FRÉTTIR: 1.- 6. ágúst 2003
Fréttir 1.- 6. ágúst 2003
1. ágúst - "Hann setti svip á bæinn" Sigurður Björgólfsson, kennari, starfaði áratugi sem kennari barnaskólans á Siglufirði. Hann var lengst af ritstjóri Siglfirðing, stundaði allskonar ritstörf, svo sem ljóðagerð ofl. Hann var meðal annars þekktur af hinni frægu drápu, "Síldareinkasölu Kantata Íslands" sem hann orti á dagparti ásamt Kristjáni Þorgeir Jakobssyni og Stefáni Stefánssyni. (heimild bók Björns Dúasonar "Síldarævintýrið á Siglufirði") Hann var vinsæll maður jafnt á meðal fullorðinna og þeirra barna sem hann hafði afskipti af vegna starf síns sem kennari. hann var fæddur, 11. desember 1887, og dó 10. desember 1964. Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson
1. ágúst 2003 Síldarævintýrið er hafið. Viðkomandi mynd er tekin 26. júlí sl. Þennan dag var 25.3 C° uppi í Hvanneyrarskál, klukkan 17:00. Vonandi fáum við a.m.k. 1-2 svona daga um helgina.
1. ágúst Áður veitti Öldubrjóturinn hafskipum skjól, en núna fögrum blómum. - Þessa sérstæðu mynd sendi Sveinn Þorsteinsson mér í gærkveldi, með ofanrituðum texta. Þetta er mynd af vestasta hluta (landmegin) Öldubrjótsins sem fengið hefur nýtt hlutverk. Hvernig væri að einhver gerði vísu eftir fyrirsögninni og sendi mér? Ein vísa er komin: Áður fyrrum brimið braut
bátum vel að hlúði.
Finnst þar núna fögur laut
með firn af blóma skrúði.
N.N.
1. ágúst Ég nefndi í gær ljósin á ljósastaurunum við Túngötu. Ég er búinn að fá skýringuna senda í tölvupósti, hér kemur hún:Varðandi ljósastaurana, þá kom upp það vandamál þegar gosbrunnurinn var settur upp að ekkert rafmagn var inn á torgið nema úr kassanum framan við Rafbæ. Það þarf að vera kveikt á staurunum þegar brunnurinn er í gangi. Mér var ekki kunnugt um þetta þegar ég var að undirbúa þetta og ekki heldur þeir hjá bænum. Þetta er auðvitað skrítið, en stendur fljótlega til bóta þegar þeir grafa lengra á Gránugötunni. -- kveðja, Arnar.
Nefndur rafmagnskassi var útbúinn og notaður til að tendra jólatréð á torginu um jólin , þá var hvort að er kveikt á götuljósunum í skammdeginu og engum fannst það óeðlilegt S.K.
1. ágúst Síldarævintýrið, tjöldum, tjaldvögnum og húsbílum er óðum að fjölga á tjaldstæðum bæjarins. Þessi mynd var tekin rúmlega 8 í morgun af tjaldstæðum við Torgið, einnig var kominn á öll hin tjaldstæðin nokkur hópur. Sólin var komin upp og hitastig komið upp í 15 C°
1. ágúst Þessi fallega skúta, Gógó, frá Akureyri var að leggjast að Ingvarsbryggju í morgun sárið.
1. ágúst Útskipun á rækju, stóð yfir hjá rækjuverksmiðjunni Pólar í morgun.
