vini mínum, sem hefur verið ötull talsmaður jarðgangnagerðarinnar sálugu og milliliður upplýsingamiðlunar milli stjórnvalda og almennings, á Siglufirði. Ekki kæmi mér á óvart að þessar aðgerðir ættu eftir að breyta hans afstöðu til Sjálfstæðisflokksins.

Og Sverrir Sveinsson, aðal hvatamaður þessara framkvæmda, hann hlýtur að vera aðeins meira en vonsvikinn, ef ég þeki hann rétt. Og svo mun vera um fleiri.

Og ég persónulega, hrósa happi yfir að hafa kosið Kristján Möller við síðustu alþingiskosningar, en ekki látið glepjast af orðum Sigríðar er hún heimsótti kaffistofu SR-Vélaverkstæðis fyrir kosningar og lét þar "gamminn geisa" með loforðaflóði, ef við kysum hana og Sjálfstæðisflokkinn. Önnur loforð heyrði ég ekki né las fyrir kosningarnar. "En ég þekki Kristján Möller, og veit að hann er enginn köttur í sekknum" . Steingrímur