Fyrstu skrefin

Dash og Dot

Róbótarnir Dash og Dot bjóða upp á ótal möguleika á skapandi starfi þar sem unnið er með forritun. Hægt er að fá fjölmarga fylgihluti með róbótunum m.a. arma sem gera nemendum kleift að nota Lego kubba til að byggja við vélmennin, sílófón og arm fyrir skriffæri.

Framleiðendur Dash og Dot bjóða einnig upp á fimm smáforrit til að stjórna róbótunum, þar er bæði boðið upp á að stýra vélmenninu í gegnum smáforrit svipað og gert er með fjarstýrðum leikföngum og einnig möguleika á að forrita róbótana með því að teikna eða nota blokkarforritun.

Dash og Dot eru vinalegir róbótar sem bjóða upp á marga möguleika, hægt er að forrita ljósin á þeim og láta þau skipta um liti og taka upp setningar og hljóð svo að þau geti talað. Dash getur ferðast um og hefur auk þess skynjara sem koma í veg fyrir að hann rekist á hluti sem á vegi hans verða.

Dash og Dot geta einnig átt samskipti sín á milli og hægt er að forrita Dot til að stjórna Dash.

Dash og Dot eru hlaðin með USB kapli. Full hleðsla tekur um 60 mínútur og endist í um það bil 3 klukkutíma.

Róbótarnir henta vel fyrir grunnskólabörn frá fyrsta bekk og upp úr.

Dash

  • Hreyfing
    • Dash getur keyrt áfram, aftur á bak og beygt til vinstri og hægri
    • Dash getur hreyft höfuðið og litið upp um 25 gráður, niður um 10 gráður og snúið höfðinu bæði til vinstri og hægri um 120 gráður
  • Ljós
    • Dash er með 12 LED ljós í auganu sem hægt er að kveikja og slökkva á, auk þess sem hægt er að breyta litunum á þeim. Einnig eru ljós í eyrum Dash, á bringunni og á afturendanum
  • Hljóð
    • Ýmis hljóð eru innbyggð í róbótann en einnig er hægt að taka upp hljóð í spjaldtölvunni og láta hann tala
  • Hátalari
    • Dash er með 3 hátalara sem gera honum kleift að bregðast við hljóðum, hægt er að forrita hann til að bregðast við klappi og hann snýr sér að þeim sem er að tala
  • Fjarlægðarskynjarar
    • Dash er með 2 fjarlægðarskynjara að framan og einn að aftan, þeir gera Dash kleift að nema hindranir og hluti fyrir framan og aftan róbótann

Dot

  • Ljós
    • Dot er með 12 LED ljós í auganu sem hægt er að kveikja og slökkva á, auk þess sem að hægt er að breyta um liti á ljósunum. Hún er einnig með ljós í eyrunum
  • Hljóð
    • Dot er með nokkur hljóð innbyggð en einnig er hægt að taka upp hljóð í spjaldtölvunni og láta hana tala.
  • Hátalari
    • Dot er með hátalara sem gerir henni kleift að bregðast við hljóðum, hún getur t.d. hlustað eftir röddum eða klappi
  • Hröðunarskynjari
    • Hröðunarskynjarinn gerir Dot kleift að skynja þegar henni er hent upp í loft, hallað eða hún hrist,

Undirbúningur


  • Merkja róbótana.
    • Ef til eru fleiri en einn Dash og ein Dot í skólanum er gott að gefa hverjum og einum Róbóta nafn og merkja þá, t.d. með merkipenna eða miða sem límdur er aftan á róbtótann. Þegar nemendur kveikja á smáforritunum koma upp allir Dash og Dot róbótar sem kveikt er á nálægt spjaltölvunni og þá sparar tíma að geta strax valið þann sem nemandinn á að vera með.
  • Sækja smáforrtin
    • Forritin heita Blockly, Go, Path og Wonder. Ef skólinn á sílófóninn er gott að sækja líka Xylo smáforritið. Í verkefnunum hér á síðunni notum við Blockly forritið mest og vinnum með kubbaforritun en sjálfsagt er að sækja hin líka og skoða hvað þau hafa upp á að bjóða.
  • Passa að hafa kveikt á Bluetooth tengimöguleikanum í spjaldtölvunni
  • Kveikja á róbótanum
  • Tengja róbótann við spjaldtölvuna með því að ýta á plúsinn efst til hægri.

Að gefa vélmennunum nafn

Í öllum smáforritunum sem fylgja róbótunum er hægt að smella á + efst í hægra horninu á skjánum til að tengja róbótann við spjaldtölvuna. Spjaldtalvan leitar að vélmennum í nágrenninu og notandi velur það sem hann ætlar að nota. Það er ekki nóg að merkja bara róbótann sjálfan heldur verður einnig að gefa honum nafn í spjaldtölvunni þegar búið er að tengja hann. Hér fyrir neðan má sjá að Dísa hefur verið valin (valmynd I). Ef smellt er á tannhjólið er hægt að breyta nafninu á róbótanum (valmynd II) og sérsníða ýmsar stillingar varðandi útlit hans. Fyrir neðan myndina af honum má einnig sjá hversu mikil hleðsla er á rafhlöðunni.

