Fyrstu skrefin

Blue-bot

Bjöllurnar bjóða upp á ótal möguleika á skapandi starfi þar sem unnið er með forritun. Það er bæði hægt að nota fylgihlutina sem hægt er að kaupa með Bjöllunni s.s. motturnar og skipanaborðin eða búa til sína eigin fylgihluti.

Undirbúningur

Það er sniðugt að nota motturnar sem hægt er að kaupa með rótbótanum til að kenna grunnatriðin. Best er að byrja á því að kynna róbótann fyrir barnahópnum og útskýra hvernig hægt er að forrita hann með því að smella á takkana.

Takkarnir

Appelsínugulu örvarnar tákna:

  • Áfram um 15 cm
  • Aftur á bak um 15 cm
  • Snúa til vinstri 90 gráður
  • Snúa til hægri 90 gráður

Græni hnappurinn setur forritið af stað

Strikin tvö II tákna pásu

Krossinn strokar út allar upplýsingar sem búið er að setja inn.

Motturnar

Hægt er að kaupa alls kyns mottur fyrir Bjölluna bæði með myndum og glærar. Myndamotturnar eru til í ýmsum útfærslum, t.d. ævintýraeyjur, borgir, form o.fl. Einnig er hægt að fá glærar rúðustrikaðar mottur sem hægt er að leggja yfir aðrar myndir eins og t.d. landakort. Þar að auki er hægt að fá glærar mottur með plastvösum þar sem kennarar og nemendur geta sett sínar eigin myndir.

Möguleikarnir eru því endalausir og lítið mál að búa til sína eigin ævintýraheima tengda því sem börnin eru að vinna með í mismunandi námsgreinum, þannig má auðveldlega tengja forritun við samfélagsfræði, náttúrufræði, læsi, stærðfræði og aðrar greinar.

Í leikskólanum er hægt að tengja Bjöllurnar við þemavinnu og nota þær til að kenna liti, form, bókstafi og tölustafi. Einnig er gamna að láta þær ferðast um á landakortum og skoða bæði Ísland og heiminn. Motturnar með plastvösunum eru sniðugar í vinnu með orðaforða þar sem hægt að láta Bjöllurnar ferðast á milli staða og sækja alls kyns myndir, t.d. ná í tvo ketti, gula húfu, gamlan mann o.s.frv.

Umræðupunktar

Áður en að nemendur prófa að forrita er sniðugt að spjalla um rótbóta og hvernig þeir verða sífellt algengari í daglegu lífi fólks, t.d. eru þeir notaðir til að setja saman bíla og ryksuga heimili. Á vefnum má finna mörg áhugaverð myndbönd um rótbóta sem vekja upp spurningar og hægt er að horfa á með nemendum.

Myndband um hótel í Japan sem rekið er að mestu leyti af rótbótum

Viðtal við róbótann Sophiu

Hvernig virkar Bjallan?

  • Nemendur telja út reitina og ýta á örvarnar til að stjórna bjöllunni, ef ýtt er tvisvar á örina sem snýr fram mun bjallan fara áfram um tvo reiti.
  • Hægt er að setja 200 skipanir í einu inni í bjölluna .
  • Ef settar eru inn rangar skipanir er hægt að þurrka út með því að ýta á krossinn.
  • Þegar allt er tilbúið er ýtt á græna takkann.

Mikilvægt er að taka fram að nemendur megi ekki taka róbótann upp og færa hann með handafli heldur verða þeir að forrita hann til að koma honum á réttan stað. Þegar bjallan er komin á áfangastað, þarf að ýta á krossinn til að hreinsa út skipanirnar þannig að næsti hópur geti spreytt sig.

Ef eitthvað fer úrskeiðis og bjallan fer ranga leið þá færa nemendur hana aftur á byrjunarreit, ýta á krossinn og prófa aftur. Það getur verið gott að hafa blað og skriffæri nálægt sem nemendur geta nýtt til að skrifa hjá sér skipanirnar ef upp koma vandamál. Þá er hægt að rýna í hvað fór úrskeiðis og prófa aftur.

Fyrstu skrefin

Við mælum með því að nemendur vinni í litlum hópum á meðan að þeir læra á róbótann, það er gott að byrja á einföldum verkefnum með tilbúinni mottu.

Til dæmis væri hægt að nota mottuna með formunum og forrita eftirfarandi:

Byrja með Bjölluna á gulaþríhyrninginum, láta hana snúa í átt að gula hringnum.

Fara frá gula þríhyrninginum á gula hringinn

Nemendur myndu þá ýta þrisvar á örina sem vísar fram og svo á græna takkann

Fara frá gula hringnum að bláa ferninginum

Muna að ýta á krossinn til að eyða út fyrri skipunum. Því næst þarf að láta Bjölluna snúa sér til vinstri með því að ýta á örina til vinstri og svo þarf að ýta þrisvar á örina áfram og að lokum á græna hnappinn.

Fara á græna hringinn

Hér væri hægt að fara fleiri en eina leið og um að gera að láta nemendur finna sjálfa út úr því. Fyrir þá sem eru lengra komnir mætti setja reglur um hversu margar skipanirnar mega vera, t.d. fara á græna hringinn en ekki nota fleiri en fimm skipanir til að komast þangað.

Hægt er að halda áfram með æfinguna í litlum hópi þar sem fjórir nemendur eru saman með bjöllu og mottu. Nemendur skiptast í tvö lið, liðin búa til áskoranir hvert fyrir annað eins og t.d. farðu frá gula þríhyrninginum að bláa ferhyrninginum, einnig væri hægt að skipta um mottu og prófa annað þema.