Leikrit

Leikrit

Í þessu verkefni samtvinna nemendur skapandi skrif og forritun.

Verkefnið felst í því að nemendur skrifa sögu og forrita sphero til að leika hlutverkin.

Það er bæði hægt að vinna út frá sögum/bókum/ævintýrum/þjóðsögum/sönglögum sem eru til eða hvetja nemendur til að búa til sína eigin sögu. Þetta verkefni hentar vel fyrir 2-4 manna hópa.

Ritun

Áður en hafist er handa þarf að vera á hreinu hvert viðfangsefnið er, á að skrifa frumsamda sögu eða gera endurgerð á eldri sögu?

Mikilvægt er að byggja vel undir ritun barnanna og velta fyrir sér persónusköpun og uppbyggingu sögunnar. Ákveða þarf hvernig á að skrá söguna, á að gera handrit eða nota söguvef/sögukort og spinna í kringum það. Þegar kemur að því að forrita Sphero til að leika í sögunni þarf að huga að leikmunum, búningum og bakgrunni sögunnar.

Grunnatriði ritunar

    • Persónusköpun - eru persónurnar áhugaverðar?
    • Hefur sagan byrjun, miðju og endi?
    • Er sagan frumsamin eða er verið að endurgera sögu eftir aðra?

Handrit

    • Sögurammar eða söguvegir geta verið gott tæki til að halda utan um sögugerðina (sjá dæmi hér fyrir neðan)
    • Nemendur geta skrifað nákvæmt handrit eða nýtt söguveg/sögukort til að halda utan um söguþráðinn án þess að skrifa nákvæmlega niður allt sem gerist
    • Á Krakkarúv og á Ritunarvef MMS er að finna ýmsar hagnýtar og góðar leiðbeiningar fyrir nemendur og kennara um skapandi skrif

Leikmunir og búningar

    • Hvaða leikmuni og búninga þarf í sögugerðina?
    • Hvernig er bakgrunnurinn, þarf einhverju að breyta þar?

Söguvegir

Söguvegir eru sniðug leið til að vinna með texta á myndrænan hátt. Nemendur skrá atburði sögunnar á söguveginn í ákveðinni tímalínu, með því fá þeir gott yfirlit yfir söguna og eiga auðveldara með að endursegja hana. Á sama hátt má búa til sögukort með því að skipta blaði niður í nokkra ferninga og skrá atburðina þar inn.

Forritun

Í Sphero Edu er hægt að forrita Sphero til að leika hlutverkin sín, færa sig á milli staða, tala og nota bæði ljós og hljóð. Það getur verið krefjandi en skemmtilegt að nota nokkra róbóta og búa til fleiri en eitt forrit sem vinna saman. Hér er lykilatriði að prófa sig áfram, breyta og bæta.

Markmið

Að nemendur:

  • Þjálfist í forritun
  • Þjálfist í samvinnu
  • Noti ímyndunaraflið og sköpunargleðina til að búa til eitthvað nýtt
  • Þjálfist í ritun
  • Þjálfist í búa til sögu með upphaf, miðju og endi
  • Þjálfist í persónusköpun
  • Þjálfist í að skrifa handrit og búa til leikrit

Undirbúningur

Nemendur/tæki:

  • Spjaldtölvur fullhlaðnar
  • Sphero robotinn sé fullhlaðinn
  • Skipta nemendum upp í hópa
  • Bjóða upp á bækur sem nemendur geta stuðst við. Nemendur geta einnig samið sitt eigið leikrit frá grunni
  • Efnivið í búninga og bakgrunna fyrir söguna

Leiðbeiningar fyrir nemendur

Skrifaðu sögu. Þú getur notað sögukort eða söguveg til að skipuleggja atburðarásina.

Veltu fyrir þér hvernig þú kynnir persónurnar til sögunnar, hvaða vandamál koma upp og hvernig þau leysast.

Umhverfi sögunnar. Hvar gerist sagan? Finndu efnivið til að búa til bakgrunn sögunnar og e.t.v. þarftu að nota einhverja leikmuni.

Búningar. Þarf Sphero búning? Notaðu pappír, afgangs efnisbúta eða annað efni sem til er til að búa til búninga

Stilltu upp, þegar allt er tilbúið setur þú Sphero á sinn stað í leikmyndinni.

Forritun. Notaðu Sphero Edu til að stýra róbótanum og mundu að þú getur tekið upp hljóð og notað ljós

Hugmyndir og ábendingar

Við leikritagerðina gæti verið gaman fyrir nemendur að taka frægar senur úr bíómyndum og endurgera með Sphero.

Einnig getur verið gaman að spreyta sig á því að setja upp góðan brandara.

Það er gaman að taka leikritið upp á spjaldtölvu og prófa sig áfram með að klippa það saman í kvikmynd.

Á hugmyndasíðunni má finna flott verkefni sem unnin voru í Árskóla á Sauðárkróki með Sphero, þar má meðal annars finna leikrit.

Áhugavert efni um ritun fyrir nemendur og kennara