Fréttir 13.-17. ágúst 2003
13.ágúst "Hann setti svip á bæinn" Snorri Stefánsson framkvæmdastjóri, fæddur 6. ágúst 1895, dáinn 23. janúar 1987 - Að sérstökum ástæðum, þá er hér meira um Snorra.
13. ágúst. Lítið nýtt er um að vera í bænum okkar, það sem af er degi. Vitað er um nokkra ólánssama tölvunotendur, sem hinn skæði vírus W32/Msblast.A, heimsótti og gerði usla hjá og hefur Júlíus Hraunberg hjá Rafbæ hafist handa við að bjarga því sem bjargað verður.
Eins og kunnugt er af fréttum, þá ræðst vírusinn aðallega á WindowsXP stýrikerfi. Ekkert hefur frést, að fyrirtæki eða opinberir aðilar hér hafi orðið fyrir árásum.
13. ágúst Aðsend frétt (tengd Siglufirði) "Fram stúlkur unnu í 4.flokki A á Pæjumótinu. Þetta eru 13.ára stelpur og það skemmtilega við þær er að fyrirliðinn Karen Knútsdóttir og svo Stella Sigurðardóttir eru langömmu og langafabörn Kjartans Bjarnasonar sparisjóðsstjóra þær eru barnabörn Stellu Kjartans og Braga Einarssonar einnig frá Sigló Svo Siglfirðingar áttu nú smá í þessum sigri." kveðja (Soffía)
13. ágúst Viðurkenningar fyrir fallegt umhverfi 2003 hlutu tveir garðar í dag. Garðurinn á Laugarvegi. 35 og garðurinn Fossvegi.9. Garðarnir eru mjög snyrtilegir og mikil vinna liggur að baki þeim báðum. Mikill hæðarmismunur er frá götunni í þeim báðum og er leystur á skemmtilegan hátt í báðum görðunum með grjóti og timburveggjum. Mikið úrval er af bæði fjölærum og trjákenndum plöntum og áberandi fallegt gras á báðum stöðum. Viðstaddir voru Bæjarstjórinn Guðmundur Guðlaugsson, Arnar Heimir Jónsson garðyrkjufræðingur, ásamt dómnefnd, svo og verðlaunahafar.
13. ágúst 15:14 Línan stokkuð Þessi ungi maður flutti sig út úr "beitningaskúrnum" og út í sólina á meðan hann gekk frá fiskilínu sinni. Hann notar "evrópubretti sem upphengi fyrir línustokkana og virðist una sínum hag vel í blíðunni.
14. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Flóvent Jóhannsson, verkstjóri hjá Siglufjarðarkaupstað Fæddur 17. febrúar 1871 - dáinn 10 júlí 1951
14. ágúst Flutningaprammi bræðranna frá Reyðará, Hjalta og Stefáns Einarssona. Sem þeir sjósettu í gærkveldi. Þeir eru að undirbúa flutninga á byggingarefni ofl. út á Siglunes, þar sem þeir ætla að fríska upp á gamla bæinn Reyðará. Neðri myndin sýnir prammann í togi aftan í Emmu SI á leið frá Siglunesi í morgun kl. 10:14. Hjalti og sonur Stefáns standa á prammanum, en Stefán væntanlega í brúnni á Emmu. --Meðal annars fóru þeir með fulllestaðan vörubíl af byggingarefni, ofl. Þeir fóru fleiri en eina ferð með varning. Þorskuppeldisstöð "Sidda" sést í bakgrunni myndarinnar.
