Á dögunum var Chris á fjölmennri ráðstefnu í Króatíu og kynnti
Síldarminjasafnið. Þar hugsaði fólk: Hann er hinn dæmigerði norræni maður, ljós yfirlitum, hár og sterklegur - en skrýtið hvað hann talar góða ensku af Íslendingi að vera. Hér heima telur fólk hann einnig af norrænum uppruna en undrast hvað hann talar góða íslensku. Hver er Chris?
Hann heitir Christofer Bogan, Kanadamaður af rússneskum og enskum rótum, fæddist árið 1972 og nam sagnfræði í háskóla Í Vancouver með sérstakri áherslu á útgerðarsögu. Eftir nám vann hann við safn og menningarsetur í Vancouver sem er í gamalli verksmiðju sem áður hýsti síldarbræðslu og laxaniðursuðu.
En þarna á vesturströnd Kanada var á 20. öld fjöldi slíkra verksmiðja. Áhugi hans á síldinni var slíkur að hann var í gamni kallaður "the herring boy" af samstarfsfólki sínu.
Því lá beinast við að flytja sig um set - eða yfir hálfan hnöttinn - eftir að hann kynntist Síldarminjasafninu á internetinu og í ljós kom að Örlyg vantaði duglegan og vanan mann til að hjálpa sér við hreinsun og uppsetningu gömlu verksmiðjugripanna - og búa til síldarverksmiðjusafn.
Chris kom hingað til vinnu sumarið 2000 og starfaði í rúmt ár í Áhaldahúsinu þar sem hann lærði að tala sína ágætu íslensku (og sennilega fljótar og betur en í Háskólanum!).
Í tvö ár hefur hann svo unnið á safninu eins og áður er lýst. Nú er Chris farinn heim til kærustunnar sinnar og verður þar eitthvað fram á næsta ár en ætlunin er að hann komi aftur til starfa með vorinu.