Spákúlan

Dot segir til um framtíðina!

Langar þig að skyggnast inn í framtíðina?

Í þessu verkefni forrita nemendur Dot til að spá fyrir um framtíðina. Verkefnið hefur notið mikilla vinsælda hjá nemendum sem hafa heimsótt Miðstöð skólaþróunar og mælum við með því fyrir nemendur á öllum aldri.

Þetta er frábært verkefni fyrir hópefli.

Markmið

Að nemendur:

  • þjálfist í forritun
  • þjálfist í samvinnu
  • þjálfist í að vinna með tungumálið - spurningar opnar/lokaðar

Undirbúningur

  • Spjaldtölvur fullhlaðnar
  • Dot sé fullhlaðin
  • Skipta nemendum upp í hópa
  • Upprifjun á því hvernig við búum til skipanir og röðum þeim saman
  • Upprifjun á því hvernig við tökum upp hljóð fyrir róbótana
  • Upprifjun á því hvað felst í opinni/lokaðri spurningu

Umræðupunktar

  • Ræða hvað felst í hugtakinu samvinnu
  • Er hægt að spá fyrir um framtíðina?
  • Er eitthvað að marka framtíðarspár?
  • Þekkjum við einhverjar frægar spákonur eða spámenn?
  • Hver Völvan og hvaða spádóma setur hún fram?

Áskorun - Dot segir til um framtíðina

  • Forritið Dot til að segja til um framtíðina
  • Ákveðið hvað þarf að gera til að Dot svari (t.d. er hægt að hrista hana)
  • Lesið inn 10 svör, 5 jákvæð og 5 neikvæð, svörin þurfa að vera þannig að passi við lokaðar spurningar, t.d. já, nei, kannski, ekki séns, pottþétt o.s.frv.)
  • Kveikið á forritinu og spyrjið Dot spurninga um framtíðina, spurningarnar þurfa að vera lokaðar, þ.e. spurningar sem hægt er að svara með jái og neii, t.d. fer ég til útlanda í sumar? Verður gaman á morgun?

Gaman er að láta kúlurnar ganga á milli hópa og fá þannig óvænt svör við spurningunum um framtíðina.

Fyrir þá sem klára snemma:

  • Bætið ljósum og hljóðum við forritið þannig að spákúlan líti vel út og grípi athygli
  • Látið Dot velta svarinu fyrir sér með því að forrita hljóð tengd umhugsun inn í forritið, t.d. hummmmmm (ef Dot er hallað til t.d. hægri eða vinstri)

Hugmyndir og ábendingar

  • Það er alltaf gaman að byrja kennslustundina á forritunarleik þar sem nemendur forrita hver annan, þá eru tveir eða fleiri nemendur saman, annar framkvæmir forritið en hinn forritar. Markmiðið getur t.d. verið að komast frá einum stað á annan. Forritið má búa til með því að skrifa skipanir á blað, t.d. með því að nota örvar, liti eða myndir. Einnig er hægt að setja skipanirnar fram munnlega.