Ávarp, flutt af Halldóru Jónsdóttur á 50 ára afmælishátíð Kvenfélags Sjúkrahússins Siglufirðir.
50 ára afmæli K.S.S. í Skálarhlíð 22.11.2003.
Kvenfélag Sjúkrahúss Siglufjarðar var stofnað 22. nóvember, 1953 í Lækjargötu 2 þar sem Versló er til húsa núna.
Tilgangur félagsins var að safna fé til væntanlegrar byggingar nýs sjúkrahúss og til að kaupa tæki og búnað í sambandi við rekstur sjúkrahússins.
Nýja sjúkrahúsið var síðan vígt 15. desember, 1966.
Formenn frá upphafi hafa verið eftirtaldar konur:
1. Bjarnveig Guðlaugsdóttir
2. Hildur Svavarsdóttir
3. Kristine Þorsteinsson
4. Anna Snorradóttir
5. Magðalena S. Hallsdóttir,
sem er búin að vera formaður frá árinu 1981 eða samtals 22 ár.
Aðaltekjulind félagsins var til að byrja með basar sem haldinn var einu sinni á ári, en síðar sala á fermingarskeytum og afmælisskeytum en hugmyndina að þeirri fjáröflunarleið átti Ágústa Ragnars. Síðar komu til bingókvöld og basar, sem lauk með happdrætti. Oftast hafa þessi bingókvöld verið í nóvember og þeim hefur svo lokið með því að dregið er í happdrættinu. Vinningarnir er mestallir gefnir af félagskonum og fyrirtækjum í Siglufirði og víðar og öll vinna við undirbúning og í kringum þetta er unnin í sjálfboðavinnu.
Frá stofnun félagsins til 1980, reiknað með byggingarvísitölu og aftur frá 1980 til 1992 þá samkvæmt lánskjaravísitölu hafa gjafir K.S.S. til Sjúkrahússins numið 42.231.711 krónum. Þá er einnig rétt að telja framlög til Skálarhlíðar á árunum 1983 – 1993 framreiknuð samkvæmt lánskjaravísitölu alls að upphæð 8.653.148 krónur. Um næstkomandi áramót verða svo framlögin síðastliðin 10 ár framreiknuð og þá kemur sambærileg heildarupphæð í ljós.
Þetta er ekkert smáræði, sem við höfum safnað og gefið, enda höfum við haft eldhuga við stjórnun á félaginu þar sem er Magðalena S. Hallsdóttir. Hún hefur verið prímus mótor okkar allra. Stundum höldum við sem erum að störfum með henni að hugur hennar sé á hverjum degi ársins að einhverju leiti bundin við K.S.S. Við skulum votta henni virðingu okkar og þökk með því að rísa úr sætum og klappa henni lof í lófa.
Ennfremur þökkum við öllum fyrri formönnum og stjórnendum vel unnin störf í þágu félagsins.
Þá viljum við nota þetta tækifæri til að þakka ykkur öllum sem eruð í félaginu fyrir framlög, peninga, happdrættisvinninga og bingóvinninga gegnum öll árin og ennfremur fyrirtækjunum hér heima og annarsstaðar.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í starfsemi félagsins, okkur til gamans á þessum 50 ára afmælisfagnaði. Það bíður hins vegar betri tíma að skrifa sögu K.S.S., en það væri alveg þess virði að það yrði gert.
Mig langar til að ljúka máli mínu með litlu ljóði, sem ég held mikið uppá og mér finnst passa við þetta tilefni. Ljóðið heitir Vinátta og það er einmitt sá andi sem ríkt hefur í þessu félagi.
Vinátta,
dýrmæt sem gull.
Þú átt hana
og gefur í senn.
Vinátta,
einstök sem demantur.
Endist um aldur
og ævi.
Vinátta,
Verðmæti, ekki í krónum talin.
Þú hvorki kaupir hana
né selur.
Vinátta,
sterk sem stál.
Þú getur ávalt leitað hennar
hjá sönnum vini.
Vinátta,
Kærleikurinn í vinarmynd.
Þakkaðu Guði fyrir, þá bestu gjöf
sem þú færð og gefur.