14 ágúst 09:25 Tvær skútur heimsóttu okkur í gærkveldi og lágu við Ingvarsbryggju, önnur þeirra, Haukur frá Húsavík lá við vesturkantinn í morgun þar sem þessi hnáta var um borð að lesa í logninu og sólinni, "Eitthvað verður að gera þegar vindinn skorti." Báðar skúturnar urðu að nota vélarafl til að komast hingað. Hin skútan Nína II., lá við austurkantinn. -- Þrjár myndir í viðbót: Skútur
14 ágúst Suðurverk hamast nú á fjallinu fyrir ofan norðurbæinn eftir að hafa farið í stutt "sumarfrí". Sumir fá hroll er það fylgist með tækjunum í hlíðinni og finnst þetta vera hálfgert glæfraverk, en þessir menn kunna greinilega til verka svo ekkert er að óttast.
14. ágúst 15:25 "Ýsa var það heillin" sagði máltækið. Það var ekki laust við að þeir svifu þessir ungu drengir, Fannar og Siggi svo ánægðir voru þeir yfir afla sínum, þessa tvær vænu ýsur sem Siggi heldur á, sem þeir sóttu niður á "Ríkisbryggju".Þeir voru á leiðinni heim með fenginn. Það var og er algengt að fá ufsa og þorsk jafnvel mjög væna við bryggjurnar, en þetta er í fyrsta sinn sem ég veit til þess að ýsa hafi fengist á stöng við "ríkisbryggjurnar".
15. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Hafliði Guðmundsson kennari. fæddur 14. febrúar 1921, - dáinn 16. maí 1984
15. ágúst. Síðustu "snjó"kornin. Snjóblettirnir í fjöllunum okkar hafa aldrei verið færri en nú í sumar samkvæmt því sem elstu menn muna. Aðeins þrír blettir fyrir ofan Skollaskálina og allstaðar horfnir þar fyrir norðan.
16. ágúst -- "Hann setti svip á bæinn" Andrés Hafliðason kaupmaður fæddur: 17. ágúst 1891 dáinn 6. mars 1970
16. ágúst 08:50 Harley Davidson. Inni í skemmunni "hans" Gunna, voru í morgun 14 Harley Davidson gljáandi mótorfákar. En 13 þeirra komu í bæinn í gærkveldi ásamt eigendum sínum að sjálfsögðu, til að heimsækja Gunnar Júlíusson Harley Davidson eiganda með fleiru. Einnig var för þeirra heitið í sjóferð með björgunarsveitarmönnum á Sigurvin, en erindi björgunarsveitarmanna var að kanna hugsanlegan lendingarstað í Hvanndalafjörum og fengu mótorhjóla drengirnir og stúlkur að fljóta með. Þú getur skoða 19 myndi til viðbótar á tenglinum Harley Davidson
16. ágúst 09:05 Nýtt löndunarlið (?) hjá Síldarvinnslunni og Þórði Andersen, virðist tekið til starfa, en alls voru 11 nýir starfsmenn mættir til starfa í morgun á löndunarbryggjuna. (Eða eru þetta starfsmenn hafnarinnar?) Þeir voru dreifðir vítt og breitt um svæðið. -- Þessir nýju starfsmenn virðast hættir að bíta gras, sennilega orðnir vel mettir af því að éta runnana og blómin hans Arnars Heimis garðyrkjufræðings bæjarins. Þessir starfsmenn (?) eru svo réttháir að engin lög ná yfir þá, það má ekki reka þá, það má ekki skjóta þá, ekki heldur skera, þeir eru af hinni vammlausu "Fljótaætt" - og talið er að sumir eigi ættir að rekja til Brúnastaða.
16. ágúst Sigurður Jakobsson ÞH 320 973 Var kominn að bryggju í innri höfninni í morgun við hlið Gissurar. Ekki er mér kunnugt um erindið, en sennilega til geymslu í óákveðinn tíma ?
17. ágúst "Hann setti svip á bæinn"
Guðmundur Hannesson bæjarfógeti fæddur17 mars 1881 - dáinn 14. september 1970 -- Guðmundur Hallgrímur Lúther Hannesson hét hann fullu nafni.
17. ágúst 12:40 Harley Davidson hópurinn yfirgaf bæinn klukkan 12:40 í dag, eftir vel heppnaða helgi í boði Gunna Júll.