Fréttir 22.júlí - 27.2003
22.júlí - Antares VE 18 Kom í gærkveldi með 974.812 kg. af loðnu til bræðslu hjá S.V. Sennilega er þetta í fyrsta sinn sem þetta skip kemur hingað með loðnu.
22.júlí - Aðsent (tölvupóstur): Sæll Steingrímur !!!
Þú bentir á að Siglufjörður væri ekki á vefnum www.camping.is en hefurðu tekið eftir því að Siglufjörður er ekki heldur á Íslandsvefnum www.islandsvefurinn.is Er kannski verið að stroka þennan fallega bæ alveg út eða hvað ???? -
Kveðja S...
Athugasemd 2015 - "íslandsvefurinn" ansar ekki í dag 2015
23 júlí - Mjög fjölmennur borgarfundur fór fram í gærkveldi í bíósalnum á Sigló. Hvert sæti var skipað og staðið með veggjum, og út að dyrum.Margir tóku til máls og höggvið á báða bóga. Þarna voru mættir alþingismenn, einn ráðherra, bæjarstjóri Ólafsfjarðar ofl. þaðan, svo og auðvitað bæjarfulltrúar Siglufjarðarkaupstaðar, svo og hinir almennu borgarar. Ég mun ekki fara mörgum orðum um fundinn, en þó margt tilefnið hafi verið á dagskránni, var um fátt annað talað en frestun, svik eða hvað menn kusu að kalla það, málefni Héðinsfjarðarganga. Ég mun lauslega tjá mig um efni fundarins, með texta undir einstökum myndum sem eru á síðunni Borgarfundurinn
23:júlí 08:30 Vinna við Tjarnargötu / Gránugötu er samkvæmt áætlun. Þarna er verið að slá upp fyrir gangstétt á horni gatnanna
23:júlí 08:45 Suðurverk, verktaki við snjóflóðavarnir. Þarna er unnið að jarðvegsskiptum, rétt norðan við Ljósastöðina við Hvanneyrará.
23:júlí Gunnar Friðriksson. Ég heimsótti Réttingarverkstæði Gunnars og Stefáns í morgun. Gunnar vinnur nú aðeins einn á verkstæðinu og hefur nóg að gera. Aðalega er þó um minniháttar aðgerðir að ræða, því Siglfirðingar eru góðir ökumenn, svona yfir höfuð. Þarna er Gunnar að ganga frá viðgerð eftir rispur sem óviti hafði framkvæmt, en nokkuð mun hafa borið á slíku að undanförnu.
23: júlí 21:15 Brasilíski söngvarinn og sömbugítarleikarinn IFE TOLENTINO og Óskar Guðjónsson á saxafónn, Ómar Guðjónsson á gítar, Helgi Svavar Helgason, Þorvaldur og Þór Þorvaldsson á trommur. Þeir léku ekta Brasilísk Samba og Bossanova, músík í Nýja Bíó í kvöld. Ágætis aðsókn var og virtust áheyrendur nóta vel. Þeir leika og syngja á Akureyri annað kvöld.
24. júlí - Aðsend grein: Júlíus Hraunberg."Ekki var mikið á ráðamönnum að græða."
24. júlí Málverkasýning: -- Siglfirðingurinn Arnar Herbertsson, er með málverkasýningu í Gránu. Þar sýnir hann brons, olíulakk og olíulakk á tré. Arnar ("Eini" eins og hann er kallaður af fullorðnum Siglfirðingum) hefur haldið fjölda sam. og einkasýninga á ferli sínum.Sýningin verður opin fram í ágústmánuð.
24. júlí Fyrstu skrefin, að langri þrautagöngu: Þingsáliktunartillaga: Sverrir Sveinsson og fleiri.
24. júlí 13:15 Trillukarlarnir Pétur Guðmundsson, Sigtryggur Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson. Þessa garpa þekkja allir Siglfirðingar, enda eru þeir farmleiddir á heimaslóðum. Þarna voru þeir félagar að ræða um einn brekkusnigilsháttinn hjá þeim sem ráða í þjóðfélaginu. Sigtryggur sem hóf í vor, þriðja ár sitt við fiskeldi hér á firðinum með öll tilskilin leyfi í vasanum, en nú er búið að setja á stofn enn eitt embættið, það er að nú þarf eitt leyfið til viðbótar, fylla þarf út eyðublað (sennilega að borga rausnarlega fyrir það), senda suður og bíða síðan eftir, að þeim þarna fyrir sunnan þóknist að afgreiða og senda viðkomandi viðbótarleyfi. Á meðan er Sigtryggur aðgerðarlaus, hann getur ekki viðhaldið fiskeldi sínu sem snýst um það að afla fiskjar, hirða smáfiskinn lifandi og koma honum í kvíarnar, sem staðsettar eru úti á firði.
