Fréttir 7.-12. ágúst 2003
7. ágúst. "Hann setti svip á bæinn" Guðjón H Magnússon vélstjóri. Átti lengi heima í Ásgeirsbragganum (nálagt þeim stað sem norðurendi Túngötu er nú). Guðjón var lengst af á sjónum en vann þó að jafnaði, öll venjuleg störf er til féllu í landi. Þetta var dugnaðarforkur, og nokkuð áberandi í góðra vina hópi. Guðjón var fæddur 22. mars 1901 - Mig minnir að hann hafi flutt héðan frá Siglufirði þegar síldin hvarf samfara því að atvinna minnkaði, suður til Vestmannaeyja.
7. ágúst. Að gefnu tilefni. Ég hefi fengið nokkrar ábendingar um "Hann setti svip á bæinn", um hvaða persónur ég ætti að velja osfv. En aðferð mín er einföld hvað valið viðkemur. Ég fletti skránni yfir elstu filmurnar í safni mínu (Kristfinns), það er yfir glerplöturnar og þegar kemur að einhverri persónu sem ég man eftir og er mér er minnisstæð og eða ég veit að vakti athygli, þá vel ég viðkomandi. Ekki endilega að viðkomandi hafi skilið eitthvað eftir sig annað en minninguna. S.K.
7. ágúst. Enn eru rollu tu.... að ónáða íbúana í norðurbænum, sumir sváfu lítið fyrir stöðugu jarmi þeirra í nótt. Þessar rollur var einn af starfsmönnum bæjarins að reka aðeins norðar í morgun, en þær voru komnar aftur á svipaðar slóðir nokkru seinna. VIÐBÓT: kl. 14:00 - 14:45 Ég fór hraðferð um bæjarlandið og talning með sjónauka úr og við bílinn á akvegi: 36 rollur og lömb voru ofan og neðan Strandarvegar, utan byggðar, 4 í Hvanneyrarhlíð, norðan árinnar, 6 fyrir sunnan ána. 3 fyrir ofan Steinaflatir, 4 á veginum framan við hlið Skóræktarinnar sem var opið, ég fór ekki inn til að leita þar en lokaði hliðinu og 8 stykki sá ég ofar í Skarðsdalnum. Þetta eru 61 rolla og lömb sem ég sá frá veginum, eins og áður segir, sennilega eru þær fleiri. Er ekki orðið tímabært að gera eitthvað í málinu, smala og láta Fljótabændur sem rollurnar eiga, að leysa gripina út?
7. ágúst 09:30 Þessi mynd sýnir óvenjulega fjallasýn, ekki óvenjulega vegna sólskyns, blíðu og fegurðar fjallahrings okkar umhverfis Siglufjörð, heldur hvað lítill sem enginn snjór er í dölum og skorningum. En elstu menn muna ekki jafn lítinn snjó í fjöllunum okkar og nú. Snjór, jafnvel jöklar sem verið hafa allan ársins hring undanfarna áratugi, sjást ekki lengur.
