Kappakstur

Kappakstur

Kappakstur með sphero gefur nemendum kost á að þjálfa samvinnu, æfa sig í að koma hugmyndum á framfæri, efla keppnisandann og æfa sig í því að vinna og tapa. Kappaksturinn reynir heilmikið á sköpunarkraftinn sem og útsjónarsemi. Skemmtilegt verkefni sem hentar vel til að þjappa saman hópnum.

Markmið

Að nemendur:

  • Þjálfist í forritun
  • Þjálfist í samræmingu hugar og handa
  • Þjálfist í samvinnu
  • Þjálfist í að taka sigri og ósigri
  • Taki þátt í að þróa fjölbreyttar lausnaleiðir við að koma Sphero frá einum stað til annars
  • Geti unnið í samvinnu við aðra að lausnum stærðfræðiverkefna þar sem byggt er á hugmyndum nemenda
  • Velti fyrir sér þyngd og hraða

Undirbúningur

  • Spjaldtölvur fullhlaðnar
  • Sphero róbótinn sé fullhlaðinn
  • Skipta nemendum upp í hópa
  • Ræða hvað felst í hugtakinu samvinnu
  • Efni til að búa til vagna fyrir Sphero
  • Létta bolta eða einhvern hlut til að setja í vagnana og ferja ákveðna vegalengd
  • Límband til að afmarka keppnisleiðina
  • Allskonar dót til að skreyta vagnana
  • Lego kubbar

Umræðupunktar

Ræða við nemendur um gildi þess að taka þátt í verkefninu. Hvernig getur liðið hjálpast að, hverju þarf að huga að? Hvernig geta liðsmenn stutt við þann sem stjórnar Sphero í kappakstrinum? Hvernig bregðumst við við ef við vinnum? Hvernig bregðumst við við ef við töpum?

Spjalla um að sýna þeim kurteisi sem sigra og samgleðjast þeim. Gætum við lært eitthvað af þeim sem sigra? Gerðu þau eitthvað öðruvísi en hin liðin við undirbúning keppninnar?

Áskorun

Nemendur byrja á því að stilla Sphero með því að fara í AIM í valmyndinni efst í hægra horninu, Sphero er rétt stilltur þegar litla bláa ljósið er beint fyrir framan notandann

  • Nemendur keppa í kappakstri, markmiðið er að koma léttum bolta eða kúlu frá staðsetningu A til staðsetningar B
  • Nemendur hanna vagn eða einhvers konar lausn til að ferja hlutinn en þurfa jafnframt að huga að því að Sphero hafi bolmagn til að draga vagninn
  • Nemendur skreyta vagninn sinn
  • Nemendur keppa í kappakstri þar sem Sphero þarf að koma sjálfum sér og aftan í vagninum frá A til B.
  • Í þessu verkefni verða oft til mikil listaverk og ekki úr vegi að vekja athygli á þeim eða leyfa nemendum að segja frá sinni útfærslu yfir hópinn.

Umræður að verkefni loknu

Í þessu verkefni reynir á að nemendur átti sig á því að léttur vagn fer hraðar yfir en þungur og á það bæði við um skreytingar og þann efnivið sem þau nota í vagninn.

Líklega kemur í ljós að þeir sem hafa ofhlaðið vagninn sinn eða búið hann til úr þyngri efnum fara hægar yfir ef þeir á annað borð komast af stað. Þetta verkefni er því tilvalið fyrir umræður um þyngd og hraða.

Geta nemendur nefnt dæmi úr daglega lífinu þar sem þau sjá þennan mun (flutningabílar/fólksbílar)?

Hvað ef við breyttum akstursstefnu Sphero og þeir myndu keyra upp brekku/niður brekku yrði munur á þeim þá?

Á myndunum má sjá vagna sem gerðir voru af nemendum í 9. bekk sem komu í heimsókn í HA eins og sjá má fékk sköpunargleðin svo sannarlega að njóta sín.