Grein úr Mjölnir 20. júní 1945
Ljósmyndasýning Sögufélagsins
Fyrir tveimur árum síðan var stofnað hér Sögufélag Siglufjarðar. Tilgangurinn með stofnun þessa félags mun aðallega hafa verið sá að annast ritun sögu Siglufjarðar.
Þótt þessi bær sé ungur að árum, á hann sér þó merkilega sögu. Hér hafa að vísu ekki gerst neinir stórviðburðir á fyrri öldum, sem geri örnefni hér þjóðkunn, en saga Siglufjarðar er svo merk um það að atvinnusaga Íslands verður ekki sögð nema Siglufjörður komi þar verulega við sögu. Svo var um langt árabil t.d., að verslunarafstaða landsins valt á framleiðslu Siglufjarðar.
Til þess að hægt sé að rita þessa sögu, þarf víða að leita eftir upplýsingum og heimildum um einstaka atburði og þætti sögunnar. Sumt geymist aðeins minni manna, sumt er til í gömlum bréfum og skýrslum og svo framvegis.
Öll þessi brot þarf að fella saman svo að úr verði heild. Það er oft lítilfjörlegt, að því er virðist sem getur haft stórmikla þýðingu. Aðeins ein setning, jafnvel eitt orð getur varpað ljósi á atriði sem áður voru óskiljanleg. Það ríður því mikið á að halda öllu vel til haga og það er mikið verkefni, sem Sögufélagið hefur sett sér að leysa.
Ljósmyndasýning sú sem félagið hefur í hyggju að koma upp á þessu sumri, getur haft mikla þýðingu til að vekja upp gamlar endurminningar um það sem liðið er og glæða skilning yngri kynslóðarinnar á þróuninni undanfarna áratugi. En það er svo með þá sýningu að til þess hún geti orðið myndarleg og gefið hugmynd um menn og málefni á undanförnum áratugum, þá er nauðsynlegt að allir þeir sem eiga i fórum sínum myndir frá þessum tíma, bregðist vel við og láni myndirnar á sýninguna. Þetta á jafnt við um þá sem skrifað hefur verið og aðra sem kynnu að eiga myndir. Félagið hefur falið Guðbrandi Magnússyni að sjá um þessa sýningu og ber öllum að snúa sér til hans.
Hér fer á eftir bréf, er Sögufélagið hefur sent ýmsum aðilum í sambandi við fyrirhugaða ljósmyndasýningu:
Sögufélag Siglufjarðar hefur ákveðið að stofna til ljósmyndasýningar nú í sumar, eigi síðar en 10. júlí.
Sýningu þessari er ætlað að bregða upp mynd af menningar og framfaramálum Siglufjarðar svo langt attur úr tíma sem unnt er og allt til vorra daga.
Sögufélagið var stofnað í þeim tilgangi að vinna að útgáfu á Sögu Siglufjarðar. Þessum tilgangi sínum hyggst félagið að ná m.a. með því að koma upp sýningu, ef verða mætti til þess að draga fram í dagsljósið ýmis mikilvæg söguefni.
Í þessu sambandi hefur verð ákveðið að leita til allra hér á Siglufirði, sem líkindi væru til að gætu lánað myndir eða annað slíkt á sýninguna. Vill Sögufélag Siglufjarðar eindregið mælast til þess við yður, að þér Lánið slíkar myndir í þessu skyni.
Myndirnar mega vera stórar og smáar og skal afhenda þær Guðbrandi Magnússyni kennara, Grundargötu 10, sem annast merkingu þeirra og skrásetningu.
Svör þessa viðvíkjandi þurfum við að fá fyrir 1. júlí n.k. Myndunum verður skilað að lokinni sýningu.
Stjórn Sögufélagsins telur að ef félög og stofnanir og einstaklingar ljá máli þessu lið. gæti orðið hér um merkilega sýningu að ræða er gæfi góða hugmynd um þróun atvinnu og menningarlífs i bænum.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Sögufélags Siglufjarðar
Óskar J. Þorláksson - Guðbrandur Magnússon
Sr, Óskar J Þorláksson og Guðbrandur Magnússon kennari
Þessi umrædda sýning fór svo fram í íþróttasal barnaskólans.
Myndirnar hér eru úr safni mínu, sem Kristfinnur tók við það tækifæri.