Það er auðvelt og skemmtilegt að tvinna saman forritun og bók- og tölustafanámi. Við mælum líka með því að í öllum verkefnum sé hugað að því að setja orð á hugtök. Vinna með róbóta gefur marga möguleika til að kenna óhlutbundin hugtök á borð við langt og stutt, hægri, vinstri, upp og niður, til hliðar, við hliðina á, fyrir framan, fyrir aftan, áfram, aftur á bak, í kringum, snúa við, bakka o.s.frv. Einnig er hægt að velta fyrir sér stærðfræðihugtökum og hugtökum tengdum hraða, fer Blue-bot t.d. hratt eða hægt yfir? Hversu margar skipanir þurfum við til að hann komist á leiðarenda?
Í verkefninu hér á eftir er unnið með bók og tölustafi. Það má gera á margvíslegan hátt. Það er hentugt að eiga annað hvort glæra mottu eða mottu með plastvösum sem leggja má undir stafi, þannig sjást þeir vel.
Glæru motturnar og motturnar með plastvösunum henta mjög vel til að leggja t.d. yfir stafrófsmottur eða lausa bók- og tölustafi. Einnig geta börnin búið til sínar eigin teikningar t.d. á maskínupappír og lagt svo glæra mottu yfir. Þetta gefur mikla möguleika á alls kyns vinnu með hugtök, bók- og tölustafi, myndir o.fl.