Fréttir 26.-31. ágúst 2003
26. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Sveinn Þorsteinsson hafnarvörður, fæddur 15. desember 1892 -- dáinn ?
26. ágúst, þessi regnbogi lét sjá sig kl. 15:34 í gærdag
26. ágúst. Malbikun hélt áfram á fullu í morgun á Gránugötunni þrátt fyrir rigningarsudda. Aðilar frá Akureyri sjá um verkið og keyra efninu þaðan. Nokkuð margar ferðir þungra bifreiða með malbikunarefnið sem keyrt er um Lágheiði, hefur leikið veginn nokkuð illa. Haft er fyrir satt að um þessar mundir sé vegurinn um Lágheiði vart fær fólksbifreiðum af þessum völdum.
27. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Bergur Guðmundsson tollvörður fæddur. 25. september 1900 --- dáinn 5. maí 1988
27. ágúst Vel gengur við bryggjusmíðina sem verið er að vinna við framan við Síldarminjasafnið.
27. ágúst Rækjutogarinn Askur kom í gær með um 130 tonn af frosinni rækju eftir vel heppnaða veiðiferð, sem verið er að skipa upp í dag. Rækjan fer til vinnslu hjá Pólar
27. ágúst Hrefnuveiðibáturinn Halldór Sigurðsson kom til Siglufjarðar í gærkveldi um 11 leitið með hrefnu. Þeir náðu henni rétt utan við fjörðinn, gerðu að henni hér úti á firði, komu fyrir í körum sem síðan verða flutt héðan "suður" með flutningabíl. Eysteinn fisksali sagði, eftir að hann var spurður um hvort við Siglfirðingar mundum ekki fá að smakka á þessu góðgæti. Að það væri ekki hlaupið að því að fá þessa afurð þar sem fyrst þyrfti að flytja hana suður til einkasöluaðila og síðan aftur norður og þá væri tæpt að sú fyrirhöfn skilaði nokkrum arði. Rækjubáturinn á við smávegis bilun í vélabúnaði sem Guðmundur Lárusson frá Rafbæ er að vinna í, að því loknu mun báturinn halda á veiðar á ný.
27-28. ágúst Fréttatilkynning: Sitkalúsafaraldur á Siglufirði í uppsiglingu. Mikill sitkalúsafaraldur hefur verið á sunnanverðu landinu. Allvíða á höfuðborgarsvæðinu sjást skemmdir á grenitrjám, og hafa garðeigendur í sumum tilfellum þurft að fella tré sem hafa verið mjög farin að láta á sjá eftir lúsina.
Varðandi Siglufjörð þá má sjá yfirlitskort um útbreiðslu lúsarinnar á vef Skógræktar ríkisins undir úttekt á sitkalús 2003.
Guðmundur Halldórsson skordýrafræðingur og sérfræðingur í sitkalús, hefur ferðast um allt landið og skoðað greni tré.
Á yfirlitskorti má sjá að lúsarfaraldrinum er skipt niður í sex stig, eftir því hversu slæmt ástandið er. Höfuðborgarsvæðið er á stigi sex, þar sem miklar skemmdir hafa orðið.
Það sem vekur athygli og áhyggjur er að Siglufjörður er á stigi fjögur sem þýðir töluverð lús. Þessi athugun var gerð í lok mars af Guðmundi Halldórssyni. Akureyri, Dalvík og Ólafsfjörður voru líka kannaðir, en þar finnst lítil sem engin lús. Þetta er mikið áhyggju efni sérstakalega ef við fáum annan mildan vetur en þá nær lúsin að fjölga sér.
Eina leiðin er að úða með permasect eitri á trén. Ég hef einu sinni úðað í skógræktinni í nokkra daga og einnig reiti sem bærinn á.
