Blöðrubardagi er skemmtilegt verkefni sem hentar vel til að hrista hópa saman.
Skipt er í lið, tvö eða fleiri, sem hvert um sig fær blöðru sem koma þarf fyrir á róbótanum. Huga þarf að því að koma blöðrunni þannig fyrir að erfitt sé að sprengja hana.
Liðin nota því næst fjölbreyttan efnivið til að búa róbótann sinn sem allra best til bardaga, nauðsynlegt er að bjóða upp á grillpinna eða önnur verkfæri sem hægt er að nota til að sprengja blöðru hinna liðanna.
Gera má ráð fyrir allt að klukkutímavinnu við að útbúa vélmennin.
Að því loknu hefst bardaginn, best er að nota málningarlímband til að afmarka bardagasvæðið og gefa svo ákveðinn tíma í hvern bardaga. Sá sem fyrstur sprengir blöðru hjá öðru liði vinnur.
Í þessu verkefni höfum við á MSHA leyft nemendum að nota smáforritið Wonder og keyra róbótana í stað þess að forrita þá þar sem að markmiðið er sköpun og hópefli.