24. júlí Málverkasýning stendur yfir í Sýningarsal Ráðhússins á Sigló. Þar sýnir verk sín Reykvíkingurinn Stefán Jóhann Boulter
24. júlí 14:30 Gallerí Sigló Suðurgötu 6 á Sigló er opið alla daga, þar fer fram allskonar skrautmunagerð, bæði samkvæmt eigin hugmyndum og samkvæmt beiðni fólks. Þær eru margar konurnar sem að þessu standa og vinna að þessu, en þessar þrjár voru á fullu, er ég leit til þeirra. Þetta eru Sigríður Björnsdóttir, Ásdís Gunnlaugsdóttir og Kristín Baldvinsdóttir
25. Júlí Eins og sést vegna dagsetningarinnar í dag, þá hefur ekkert markvert borið fyrir augu mín í dag, þrátt fyrir þrjár ferðir í bæinn.
Og minna verður væntanlega á þessum síðum á morgun laugardag, því þá verð ég í boði Kiwanis á ferðalagi austur á land, til Húsavíkur, og kem ekki til baka fyrr en að kvöldi sama dag.
Þá mun ég ma. fara að vinna að ljósmyndum sem teknar verða í þeirri ferð og birti eitthvað á þessari síðu, en það er af eldri borgurum bæjarins, sem Kiwanisfélagar á Siglufirði bjóða árlega, af sinni rausn, til dagsferðar um landið.
25. Júlí Loðnuveiði virðist lokið, ef marka má hljóðið í verksmiðjukörlunum, en alls hafa borist hingað 32.146.001 kg og mun Siglufjörður hafa tekið á móti mestu magninu af loðnu á þessari vertíð. Að auki komu hingað tæp 1000 tonn af kolmunna.
27. júlí Eldri borgarar, 78 talsins, í boði Kiwanisklúbbsins Skjaldar, kom úr ferð sinni um 10 leitið í gærkveldi, eftir mjög vel heppnaða og ánægjulega ferð. Hópurinn var mjög heppinn með veður, sól og hiti við brottför, þoka og suddi í Skagafirði og Múlanum, sól á Ólafsfirði, Akureyri og síða alla leið til Húsavíkur, þar sem hita var yfir 20 °C. -- 100 myndir frá ferðinni á tenglunum Eldri borgarar 2003
27. Júlí Loksins, í morgun rættist gamall draumur hafnarstjórnar og Siglfirðinga, um fyrstu uppskipun á gámum á nýju Óskarsbryggjuna. En í morgun losaði Mánafoss nokkra frystigáma, er tengdir voru síðan rafleiðslum bryggjunnar. Óskarsbryggja og lóðin henni tilheyrandi, er fyrirhugað pláss fyrir fyrstaflokks aðstöðu með viðkomandi tækjabúnaði, fyrir allt að 100 gáma. Þegar þetta verður tekið í gagnið að fullu, mun um 8 klukkutíma sigling sparast fyrir flutningaskipin, miðað við að losna við að fara með gáma til Akureyrar, sem síðan hefur verið dreift á aðrar Eyjafjarðarhafnir of. staði. Pláss það sem er á gömlu Hafnarbryggjunni er bæði of lítið og óhentugt og því tími til kominn að gera breytingar. En full not þessarar aðstöðu kemur því miður ekki í gagnið að fullu eins fljótt og vonast var til þar sem svikin loforð ríkisstjórnarinnar vegna Héðinsfjarðarganga, frestast um þrjú ár miðað við það sem hefði orðið ef lægsta tilboði í göngin hefði verið tekið. Önnur myndin sýnir gámana og einnig límtrésbita til hægri, sem koma eiga í Bátahúsið hjá Síldarminjasafninu.
27. Júlí Leyfið komið (munlegt) Leyfið sem sagt er frá hér framar í fréttinni Trillukarlarnir. En Sigtryggur Kristjánsson hefur beðið eftir kerfiskörlunum vegna þess. En það er komið, það er að segja að það hefur verið póstlagt, en honum sagt að hann geti hafið vinnu við flotkvíar sínar samkvæmt því þó hann hafi ekki fengið leyfið í hendurnar. Önnur flotkví, fullbúin til notkunar liggur nú í innri höfninni, ftilbúin til flutnings, en beðið er eftir minnkandi straumi og logni, þar sem svona kví er þung í drætti. Myndir sýnir nýju kvína og er gamla Dúvan SI í forgrunni, sem hefur verið úrelt.