1. ágúst Sjóstangaveiðikeppni, stendur yfir nú um Verslunarmannahelgina á Siglufirði. Keppendur komu úr vel heppnaðri ferð seinnipartinn í dag. Þessi mynd sýnir er verið var að landa afla úr einum bátnum. Alls eru keppendur um 50 talsins. Myndir frá keppninni og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
1. ágúst Miðaldamenn, léku á torgini í dag af fullum krafti. Ekki var mjög margt fólk viðstatt, þó svo að talsverður fjöldi væri kominn í bæinn. Sólarlaust hefur verið seinnipartinn, en 13-15 C° hiti og gola. Myndir frá þessum atburði og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
1. ágúst 21:40 Hljómsveitin Hljómar Lék á alls oddi, í kvöld, ásamt fleiri hljómsveitum sem fram komu á torginu.Veður fór hlýnandi, 15 C° er leið á kvöldið og algjört logn, sem gerði kvöldið ánægjulega, ekki treysti ég mé til að áætla fjölda, ég læt öðrum það eftir. Myndir frá þessum atburði og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
1. ágúst 22:40 Það var eins og komin væri bæði jól og þorri, að líta inn í Fiskbúð Siglufjarðar í kvöld, allstaðar sem litið var mátti sjá allar mögulegar tegundir tilbúinna rétta, þorramat, jafnvel "jólamat", meir að segja girnilegar kótelettur, tilbúnar til neyslu, svo eitthvað sé nefnt, og auðvitað hjónakornin sjálf við afgreiðslu Abbý og Eysteinn.Myndir frá þessum atburði og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
2. ágúst. Siglufjörður skartaði sínu fegursta í morgun, glampandi sól, logn og hiti. Tjaldvögnum, húsbílum og tjöldum hefur fjölgað verulega vegna Síldarævintýrisins, Tjaldstæðin á efra Torginu, neðra Torginu hjá Þ.R.S. og öllum þar á milli eru að fyllast, auk þess sem einnig var tjaldvögnum komið fyrir á Hóli þar sem nægt pláss er og víðar, auk þess að fólk gisti hjá vinum og ættingjum. 18 C° hiti, er kominn núna kl. 11:00 þegar þetta er sett á netið.
2. ágúst. Ljóðaborðið Tvær vísur hafa komið til viðbótar, ljóðunum á borðinu, norðan við skiltið við innkeyrsluna í bæinn.
2. ágúst Síldarævintýrið hélt áfram, í blíðskaparveðri í dag, um og yfir 20 C° hiti var að mestu, en aðeins kólnaði, er þoka læddist inn fjörðinn með hafgolunni. En allir skemmtu sér konunglega, en á þessari mynd sjást Fílapenslarnir skemmta af sinni alkunnu snilld.Myndir frá þessum atburði og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
2. ágúst Hlöðver Sigurðsson átti hug og hjörtu allra viðstaddra og fékk meira klapp og hrós en aðrir að öllum öðrum ólöstuðum. Ég sjálfur, hefi ekki heyrt til hans áður, en heyrt aðra dásama söng hans, en ég varð í raun dolfallinn af hrifningu og ákveðinn í því að missa ekki af honum á morgun er hann syngur aftur fyrir hátíðargesti á Torginu. Kristján Jóhannsson hefur alltaf farið í taugarnar á mér og ég forðast að horfa eða hlusta á hann í sjónvarpi vegna neikvæðrar framkomu og söngstíl að mér finnst sem ég kann ekki að meta. -- En Hlöðver, hann er betri - Það koma engir neikvæðir straumar frá honum aðeins hrífandi framkoma og söngur. Myndir frá þessum atburði og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
2. ágúst 21:15 Tillaun til flugtaks, Ungur ofurhugi ætlaði sér að fljúga um loftin blá í kvöld, en flugtak mistókst, þar sem vindur sem þarf til svona flugtaks lét ekki á sér bæra, það var logn. Beðið var um stund eftir að vind hreyfði, en þegar andvarinn kom (ekki vindur) þá reyndist andvarinn koma úr öllum áttum. og gerði allar tilraunir til flugtaks ómögulegar. Þetta er vélknúin "rella" með vængi úr léttum nælondúk. Ofurhuginn, er Siglfirðingur (búsettur í Noregi) og heitir Ragnar Mikaelsson, (bróðir Regínu Mikka.) Myndir frá þessum atburði og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
2. ágúst 23:15 Ég segi góða nótt, með þessari fallegu mynd (að mér finnst) sem tekin var klukkan 11:15 í kvöld. Það var logn og 12 C°hiti.
3. ágúst. "Hann setti svip á bæinn" Guðmundur Óskar, held ég þessi maður hafi heitið. Ég man vel eftir þessum reffilega karli þegar ég taldist unglingur, þó svo að ég viti raunar ekkert um hans persónu. En hann vakti athygli hvar sem hann var. Ég held hann hafi verið smiður, það er allt og sumt sem ég veit um hann. Þeir sem vita betur vinsamlega sendið mér línu.
3. ágúst 10:15 Það var þoka og suddi í morgun þegar ég vaknaði (kl:07:00) og ekki nema 12 C° hiti. Ég hafði ætlað mér að fara upp í Hvanneyrarskál kl. 11:00 til að fylgjast með mess7unni sem þar fer fram, en ég held ég sleppi því að þessu sinni, og því engar myndir því tilheyrandi.
