Fréttir frá 17.- 21. júlí 2003
17. júlí 08:15 - SR-Vélaverkstæði hf., er ungt fyrirtæki, nokkurra mánaða gamalt, en er þó með margra áratuga starfsferil, þó það hljóði undarlega í eyrum ókunnra. Verkstæðið var sett á laggirnar 1935 sem viðhaldsdeild hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Síðan, rekið sem sjálfstæð deild innan SR-MJÖL hf.
Verkstæðið var áður þjónustuverkstæði fyrir Síldarverksmiðjurnar en í dag þjónar það almennum markaði.
Skömmu eftir yfirtöku Síldarvinnslunnar á eignum SR-MJÖL HF á þessu ári, keyptu starfsmennirnir ofl. allan rekstur verkstæðisins og héldu nafninu sem verkstæðið var þekkt undir, það er; SR-Vélaverkstæði hf.
Reksturinn gengur vel undir stjórn Óskars Berg Elefsen og Ólafs Sigurðssonar og næg verkefni eru fyrir hendi, sem aðallega felast í nýsmíði úr ryðfríu efni, en starfsmennirnir eru jafnvíkir á nánast hvaða sem er innan almenna verkstæðisgeirans, enda vel búnir vélakosti. Myndin hér, er af Óskar Elefsen.
Fleiri myndir á tenglinum SR-Vélaverkstæði. +
17. júlí 09:00 - JE-Vélaverkstæði ehf. hefur sérhæft sig við allskyns viðgerðaþjónustu, en sinna jafnframt, þegar til fellur allskonar nýsmíði. Ávalt hafa verið næg verkefni, enda sinna þeir Siglfirska togaraflotanum og annarri útgerð, á Siglufirði og víðar aðkomnum bátum. <<< Verkstæðisformaðurinn Guðni Sigtryggsson er á myndinni hér til vinstri, en fleiri myndir eru á tenglinum JE-Vélaverkstæði
17. júlí. - Stefán Þór Haraldsson, er ekki af baki dottinn þó kominn sé á "úreldingar aldurinn" og hættur á vinnumarkaðnum. Þarna er Stefán að "ýta úr vör" og halda til fiskjar, - til að leggja kolanetin sín."Það er það versta helvíti, við þetta nú, að ef maður ætlar að sækja sér og sínum nokkra kolatitti í matinn, þá þarf maður að sækja um það leyfi." En hann brosti, samt eins og alltaf, - og veifaði í kveðjuskyni.
17. júlí - Jóhannes Arelakis, eða Jannis (fb.Janus) eins allir kalla hann, situr hér í sólinni og hitanum og er að dytta að grásleppunetum til að gera þau klár fyrir næstu vertíð. Jannis, er Grikki að uppruna, en er Íslenskur ríkisborgari og hefur búið á Siglufirði í yfir 23 ár. Hann hefur sinnt hér ýmsum störfum. "Lífið er einn stór lærdómur". Segir hann.
17. júlí - Þessar vísur, þótti mér þess virði að birta þær hér. Höfundur er ókunnur, vísurnar eru ritaðar með "túss" penna á borð það, sem er við innkeyrsluna í bæinn okkar. En ég á það til að fara þangað út eftir ásamt konu minni og slappa þar af í sólinni og logninu, sem svo oft yljar okkur Siglfirðingum.
17. júlí - Heyrt á Götubylgjunni. Nú mun vera fundin ástæðan fyrir því að hætt var við Héðinsfjarðargöngin, sálugu. "Verktakinn sem átti lægsta tilboðið, hafði ekki viljað greiða í ákveðinn kosningarsjóð, og því ekki æskilegt að hann fengi verkið". Tekið skal fram að þetta er ekki staðfest frétt. En margir trúa þessu.
17. júlí - Þetta eru þeir Guðmundur Magnússon skipstjóri, með "dósirnar" á lofti. Ólafur er að vinna við uppbyggingu, ytra útlits,"Gránu"og Ólafur Þór Haraldsson vélstjóri, sem kom í heimsókn á safnið.