Valmynd I

Þegar smellt er á + koma upp þeir róbótar sem kveikt er á í nágrenninu. Ef tannhjólið er valið er hægt að stilla nafn róbótas og breyta útliti.

Valmynd II

Hér má sjá valmyndina sem liggur á bak við tannhjólið.

Smáforritin

Blockly

Go

Path

Wonder

Blockly

Blockly er það smáforrit sem við notum mest í verkefnunum á þessum vef. Í Blockly læra nemendur að nota blokkarforritun til að stjórna róbótunum og leysa þrautir.

Blockly byggir á því að nemendur búa til forrit með því að raða saman skipunum í blokkir. Auðvelt er að setja forritin af stað og gera villuleit ef eitthvað fer úrskeiðis.

Leikur og nám með Blockly miðar að því að hægt sé að leysa vandamál á marga vegu, engin ein leið er rétta leiðin heldur fær sköpunargleði nemenda að njóta sín.

Go

Go er einfalt forrit sem virkar eins og fjarstýring fyrir Dash og Dot.

Í smáforritinu Go er hægt að stjórna hreyfingum Dash og breyta ljósum og hljóðum frá róbótunum. Einnig er hægt að taka upp sín eigin hljóð. Dot getur ekki hreyft sig en í hennar tilviki er hægt að breyta hljóðum og ljósum.


Path

Path er einfalt smáforrit sem virkar með Dash Í smáforritinu Path eru hreyfingar Dash teiknaðar á skjáinn. Í forritinu eru nokkur borð með þrautum.


Wonder

Wonder er smáforrit fyrir Dash og Dot, þar er að finna fjarstýringu fyrir róbótana en einnig er hægt að fara í gegnum fjölmörg borð með þrautum. Í Wonder byggjast þrautirnar á að nota myndrænt forritunarmál til að forrita.


Umræðupunktar - undirbúningur fyrir fyrsta tímann í forritun

Áður en að nemendur prófa að forrita er sniðugt að spjalla um rótbóta og hvernig þeir verða sífellt algengari í daglegu lífi fólks, t.d. eru þeir notaðir til að setja saman bíla og ryksuga heimili. Á vefnum má finna mörg áhugaverð myndbönd um rótbóta sem vekja upp spurningar og hægt er að horfa á með nemendum.

Myndband um hótel í Japan sem rekið er að mestu leyti af rótbótum

Viðtal við róbótann Sophiu

Myndbönd eru á ensku.

Blokkarforritun með Blockly - fyrstu skrefin

  • Kynnið Dash og Dot fyrir nemendum, notið umræðupunktana og myndböndin hér fyrir ofan til að koma af stað samræðum um róbóta og hvernig þeir gagnast okkur í daglegu lífi.
  • Sýnið nemendum Blockly smáforritið
    • Þegar forritið er opnað þarf að byrja á því að tengja róbótann við spjaldtölvuna með því að smella á + takkann efst í hægra horninu
    • Því næst kemur upp gluggi þar sem hægt er að velja á milli Puzzles, My Projects og Create New, best er að velja Create New og velja þar Blank Project, þá kemur valmynd með forritunarskipunum
    • Á vinnusvæðinu er hægt að sýna nemendum hvernig hægt er að raða saman skipunum með því að draga þær inn á skjáinn og festa þær við græna takkann efst á skánum (When START). Þegar búið er að raða saman nokkrum skipunum er hægt að láta Dash og/eða Dot framkvæma þær með því að ýta á græna takkann í neðst í vinstra horninu.
  • Skiptið nemendum í hópa, hver hópur fær spjaldtölvu og róbóta. Gefið hópunum fyrirmæli um hvað þeir eiga að forrita. Í fyrsta tíma getur verið sniðugt að leyfa nemendum að prófa sig áfram með forritið upp á eigin spýtur eða bjóða þeim upp á að fara í Puzzles en þar eru þau leidd í gegnum grunnskipanirnar og áfram í flóknari verkefni.
  • Í lok tímans deila hóparnir reynslu sinni af róbótanum, segja frá því hvernig forrit þeir bjuggu til og hvað þeir telja að hægt væri að láta Dash og Dot gera.

Umræðupunktar eftir fyrsta tímann í forritun

  • Hvaða forrit bjuggu nemendur til?
  • Hvað hefði verið hægt að gera ef tíminn hefði verið lengri?
  • Gætum við búið til forrit fyrir Dash eða Dot sem hjálpar okkur í daglega lífinu?