En ég fer á kreik eftir hádegið, meðal annars á útitónleikana hans Hlöðvers Sigurðssonar sem verða kl. 15:00
3. ágúst 12:35 Hvanneyrarskálarfarar komu út þokunni og suddanum rúmlega 12:30 eftir messu sem haldin var uppi í Hvanneyrarskál. Hestamenn mættu að vanda, ein jeppabifreið hafði áður komið niður. Frekar fátt var um gangandi í hópnum og má að sjálfsögðu ætla að veður hafi spillt fyrir að fleiri hafi mætt. (það á meðal annars, við um mig.)
3. ágúst Ekki veit ég hvað hún heitir þessi litla snót, í gervi Línu langsokks, en hún var einn af mörgum krökkum sem þátt tóku í söngvakeppni krakka í dag, við mikinn fögnuð, barna og fullorðinna.Þrátt fyrir nepju og kalda, þá mættu fleiri á Torgið eftir hádegi, en margir áttu von á. Hápunturinn á dagskránni var söngur Hlöðvers Sigurðssonar, sem söng að þessu sinni nær eingöngu, vinsæl dægurlög, sem áhorfendur kunnu vel að meta. Margt fleira var á dagsskránni, td. dorgveiðikeppni barna, en það var á sama tíma og dagskrár á torginu, svo engar myndir frá mér voru teknar þar. (ég er eini starfsmaður þessarar síðu). Myndir frá þessum atburði á Torginu og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
3. ágúst 20:00 Grillað á fullu, þó svo að maður hefði fyrir um klukkustund, lokið sínum kvöldverði, var ekki laust við a maður yrði svangur aftur, því "grillangan" sveif um loftið í andvaranum hvar sem maður var nálægt tjaldstæðunum, allstaðar var verið að grilla, og eða neyta grillmáltíðar. Börnin hlupu um í leik, eða voru að dorga á bryggjunum. Hitinn hafði aðeins stigið seinnipart dagsins og allur raki löngu farinn úr loftinu, en aðeins farið að vökna í sumum þeirra fullorðnu er líða tók á kvöldið, en allt eins og það á að vera, "hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta". Viðbótar myndir, þó ekki tengdar "Torginu" á tenglinum Myndir frá þessum atburði á Torginu og fleiru má sjá frá tenglinum Síldarævintýrið 2003
4. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Kristfinnur Guðjónsson ljósmyndari. Þennan mann ætti ekki að þurfa að kynna. Hann er öllum eldri Siglfirðingum þekktur, fyrir prúðmennsku og vinsemd í garð allra. Ég á honum persónulega mikið að þakka, því þegar áhugaljósmyndarar þess tíma er ég fór að fást við ljósmyndun og ég leitaði til um fræðslu sem var á þá skornum skammti um myndatökur, þá kom ég að lokuðum dyrum. - En ljósmyndari staðarins, Kristfinnur gaf mér góðar vísbendingar og gaf mér ma. mínar fyrstu kemikalíur til framköllunar, hann leiðbeindi mér og sagði mér hvar og hvernig ég gæti nálgast efnin sem ekki var auðvelt að nálgast hér í bæ. Hann var öllum hjálpsamur. Kristfinnur er höfundur hundruð þúsunda mynda sem í safni mínu eru en safn hans keypti ég eftir lát hans.
4. ágúst 10:00 Lítil hreyfing, var á fullorðna fólkinu á tjaldstæðum bæjarins í morgun, en börnin voru víða að leik í ekta Siglufjarðarveðri; logni, sól og hita.
4. ágúst. Stálvíkin SI 1 var að losa rúmlega 35 tonn af rækju til Þormóðs Ramma Sæberg hf. og í gær kom hingað Kanadískt skip Green Arctic, með um 350 tonn af frosinni rækju til Þ.R.S
4. ágúst Fréttamat, er hugtak sem auðvelt er að gagnrýna, það sýnist oftast sitt hverjum, meðal annars hvað hér á þessum síðum birtist. Ég er til staðar og reyni eftir bestu getu að finna efni sem fjöldinn kann að hafa áhuga á og hefi hvatt lesendur til að gefa mér ábendingar.
Lítið hefur borið á ábendingum um efni en þeim mun fleiri hafa látið ánægju sína í ljós varðandi síðuna "Lífið á Sigló"
En ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um "Fréttamat" er sú að ég hefi tekið eftir því undanfarna daga að "fréttamat" þeirra á útvarpi "allra" landsmanna virðast ekki beinast að Síldarævintýrinu á Siglufirði, ef tekinn er frá fyrsti dagurinn.