18. júlí- 08:55 - Unglingarnir koma víða við, þarna eru tveir þeirra að vinna að snyrtingu Ingvarsbryggju, og mála kantinn viðeigandi litum, gulu og orange. Sólinn hátt á lofti, 15 stiga hiti og logn.
18. júlí- 09:45 - Þessir menn heita: Hreinn Júlíusson tæknideild bæjarins, Luvis Pétursson, Sigurður Hlöðversson tæknifræðingur bæjarins og Guðlaugur Einarsson verktaki Hafnarfirði. En þeir voru þarna á svæði Síldarminjasafnsins, að huga að svæði því sem smíða á bryggjur, upp á gamla mátann, tilheyrandi safninu. En Guðlaugur og Luvis eru framkvæmdaraðilarnir. Frekari upplýsingar koma síðar.
18. júlí- 09:55 - Þarna eru bræðurnir Stefán Einarsson og Hjalti Einarsson, ásamt Stefáni Sævar, syni Stefáns, að blanda málningu, til undirbúnings að mála flutningapramma sem Hjalti á.
18. júlí - 11:00 - Alls hafa nú borist tæp 30 þúsund tonn (29.893.448 kg) á land, af loðnu til bræðslu hjá S.V. á Siglufirði. Nýjustu fréttir frá bræðslunni eru þær, að nú er Ásgrímur Halldórsson á leið til Siglufjarðar með um 1 þúsund tonn af kolmunna til bræðslu.
18. júlí 17:00 - Stormar/menningarfélag/hljómsveit. Bíóbarinn / Sparisjóðurinn, héldu smá útihátíð á torginu klukkan 16:30 í dag við mikinn fögnuð þeirra sem mættu, Sparisjóðurinn bauð upp á pylsugrill og Svala, undir þrumandi músík Storma. Fullt af myndum eru á tenglinum Stormar -
19:júlí - Árgangur 53 Velheppnað árgangsmót þeirra Siglfirðinga, brott fluttra og heimakæru, sem fæddust árið 1953, var haldið hér í gær, - og í dag, en ma. fór hópurinn í Skóræktina eftir hádegið.
19.júlí 07:00 Kolmunnaveiðiskipið Ásgrímur Halldórsson S.F. 250, landaði í morgun, 966.119 kg. af kolmunna hjá S.V. á Siglufirði. Ekki er vitað um framhald kolmunnalöndunar á Sigló, en menn lifa í voninni, einnig að meiri loðna eigi eftir að koma.
20.júlí - Heljarmikill afmælisfagnaður Kristjáns Möller, var haldinn í "Gránu" Síldarminjasafnsins í gær 19/6. Var þar samankominn mikill fjöldi gesta, sem þáðu glæsilegar veitingar í óvenjulegu, en skemmtilegu umhverfi, það er í GRÁNU, Síldarbræðsluminjasafni Síldarminjasafnsins. Nokkrar myndir frá fagnaðinum eru á tenglinum Kristján
20.júlí 09:46 - 30 þúsund tonnaloðnulöndunarmúrinn var rofinn er Grænlenska loðnuskipið Siku kom í morgun með um 1200 tonn. til S.V. á Siglufirði. Alls eru þá komið um 32 þúsund tonn af loðnu og kolmunna, á land þegar lokið er við að losa Siku
20.júlí 11:17 - Árgangur 53 fór áleiðis út á Siglunes rétt fyrir hádegið í dag. Þar var kveiktur varðeldur í fjörunni og fleira gert til dundurs. Nokkrir höfðu hug á að ganga til baka. Aðrir verða sóttir af "Sigurvin" sem fór með hópinn út eftir.Nokkrar myndir frá brottförinni, er á tenglinum:
20.júlí 17:15 Skjólgarður. Það er óhætt að segja að ég hafi orðið verulega hissa, (vægt til orða tekið) er ég sá þennan nýreista skjólgarð.Ekki vegna þess að hann væri gallaður eða ljótur, öðru nær þetta er laglegt verk og vel frá gengið.