7. ágúst. Aldrei er góð vísa, of oft kveðin, segir máltækið. Ég var að frétta fyrst í dag af alveg frábæri ljósmyndasýningu í Alþýðuhúsinu, sem mér er sagt að hafi verið auglýst í "Tunnunni" og búin að vera opin í allt sumar, en það greinilega farið fram hjá mér. Ég leit þarna inn í dag, og gleymdi mér yfir myndunum, þrátt fyrir skvaldrið í kerlingunum, en þarna stóð yfir á sama tíma og ég var inni, einhver kvenfatamarkaður. En myndirnar eru alveg frábærar og ætti fólk að gera sér ferð til "Gumma" og skoða þær. Ég fór á netið og hélt áfram að skoða er ég kom heim.Þetta eru ljósmyndir frá síldarárunum um 1957. Ljósmyndarinn heitir Haukur Helgason. Heimasíða hans er: http://www.myndverk.is/
8. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Þorsteinn Sveinsson frá Lónkoti, var búsettur á Siglufirði í áratugi, eftir að hann hætti búskap. Hann vann öll algeng störf, á síldarplönunum, en lengst af sem starfsmaður SR þar sem hann vann ýmis störf. Ég þekkti Steina vel og var gaman að spjalla við hann, þó svo að oft hnýtti hann í okkur yngri vinnufélagana, honum þótti við oft vera of ærslafullir. Þorsteinn var fæddur 6.febrúar1906
8. ágúst 09:15 Hið árlega Pæjumót Þormóðs Ramma -Sæbergs er haldið nú um helgina. Mótið er fjölmennt að vanda, talsvert fleira fólk virðist mætt nú en t.d. um síðustu helgi, en þá mættu að talið var um 4000 manns. Fullorðnir koma nú til að fylgja börnum sínum eftir, slappa af og njóta góða veðursins. Ekki veit ég um endalegan fjölda, en tjaldstæðin í bænum eru að varða fullsetin, en næg tjaldstæði eru frammi á Hóli, þó þar sé kominn all nokkur fjöldi.Ef að líkum lætur miðað við síðasta mót, þá birtir mótsstjórnin fjölda mynda á vef sínum, svo ég geri ekki ráð fyrir að blanda mér í þá vinnu. Tengill til síðu „Pæjumótsins“ er í dag 2015 óvirkur, þar sem allar upplýsingar var að finna um mótið.
8. ágúst 14:20 Pæjumótið stendur yfir. Svona til að sína lit þrátt fyrir áhugleysi mitt á boltaleikjum, þá er góður slatti mynda frá leikjunum á tenglinum Pæjumót, þar er að finna yfir 400 ljósmyndir frá dögum mótsins.
9. ágúst Hljómsveitin 8villt lék á Torginu í gærkveldi við mikinn fögnuð allra Pæjanna og annarra sem mættir voru. Rigningin sem rann í stríðum straumum um andlit krakkanna, virtist ekkert draga úr ánægju þeirra.
9. ágúst Hólm Dýrfjörð, 89 ára skörungur var mættur á torginu í gærkveldi og skemmti sér greinilega konunglega, ekki síður við það að hitta kunningjana. Þarna er meistarinn og með honum Helgi Magnússon píulagningameistari.
9. ágúst 11:00 Gott afdrep, en þarna þyrfti að vera borð og bekkir við það, eins og raunar eru víða. Þetta er uppi á enda "Stóra bola", snjóvarnargarðs í suðurbænum. Þegar ég sótti staðinn um kl. 11 í morgun þávar þarna nær logn, sól og 20 stiga hiti.
9. ágúst 11:00 Pæjumótið hélt áfram í dag samkvæmt dagskrá. Myndin sýnir mótssvæðið að HóliAthugið, - yfir 400 myndir frá mótinu eru á tenglunum Pæjumót
9. ágúst 16:00 Útvarpið okkar, "allra" landsmanna sagði frá rúmlega 21 gráðu hiti á Dalvík á Fiskidögum, en að aðeins væri 15 stiga hiti á Pæjumóti á Siglufirði (neikvæð frétt í huga RUV ?- var það þess vegna sem Siglufjörður nefndur?) Mælirinn á Sparisjóðnum sýndi á sama tíma 25 °C
9. ágúst 17:30 Óvenjuleg sjón við sundlaugina, biðröð hefur verið við sundlaugina í dag, þar sem hleypt er inn í grúppum. Svona var þetta einnig á föstudaginn 8. ágúst
10. ágúst "Hann setti svip á bæinn" Magnús Vagnsson síldarmatsstjóri fæddur 5. nóvember 1890
10. ágúst. Flugeldasýning hófst í gærkveldi um það bil sem skemmtihaldi Pæjumótsins var að ljúka á Torginu. 8villtar skemmtu og héldu uppi fjörinu að vanda. Yfir 400 ljósmyndir frá mótsdögunum má skoða á tenglinum Pæjumót
10. ágúst Sigurvegararnir..... voru krýndir í lok Pæjumótsins, upp úr klukkan 15:00 í dag. Glæsilegir verðlaunagripir að vanda. Veður hefur verið einstaklega gott um þessa helgi, og allir ánægðir.Ég gerði ekki ráð fyrir að blanda mér í myndatökur tengdar mótinu, þar sem ég hélt að mótstjórnin mundi gera slíku aftur skil jafn myndarlega og á síðasta ári. En ekkert varð úr því hjá þeim að þessu sinni, svo ég ákvað að slá til - og tók slatta af myndum og setti á netið rúmlega 400 ljósmyndir á síðu mína Lífið á Sigló Þær eru á tenglunum Pæjumót
Góðir gestir síðu minnar. Allir sem áhuga hafa á, geta sótt að vild myndir frá síðum mínum, án endurgjalds.- Það er til persónulegra einkanota, ekki til birtingar eða annarrar dreifingar.-
11. ágúst. "Hann setti svip á bæinn" Aðalsteinn Jónatansson fæddur 20 maí 1900 -- dáinn 25. nóvember 1960
11. ágúst 09:00 Múlaberg landaði um 20 tonnum og Stálvík landaði 37 tonnum af rækju í morgun. Skipin voru á sitt hvoru veiðisvæðinu.
