Þrautabraut

Þrautabraut

Þrautabrautir og völundarhús henta vel fyrir forritun með Sphero og bjóða upp á fjölbreytta möguleika og útfærslur. Kennarinn getur sett upp brautir fyrir nemendur og nemendur geta sett upp sínar eigin brautir. Kubbar henta vel til að búa til brautir og þá sérstaklega einingakubbar. Einnig er hægt að búa til brautir á pappír, með límbandi og alls kyns verðlausu efni.

Verkefni sem hægt er að leysa á fleiri en einn hátt eru frábær og bjóða upp á miklar og góðar samræður og samstarf í nemendahópnum. Í slíkum verkefnum leita nemendur í sameiningu leiða til að leysa þau vandamál sem koma upp.

Markmið

Að nemendur:

  • Þjálfist í forritun
  • Taki þátt í að þróa skipulega fjölbreyttar lausnaleiðir, finni fleiri en eina leið til að leysa þrautir
  • Geti unnið í samvinnu við aðra að lausnum á forritunarverkefnum þar sem byggt er á hugmyndum nemenda
  • Þjálfist í rúmfræði með áherslu á gráðumælingar og útreikninga

Undirbúningur

  • Spjaldtölvur fullhlaðnar
  • Sphero robotinn sé fullhlaðinn
  • Skipta nemendum upp í hópa
  • Kaplakubba
  • Límband
  • Langar spýtur
  • Einingakubba, Legokubba, Kaplakubba
  • Smádót
  • Verðlausan efnivið
  • Maskínupappír
  • Liti, penna

Umræðupunktar

  • Ræða hvað felst í hugtakinu samvinnu
  • Hver er munurinn á þrautabraut og völundarhúsi?
  • Hvað þurfa nemendur að hafa í huga við framkvæmdina?

Auðveldlega má samþætta vinnuna við t.d. samfélagsfræði og búa til bæ eða þorp. Skoða hvaða reglur geta gilt þar o.s.frv.

Áskorun I

Nemendur byrja á því að stilla Sphero með því að fara í AIM í valmyndinni efst í hægra horninu, Sphero er rétt stilltur þegar litla bláa ljósið er beint fyrir framan notandann


  • Kennari setur upp þrautabraut fyrir nemendur
  • Nemendur vinna saman í hópum að því að komast í gegnum þrautabrautina
  • Nemendur geta prófað sig áfram og sett inn skipanir í forritið í litlum skrefum en að lokum ættu þeir að geta sett Sphero á byrjunarreitinn og keyrt forritið í heild sinni og komist í mark

Áskorun II

Í þessu verkefni er tilvalið að skipta nemendum í hópa þar sem annar hópurinn býr til þrautina og hinn hópurinn forritar sphero til að leysa verkefnin. Síðan skiptast þeir á.

Nemendur byrja á því að stilla Sphero með því að fara í AIM í valmyndinni efst í hægra horninu, Sphero er rétt stilltur þegar litla bláa ljósið er beint fyrir framan notandann


  • Nemendur spjalla saman og setja fram hugmyndir um hvernig þrautabrautin á að líta út
  • Nemendur teikna upp þrautabraut á blað eða tússtöflu,
  • Nemendur finna þann efnivið sem til þarf í þrautabrautina
  • Nemendur forrita Sphero til að komast í gegnum þrautabrautina
  • Nemendur skipta við annan hóp og prófa þeirra braut

Hugmyndir og ábendingar

Þetta verkefni má auðveldlega samþætta fleiri þáttum innan stærðfræðinnar. Ef brautin er t.d. lögð úr kaflakubbum þá gæti hliðarverkefni verið að reikna út flatarmál brautarinnar.

Áhugavert er að prófa að búa til forrit sem nýtir fjarlægðarskynjarana á Sphero í þessum verkefnum með þeim ætti að vera mögulegt að koma í veg fyrir að Sphero fari út úr braut sem byggð er með einingakubbum.