Aðal áhugi þeirra virðist vera á þeim stöðum útihátíða sem eitthvað hefur farið úrskeiðis og sökudólgnum Árna Jonsen, annað virðist ekki ástæða til að nefna í fréttum RÚV þeir hafa engan áhuga á að fjalla um þær útihátíðir þar sem allt gekk upp og lögreglan á viðkomandi stöðum hafði það rólegt.
Hvað varðar Bylgjuna og Stöð 2 má segja það sama, nema að því leiti að þeir vita varla að Siglufjörður sé til, eða hafa áhuga á neinu nema það sé neikvætt. Ég hefi ekki lesið blöðin enn, en forvitnilegt verður að skoða þau.
4. ágúst Nýtt efni. Nú gefst lesundur síðu minnar kostur á að senda til mín ljósmyndir, í tölvutæku formi og einnig frumsamin ljóð og vísur, eða áður óbirt efni. Smellið á netfang mitt og sendið efni. Aðsendar myndir Ljóðin
Munið að einnig er tekið á móti stuttum greinum, eins og hingað til.
4. ágúst 20:40 Rækjubáturinn Keilir SI 145 varð fyrir því óhappi í kvöld er hann var að búast á veiðar að þegar hann fór út frá dokkinni við innri höfnina þá fór hann of austarlega í hina þröngu rennu sem þarna er og strandaði, en það var fjara og því vansiglt, út rennuna.. Reynt var að hjálpa bátnum úr strandinu, en tókst ekki. En engin hætta var á ferðinni, blankalogn og sandbotn - og 3-4 tímar í háflóð og þá sennilega laus af sjálfdáðum. Ég bíð ekki eftir því.
5. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Magnús Eðvaldsson bifreiðastjóri heitir hann. Þetta var rólegur og hlédrægur einbúi og bjó lengst af á "Ásnum" fyrir handan fjörð (þar sem Örlygur Kristfinns dvelur á sumrin. "í dag") En þrátt fyrir hlédrægnina, tóku menn eftir honum, hann var rökfastur í umræðum þá þegar, hann tók þátt í þeim, enda vel lesinn, bæði á fræðibækur og aðrar bókmenntir. Magnús var fæddur 15. júlí 1903 og lést 75 ára, þann 21. febrúar 1979
5. ágúst Tæringarrekkar. Þessi tæringarrekki hefur verið til staðar á Siglufirði um árabil, sunnan við Rafstöðina við Hvanneyrará og raunar sambærilegir rekkar í öllum landsfjórðungum og tæring mismunandi efna / klæðninga borin saman og hafa ýmsar fróðlegar upplýsingar þegar komið fram, sjá : www.habygg.is Sá sem hefur haft veg og vanda að þessum rannsóknum heitir Jón Sigurjónsson og er yfirverkfræðingur á Rb. Óskir þú frekari fróðleiks má hafa beint samband við hann , b/s. 570-7315 eða sigurjonsson.j@rabygg.is Sé farið á vefinn www.habygg.is má finna ýmsar aðrar fróðlegar upplýsingar, um byggingariðnaðinn, sem gagnast bæði fagmönnum og hinum almenna húseiganda.
5. ágúst Lítið var að frétta í morgun, lífið var að komast aftur í sinn vanalega farveg eftir ánægju helgarinnar. Sunnan SI 67 liggur enn aðgerðalaus í höfninni, Múlaberg og Keilir SI 145 liggja við Ingvarsbryggjuna, en bilun í tölvubúnaði tafði brottför í gærkveldi eftir strandið. En Keilir komst á flot á flóðinu, og engar skemmdir urðu á bátnum.
5. ágúst 20:45 Vegagerðin var að vinna að viðhaldi á Hvanneyrarbrautinni fyrir framan húsið nr. 80, nú í kvöld. Talsverðar ójöfnur og holur voru komnar í slitlagið. Þeir löguðu malbikið af vandvirkni og þekkingu.
