Það er gaman að eiga heimskort og Íslandskort til að nota með Kubbi og hinum róbótunum sem fjallað er um á þessari vefsíðu. Kubbur getur ferðast um kortin og í leiðinni er hægt að spjalla um það sem fyrir augu ber. Vinna með kort gefur tækifæri til að skoða vegalengdir og læra um heiminn nær og fjær.
Það er um að gera að nýta tæknina til að gefa börnunum betri sýn á þá staði sem Kubbur heimsækir, t.d. er hægt að skoða myndbönd, vefsíður og myndir á vefnum. Svo er upplagt að heimsækja Google maps og nota þrívíddargleraugu með forritinu Google street view til að upplifa nýja og spennandi staði. Með þrívíddargleraugum, síma og Google street view smáforritinu er hægt að skoða 360 gráðu myndir. Þegar börnin setja upp gleraugun upplifa þau að þau standi inni í miðri myndinni, þar geta þau horft í kringum sig í allar áttir. Þrívíddargleraugu þurfa ekki að vera dýr og oft má fá pappaútgáfu af þeim t.d. í Tiger á 300 kr. Margir eiga gamla snjallsíma ofan í skúffu sem henta vel til að nota með gleraugunum.
Fræði- og sögubækur eru skemmtileg viðbót við landakortin og gaman að lesa og skoða bækur sem tengjast þeim stöðum sem Kubbur heimsækir. Ferðalögin gefa tækifæri til að kynna til sögunnar ýmis hugtök sem tengjast umhverfinu s.s. fjöll, dalir, hálendi, láglendi, ár, lækir o.s.frv. Þegar unnið er með hugtök er alltaf gott að hafa í huga að tengja umfjöllunina og umræðurnar við reynsluheim barnanna.
Í framhaldi af vinnu með kort geta börnin búið til sín eigin landakort, bæjarkort eða hverfiskort með helstu kennileitum, byggingum og stöðum sem börnum finnast áhugaverðir. Þessa vinnu mætti t.d. tengja við vettvangsferðir. Kubbur gæti heimsótt sömu staði og börnin, þannig væri hægt að vinna meira með hvern stað og festa betur í minni hjá börnunum heiti og staðhætti.
Það er gaman að skoða bæinn sinn með öðrum augum. Hvað er merkilegt í hverju hverfi? Hvernig skiptist bærinn í hverfi sem hvert hefur sína skóla og leikskóla. Þekkjum við einhvern sem er í öðrum skóla/leikskóla?