GARÐÁLFURINN
Þrítugur garðyrkjumaður Siglufjarðar Arnar Heimir Jónsson.
Gott er að vita til þess að bæjarstjórnendur viðurkenni hve bráðnauðsynlegur þessi starfsmaður er á staðnum.
Enda hefur hann látið hendur standa fram úr ermum og sáum við fljótt árangurinn – frægast verka hans í sumar varð sennilega gosbrunnurinn á torginu þótt einhver skemmdarfíkinn bæjargosinn hafi haft betur um sinn.
Talað er um hve greiðvikinn Arnar sé og ráðagóður þegar hann er kallaður til þjónustu og ráðgjafar í garða bæjarins og hafa eldri garðakonur alveg sérstakt dálæti á pilti enda dafnaði hann vel á kleinum og pönnukökum í garðskálum bæjarins í sumar.
Þá er greinileg í fari hans hugmyndarík gamansemi sem oftast fellur í frjóan jarðveg og staðinn hefur hann verið að sjaldgæfri hrekkvísi sem margir héldu að Eggert heitinn Theodórs hefði haft með sér úr þessum heimi.
Arnar á ættir að rekja hingað á staðinn og bjó hér í bernsku um skeið með foreldrum sínum þeim Jóni Heimi Sigurbjörnssyni flautuleikara og Valdísi Antonsdóttur. Hann er sem sagt afabarn Bjössa Frímanns söngvara og eftirhermu og einn af langalangalangöfum hans var Sigurður söngur Fljótamaður. Kona Arnars heitir Auður og eiga þau tvö börn.
Meðfylgjandi mynd var tekinn í skógræktinni á Jónsmessunótt í sumar. Það vita ekki margir en hér með gert opinbert að Arnar er gæddur þeirri náttúru að breytast í skógarálf stutta stund á þessari nóttu við réttar aðstæður. Þessari einstæðu mynd náði ljósmyndari síðunnar við það tækifæri.
"Ljósmyndin" er af málverki eftir Karl Jóhann Jónsson, góðvins Arnars.
En málverkið prýðir skrifstofu bæjarins í Ráðhúsinu
26. NÓVEMBER 2003