6. ágúst. "Hann setti svip á bæinn" Guðmundur Bjarnason, lýsiskaupmaður. Ekki get ég sagt að ég muni vel eftir þessum manni, en hefi aftur á móti heyrt ýmsar sögur af honum og lesið um hann, ma. í bókinni Siglufjörður 1818-1918. Hann starfaði lengst af sem lýsisbræðslustjóri hjá Gránu, hann var mjög röggsamur verkstjóri. Þá stundaði hann lýsisbræðslu og sölu á eigin vegum. Ég man eftir þeirri aðstöðu sem hann hafði við það, sennilega rústunum eftir það, en pottarnir voru ofarlega í fjörunni á steinundirstöðum, fyrir sunnan braggann (Óskarsbragga) -- og um það bil beint fyrir neðan, Hvanneyrarbraut 66b, sem enn stendur. Guðmundur var fæddur þann 6 september 1864
6. ágúst 09:30 Vaðandi síld Færabátarnir hafa verið að afla all þokkalega að undanförnu, og í gær bar það til tíðinda að sjómennirnir sáu um allan sjó á Skagagrunninu vaðandi síld og margir þeirra fengu stóra og væna síld á krókana. Meðfylgjandi mynd sýnir einn færabátinn Garri BA 90, að landa í morgun, ekki var þó síld í þessum bát, svo engin "síldarmynd" fylgir.
6. ágúst. Hvalveiðar. Eins og kom fram í fréttum í morgun var tilkynnt að veiðar á hrefnu gætu hafist síðar í þessum mánuði. Þetta er mikið fagnaðarefni þeim til handa sem hafa saknað þess að neyta hins ljúffenga matar sem hvalkjöt er, sé það rétt matreitt. Hinir svokölluðu "hvalavinir," atvinnumótmælendurnir (hafa atvinnu af því að mótmæla) eru auðvitað æfir, eins og venjulega þegar einhver gerir eitthvað annað en það sem þeir trúa á. Þetta er eins og með þessa sem trúðu á Stalín forðum, hann var guð þeirra sem kölluðu sig öreiga allra landa og allt var rétt og dásamlegt sem hann sagði, en annað kom á daginn. Það er margsannað að nóg er af hval í sjónum og hann er eitt þrep matarkeðjunnar sem við eigum þátt í og eigum að njóta. Ég hlakka til þegar fyrsta hrefnan kemur á land á Siglufirði - og verð fljótur að nálgast bita.
6. ágúst Primex, er eitt af þeim fyrirtækjum sem starfa á Siglufirði, en fyrirtækið er það eina á landinu sem vinnur afurðir úr rækjuskel, afurðir sem heita Kítin og Kítosan. Þetta er flókið ferli, sem þarfnast mikillar vandvirkni við framleiðslu. Efnin eru mikið notuð jafnt í matvælagerð og öðrum iðnaði. Ekki ætla ég að fara út á hálli ís en nú þegar og reyna að lýsa öllum þessum ferli, en: "Kítin er náttúruleg fjölsykra sem finnst meðal annars í ytri stoðgrind skordýra og krabbadýra. Grunneining kítins er N-acetyl glúkósamín (NAG). Ýmsar afleiður kítins eru þekktar en sú algengasta er kítósan"Segir í erindi Soffíu Sveinsdóttur, Primex ehf nánar hér á þessum tengli: http://www.raunvis.hi.is/%7Emarb/malstofa/EfMalstV03SS.htm
Ég heimsótti verksmiðjuna í dag og tók þar nokkrar myndir, af því starfsfólki sem þar var við vinnu. Tengillinn til mynda: Primex -- http://primex.is/
6. ágúst 16:00 Siglufjarðarskarð (630 mtr.h.y.s)Þann 15. Maí 1935 hófst framkvæmd við vegagerðina, undir verkstjórn Lúðvíks Kemp frá Illugastöðum í Skagafirði. Vegurinn var formlega tekinn í notkun 27. ágúst 1946. Ofanritaður texti og fleiri upplýsingar ásamt ljósmyndum tengdum "Skarðinu" prýða skilti það sem Vegagerðin hefur komið fyrir uppi í Siglufjarðarskarði. Ég skrapp þangað upp í dag og tók nokkrar myndir, (tengillinn Siglufjarðarskarð). Mér var hugsað til þess tíma er ég í fyrsta sinn fór "þessa leið" , en það var á hestbaki að vori árið 1944, þá 10 ára gamall á leið "í sveit" að Stórureykjum í Fljótum. Þá var verið að vinna við veginn. Og síðar er ég keyrði veginn fyrst, sem "farþegi" hjá Bigga Run. 16 ára unglingur. Í dag er vegurinn nánast eins og hann var í þá daga. Skoðið myndirnar