Stærðfræði

Í forritun vinna börn með stærðfræði og rökhugsun, hægt er að nota vélmenni á borð við Kubb eða Bjölluna (sem einnig er fjallað um á þessari síðu) til að gera stærðfræðinámið áþreifanlegt og skemmtilegt. Í gegnum leik með Kubb eflist talna- og hugtakaskilningur barna og skilningur þeirra á rými og mælingum. Börnin fá tækifæri til að nýta stærðfræði á hagnýtan hátt, bregðast við aðstæðum og beita rökhugsun til að leysa vandamál.

Leikur með Kubb veitir kennurum tækifæri til að koma markvissri umræðu um stærðfræðihugtök inn í leik barnanna og útskýra þau á sjónrænan hátt. Umræðunni má svo halda áfram í öðrum stundum dagsins og veita þeim athygli t.d. í samverustundum, leik barnanna og við matarborðið.

Rökhugsun

Í grunninn snýst forritun um að leysa vandamál á skapandi hátt. Verkefnin sem hægt er að vinna með Kubbi eru því í grunninn þrautir sem þarf að leysa, s.s. hvernig kemst Kubbur frá einum stað til annars? Hversu margar skipanir þurfum við að nota? Getum við komist alla leið með því að búa til lengra forrit? Það skemmtilegasta í þessari vinnu er að oftast er hægt að leysa vandamálin á fleiri en einn veg. Verkefnin bjóða því upp á fjölmörg tækifæri til samvinnu og umræðna í barnahópnum.


Lausnaleit

Það er auðvelt að finna og leiðrétta villur á skipanaborðinu. Börnin geta því auðveldlega fylgst með forritinu sínu, fundið villurnar og leitað að öðrum lausnum.

Ljósin fyrir neðan skipanirnar á skipanaborðinu gefa vísbendingar um hvort Kubbur er á réttri leið og ef eitthvað fer úrskeiðis er hægt að sjá hvar villan í forritinu er með því að fylgjast með ljósunum. Stundum koma upp vandamál á miðri leið sem þarf að leysa og þá geta börnin brugðist við, annað hvort með því að byrja upp á nýtt eða breyta því forriti sem þau hafa þegar gert.

Talning

Allur leikur og vinna með Kubb byggir á talningu og talnaskilningi. Börnin velta fyrir sér hvert Kubbur er að fara, velja bestu leiðina, telja og raða saman þeim skipunum sem þau telja að henti best. Mikilvægt er að skipanirnar fari inn í réttri röð. Þetta er grunnurinn í forrituninni, að átta sig á hvað við viljum að forritið okkar geri og raða upp skipunum þannig að það virki. Eftir því sem hæfni barnanna í forritun eykst er hægt að gera lengri forrit m.a. með því að nýta neðstu línuna á skipanaborðinu.

Mælingar

Áhugavert er að mæla hversu langt Kubbur fer í einni skipun og nota þá mælieiningu til að búa til þrautabrautir og ný teppi. Vinna með mælingar getur verið mjög áhugaverð fyrir börn á elstu deild og á yngsta stigi grunnskólans.

Einnig er hægt að skoða hversu margar skipanir þarf til að Kubbur komist yfir ákveðið rými eða inn í næsta herbergi. Mögulega getur hann farið í ferðalag um leikskólann eða deildina.

Hugtök

Skilningur á hugtökum er gríðarlega mikilvægur. Að kunna, skilja og geta notað hugtök tengd tölum og stæðfræði sem og óhlutbundin hugtök á borð við staðsetningar- og afstöðuhugtök skiptir miklu máli í öllu námi og daglegu lífi.

Því er mikilvægt að nota hugtökin sem oftast í leik og starfi með börnunum, skapa tækifæri til þess að þau noti þau sjálf, rifja reglulega upp og nota endurtekningu í gegnum leik til að festa þau í minni.

Forritun

Fyrstu skrefin í forritun þurfa ekki að vera flókin, það er góð æfing fólgin í að hanna forrit (ákveða hvert Kubbur er að fara), raða inn skipunum og prófa hvort forritið virkar.

Með þessu móti læra börnin mikilvægi þess að undirbúa forritunina vel (telja út, finna bestu leiðina), vera viss um hvað þau vilja að forritið geri (koma Kubb frá a til b), skoða vel í hvaða röð skipanir eru settar inn á skipanaborðið og að lokum að ef eitthvað mistekst að prófa þá aftur og finna nýja lausn.

Verkefni

Áskorun I

  • Kubbur þarf að komast á ákveðinn stað á teppinu (hægt að nota hvaða teppi sem er)
  • Finnið þrjár ólíkar leiðir til að komast á áfangastað
  • Reynið að finna stystu leiðina, lengstu leiðina, einföldustu leiðina o.s.frv.

Áskorun II

  • Látið Kubb ferðast um rýmið í skólanum
  • Rannsakið vegalengdir, s.s. hversu margar skipanir þarf til að Kubbur komist yfir herbergið, getur hann farið yfir í næsta herbergi o.s.frv.
  • Fyrir lengra komna er áhugavert að skoða hvernig hægt er að nota bláa kubbinn til að komast lengra í einu
  • Mögulega getur Kubbur farið í ferðalag um skólann, stofuna eða deildina.