1.júlí 2003Lífið á Sigló - er einskonar tilraun, tilraun til að gera það sem margir hafa beðið um en enginn framkvæmt, það er að halda úti Siglfirskri fréttasíðu með ljósmyndum líðandi stundar. Ekki veit ég hvernig til mun takast, aðeins tíminn mun leiða í ljós hvert framhaldið verður á.
Núna, 1.júlí 2003, - eftir að ég hætti störfum hjá SR-MJÖL HF (eða S.V.N.) "vegna 67 ár reglu" sem er í gildi þarna fyrir austan hjá S.V.N., - sem og þurrkaði út 70 ára reglu S.R., þá hefi ég nú nægan tíma til að bæta við mig enn einu áhugamálinu, því þótt ég eigi ekki nema nokkra mánuði í sjöunda tuginn, þá er heilsan góð og áhuginn alveg á fullu, með orku unglings (!) Steingrímur.
Ég hefi hugsað mér að fiska á þeim miðum sem sægreifarnir hafa ekki sölsað undir sig - og engum "kvóta" hefur verið komið á.
En það er að gera það sem ég var nokkuð duglegur við á mínum yngri árum, það er að taka ljósmyndir af mannlífinu og því sem er að ske í bænum - og koma því fyrir almenningssjónir.
Ekki á síðum Morgunblaðsins né annarra blaða - sem áður var, heldur á þeim miðli sem aðgengilegastur er í dag, - á netinu, - hér á þessum síðum.
Ég mun leitast við að taka myndir af fólki á förnum vegi, á vinnusvæðum, fá upplýsingar frá vettvangi og eitthvað fleira sem mér dettur í hug og eða, þeir sem skoða síðuna benda mér á.
Látið í ykkur heyra og smellið "Netfangið mitt" er sksiglo@simnet.is.
Tengillinn "Sérstakar myndir", er tengill yfir á síðu þaðan sem hægt verður að komast til að skoða "stórar myndir" ca 800 pix að breidd. En þessar myndir eru vistaðar hérna megin, með höfuðtengil á síðunni: www.sksiglo.com Ljósmyndasafn Steingríms.
Þá hefi ég áhuga á því að Siglfirðingar heima og heiman sendi inn greinar um menn og málefni bæjarins okkar. (birtar á ábyrgð sendanda)
Ef efnið er talið eiga heima á vef mínum þá mun ég birta það. Viðkomandi þarf að gefa mér upp að minnsta kosti nafn sitt og kennitölu, þó svo að nafn hans komi ekki fyrir undir greininni. Annað kemur ekki til greina.