En að leyfa staðsetningu hans á gangstétt, og hrekja þar með gangandi út á götuna, og enn lengra út á götuna, þegar bifreiðar leggja við innganginn, sem er algengt. Þarna er umferð oftast mikil, bæði stórar bifreiðar og vinnuvélar. Hvað eru menn í Tækni og umkverfisnefnd, og væntanlega umferðaráði, einnig að hugsa? Er þetta væntan leg stefna, að loka gangstéttunum í bænum á fleiri stöðum?
21. júlí 07:00 Ég fór hina hefðbundnu hringferð um bæinn í morgun og fann ekkert markvert til að færa hingað, vinsamlega látið mig vita af eitthvað er að ske markvert.Til að birta einhverja mynd, þá er þessi tekin út um svefnherbergisglugga minn í morgun þegar ég fór á fætur, eftir svefnlitla nótt vegna jarmsins í þessum rollutussum. Vinsamlega gefið mér upp símanúmer "loggjafans sem ber ábyrgð" sem ég get hringt í, í hvert skipti sem ég vakna við jarm rollnanna og lambanna næstu nætur, svo einhver geti vakað meeeeeeeð mér ! S.K.
21. júlí 10:35 - Loðnuskipið Antares VE 18 er á leiðinni með um 900 tonn af loðnu til löndunar hjá S.V.
21. júlí Athyglivert: "Tjaldstæði á Íslandi" http://www.camping.is/index.html Ég rakst á þessa vefssíðu, og dró "ályktun" Þessi síða er sérstaklega hönnuð fyrir Siglfirðinga, hér búsetta: Af hverju?
Þegar síðan er opnuð blasir við lítið Íslandkort og færirðu bendilinn á kortið, á Siglufjörð, þá kemur upp mynd af Síldarminjasafninu okkar, (flott) og þegar smellt er, kemur fyrirsögnin "Tjaldstæði á Norðurlandi" - en hvergi er minnst á eitt besta tjaldsvæði á öllu landinu; á Siglufirði.
Við Siglfirðingarnir (hér heima) þurfum auðvitað ekkert á slíkri kynningu um tjaldstæðin á Siglufirði að halda, En væri ekki æskilegt að þau væru kynnt öðrum?
Athugasemd 2015: Ekki fann ég nefnt kort, villboð koma upp þegar smellt er á tengilinn hér ofar, en enn vita þessitr aðstandendur síðunnar: http://www.camping.is/Tjaldsvaedi/Nordurland/ ekki um að fjölmörg tjaldstæði eru á Siglufirði. http://www.camping.is/
21 . júlí Hátíð að Bjarnagili. Ég vil benda Siglfirðingum sem og öðrum, á frábæra grein sem er í Morgunblaðinu í dag, eftir Guðnýju Páldóttir. Jarðgangnaumræðan, birt hér, með leyfi höfundar.
21. júlí - Þóroddur Guðmundsson, hefði orðið 100 ár í dag, hefði hann lifað. Börn hans og aðrir ættingjar og vinir minnast hans með því að koma saman í Kiwanis húsinu á Siglufirði í dag. Allir fullorðnir Siglfirðingar muna eftir þessum stjórnmálaskörungi, og síldarsaltanda m.f.l.
Ekki voru allir skoðunum hans, í pólitík sammála, en fáir komust hjá því að sýna honum virðingu sína, því hann var vinsæll, þrátt fyrir hin þekktu hvatyrði sín. En hann var ófeiminn við að láta sínar skoðanir í ljós, á því tungumáli sem allir skyldu, tungumáli sem sumum, þessum sem vildu láta líta stórt á sig, fannst móðgandi, og ekki við hæfi. .S.K.