11. ágúst 14:00 S.R.Vélaverkstæði. Eins og flestum er kunnugt hér á Siglufirði, þá keyptu starfsmenn verkstæðisins ofl. Vélaverkstæði það sem SR-MJÖL HF átti og rak, fyrr á þessu ári. Nú hafa þeir bætt um betur og tekið á leigu meirihluta húsnæðisins þar sem Lager SR var til húsa og keypt mikinn hluta þess, sem inni á lagernum var. Verið er að gera skilrúm á efra lagerplássinu, sem undandregur um þ.b. 30% af plássinu og á neðri hæð um þ.b. 15 % ---- Á annarri myndinni eru Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri og Óskar Berg Elefsen verkstæðisformaður, inni á Lagernum. Hin myndin sýnir Elmar Árnason og aðstoðarmann hans að vinna við skilrúm á efri hluta lagerplássins fyrrverandi.
12 ágúst. "Hann setti svip á bæinn" Egill Steingrímsson matsveinn / bakari fæddur 31. september 1906, dáinn 11 febrúar 1962
12. ágúst. Þessi mynd er tekin af síðu K.S / Pæjumót, en þar er kominn mikill fjöldi mynda frá Pæjumótinu.. (Tengillinn er ekki lengur aðgengilegur, 2015)
12. ágúst GRÁNA. Nú er lokið við að mála framhlið hússins.
Litadýrðin, er ekki svona af tilviljun, svona lituð var framhlið á gömlu Gránu / Goos verksmiðjunni.
Hinsvegar voru hin táknin. SR30 - INGO og KVELDÚLFUR Ltd. ekki á gamla húsinu, því þessi merki; SR-30 tilheyrði fyrstu síldarverksmiðju Ríkisins, sem gekk undir þessu nafni, og mun merkið eins og þarna sést þarna, vera fyrsta "Lógó" verksmiðjunnar. INGO, var vörumerki verksmiðjunnar á Ingólfsfirði
og Kveldúlfur Ltd. tilheyrði síldarverksmiðju fyrirtækjanna. En Þær vélar og búnaður, sem inni í nýju Gránu er, var sótt í leifar þeirrar verksmiðja, sem fyrir löngu höfðu verið aflagðar og ekki viðhaldið, eftir að síldin hvarf á þeirra svæði.
11. ágúst Stórkostleg tilviljun. Þessar 2 myndir voru teknar á sama sekúndubrotinu af tveimur ljósmyndurum, sem hvorugur vissi af hinum. Annar, Steingrímur var við dyrnar á Ráðhúsinu, en hinn Almar Möller (sem benti mér á og sendi mér sína) stóð uppi á svölunum á Íslandsbanka. Myndirnar eru frá flugeldasýningu Pæjumótsins þann 9. ágúst sl. kl. 22:49:06 samkvæmt klukku minnar myndarvélar. S.K.
12. ágúst 12:58 Landgræðsluvélin Páll Sveinsson kom inn fjörðinn í lágflugi, og út hann til baka í hádeginu. Ég náði þessari mynd við það tækifæri.