Það er hægara sagt en gert að fara úða alla skógræktina. Garðeigendur eru hvattir til að skoða grenitré sín vel og bregðast skjótt við. Hægt er að hafa samband við mig í s.695-3113 ef þið viljið úðun á vegum bæjarins. Arnar Heimir Jónsson, Umhverfis og garðyrkjustjóri
Meðfylgjandi myndir er af einu af sýktu tré á Sigló + lús sem er innan við m.m. að lengd
28. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Jónas Björnsson vigtarmaður. Fæddur 25. júní 1916 -- dáinn 9. september 1993
Jónas Bergsteinn Björnsson
28. ágúst Arnar Heimir er um þessar mundir að helluleggja og garðskeyta svæðið vestan við Skálahlíð. Snyrtilegt og aðgengilegra fyrir eldra fólkið.
29. ágúst Starfsmenn Suðurverks, þeir sem vinna við snjóflóðagarðana og eru við það að hræða líftóruna úr sumum húsfreyjunum í húsunum fyrir neðan þá þegar þær bregða augunum upp hlíðina og sjá tæki þeirra við hrikalegar aðstæður í brattri hlíðinni. Þessi mynd, var tekin í gær í kaffitíma þeirra um 4 leitið. Smelltu hér á MYNDIR til að sjá fleiri myndir.
29. ágúst Nýlega voru opnuð tilboð í uppsetningu stoðvirkja vegna snjóflóðavarna á Siglufirði, það er í Gróuskarðshnjúk, (aldrei heyrt þetta nafn fyrr) á svæði sem oftast er kölluð Hvanneyrarhlíð ofanverð, norðan Hvanneyrarár á svæðinu uppi nálægt þar sem lúpínan hefur breytt úr sér.Alls buðu 6 fyrirtæki í verkið, þar á meðal SR-Vélaverkstæði hf. sem átti næstlægsta tilboðið sem svarar tæplega 71% af kostnaðaráætlun.
Íslenskir aðalverktakar buðu lægst, þ.e. tæplega 58% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboðið kom frá Ræktunarsambandi flóa og skeiða, 277% yfir kostnaðaráætlun. Nefnd stoðvirki eru að svipaðri gerð og efsti hluti þeirra sem fyrir eru nokkru sunnar og sett voru upp fyrir 2-3 árum. Gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið fyrir 1. október 2004
30. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Óskar Guðlaugsson skósmiður. Fæddur: 5. ágúst 1909 -- dáinn: ?
30. ágúst 70 tonna jarðýta kom yfir Siglufjarðarskarð í morgun, ekki vegna hins fagra útsýnis sem þar er oft, heldur vegna þess að ekki var hægt að koma henni í gegn um Strákagöng vegna stærðar. Flutningavagn flutti ýtuna að veginum að Siglufjarðarskarði vestanverðu og tók síðan við henni Siglufjarðarmegin þegar ýtan var komin niður að austan. Ekki þó sami vagn, heldur annar, en sá fyrri brotnaði er verið var að keyra ýtuna af vagninum vestan við Skarðið. Ekki var það vegna þungans sem sameiginlega var yfir 80 tonn, þrátt fyrir að ýtan hafði enga tönn, og annað sem tekið hafði verið af henni til að létta hana fyrir flutninginn. Hroll setti að mönnum vegna brotna vagnsins og var hugsað til þess hefði hann brostið úti á þjóðvegi í beygju og hliðarhalla. þá hefði farartækið oltið með öllu sem því fylgdi með ófyrirséðum afleiðingum. Myndir af vagninum, suðubrestinum á grind vagnsins og fleiru sjást ef þú smellir tengilinn Jarðýta 70 tonn
31. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Páll G Jónsson byggingameistari fæddur: 12. september 1917 -- dáinn 23. mars 1988 -- Páll Gísli Jónsson
31. ágúst "Engar fréttir eru góðar fréttir" segir máltækið, en á morgunrúnti mínum fann ég ekkert markvert. Mánafoss var jú að losa og lesta gáma eins hann gerir um hverja helgi. Það var rigningarsuddi aldrei þessu vant, en hlýtt og milt veður..