Læsi


Theódóra Friðbjörnsdóttir (2019) Þróun máls og læsis tvítyngdra unglinga : íslenskunám í snjöllu námsumhverfi, óbirt meistaraverkefni Menntavísindasvið Háskóla íslands. https://skemman.is/handle/1946/34588


Hér er bls. 52-53 úr ritgerðinni hennar þar sem hún lýsir hvernig hún notar Google drive, Google classroom, Cami viðbótina og Read aloud viðbótina fyrir Chrome í lestrarvinnu. (feitletrun og greinaskil bætt við)

"Viðbæturnar (e. extensions) sem voru notaðar í rannsókninni nefnast Kami og Read Aloud. Kami gerir nemendum kleift að vinna í námsbókum í tölvutæku formi. Námsbækurnar eru þá í PDF og með aðstoð Kami er hægt að skrifa í þær í tölvuna. Kami (sjá mynd 7) hefur auk þess þá kosti að nemendur geta lesið inn svör og forritið skrifar þá um leið inn í skjalið það sem þeir segja.

Til þess að koma upp Kami í tölvuna er byrjað á því að sækja viðbótina með því að slá inn í leitarvélina Google „Kami app extension“. Þá kemur upp slóð efst þar sem stendur „Kami extension – PDF and Document Annotation“ og þar er smellt á hnapp þar sem stendur „add to chrome“. Ekki er nóg að hlaða niður viðbótinni í tölvuna, heldur þarf að kaupa sér skólaaðgang að forritinu. Þegar það hefur verið gert er næsta skref að sækja námsbækur á Netið sem eru í PDF skjölum. Á vef Menntamálastofnunar www.mms.is er að finna flestar námsbækur sem lagðar eru fyrir í grunnskólum hér á landi. Næsta skref er að hlaða niður bókum í tölvu sem er svo hlaðið yfir í Google Drive. Þaðan eru þær sóttar og færðar yfir í Google Classroom hjá hverjum nemanda fyrir sig. Hver nemandi fær þá námsbók sem tekur mið af hæfni hans. Þegar skólastofan var útbúin ákvað ég að hver nemandi skyldi fá sína einkastofu á Netinu þar sem eingöngu viðkomandi nemandi, ég og kennararnir í íslenskuteyminu höfðum aðgang að skólastofunni.

Read Aloud eins og nafnið gefur til kynna er viðbót eða smáforrit sem hefur þann kost að lesa upphátt hvaða texta sem er í tölvutæku formi. Forritið er öllum aðgengilegt á Netinu. Til þess að sækja það er farið á leitarsíðu Google og slegið inn „Read Aloud extension“. Þar er valið „Read Aloud: A Text to Speech Voice Reader“ og þá opnast gluggi þar sem smellt er á hnapp sem á stendur „Add to chrome“. Við það hleðst viðbótin í tölvuna og verður sýnileg efst uppi í hægra horninu í Chrome vafranum. Þá er næsta skref að stilla forritið þannig að lesið verði á íslensku. Hægt er að velja um kven- og karlmannsrödd sem eru nefndar Dóra og Karl. Þegar allt er tilbúið er hægt að draga músina yfir hvaða texta sem er og smella á Read Aloud hnappinn og hlusta á upplestur. Þetta forrit nýtist vel í kennslu tvítyngdra barna sem og barna með lesblindu. "