Kubbur er sniðugur í málörvun. Í leik með Kubb er einfalt að kenna ýmis óhlutbundin hugtök, það má gera með því að fara í gegnum forritunarverkefnin en einnig með því að nota Kubb sem útgangspunkt fyrir alls konar vinnu með mál og orðaforða.
Í forritunarverkefnunum sem fylgja Kubbi er sniðugt að vinna með hugtök á borð við langt og stutt, hægri, vinstri, upp og niður, til hliðar, við hliðina á, fyrir framan, fyrir aftan, áfram, aftur á bak, í kringum, snúa við, bakka o.s.frv. Einnig er hægt að velta fyrir sér stærðfræðihugtökum og hugtökum tengdum hraða, fer Kubbur t.d. hratt eða hægt? Hversu margar skipanir þurfum við til að hann komist á leiðarenda?
Annars konar orðaforða má svo bæta við með því að lesa bækurnar, velta fyrir sér hvert Kubbur er að fara og skoða myndir eru á teppunum. Skemmtilegast af öllu er að búa til sína eigin heima þar sem börnin og kennarinn geta unnið saman með ákveðin viðfangsefni, búið til sögur og leyft ímyndurnaraflinu og sköpunargleðinni að njóta sín.
Spjöllum saman
Spjöllum saman um hver Kubbur er, hvert hann er að fara, hvað hann er að gera o.s.frv. Hvetjum börnin til að segja frá og rifjum upp það sem Kubbur gerði síðast þegar við hittum hann. Gefum börnunum góðan tíma til að meðtaka það sem við erum að segja og tíma til að svara. Pössum upp á að allir í hópnum fái að leggja eitthvað til málanna.
Setjum orð á athafnir
Tölum um það sem Kubbur er að gera, t.d.: Nú er Kubbur að fara áfram um tvo reiti eða Kubbur er við hliðina á stóra kastalanum, hann þarf að fara undir gulu brúna til komast í bæinn o.s.frv. Búum til tækifæri fyrir börnin til að læra ný orð og notum endurtekningu til að kenna þau. Ferðalög Kubbs gefa tilefni til að endurtaka sömu hugtökin aftur og aftur þangað til börnin eru farin að tileinka sér þau.
Hugtök
Kubbur er frábær til að kenna staðsetningar- og afstöðuhugtök (undir, yfir, kringum, við hliðina á o.s.frv.), ýmis stærðfræðihugtök (talning, samlagning, frádráttur o.s.frv.), áttirnar og hægri/vinstri. Teppin sem fylgja honum eru litrík og falleg og henta vel til að kenna litina. Auðvelt er að búa til sín eigin teppi sem hægt er að nota til að kenna formin, tölurnar og bókstafina. Með því að búa til sína eigin heima fyrir Kubb má í raun kenna hvað sem er og því hentar hann vel í alls konar þemavinnu. Bækurnar um Kubb gefa tilefni til að ræða ólíkt umhverfi, geiminn, hafið, tilfinningar og fjarlæga staði s.s. Egyptaland.
Sögur
Kubbur er tilvalinn efniviður í sögur, börnin geta búið til eigin heima í kringum Kubb og sagt frá þeim. Einnig er hægt að byrja á að gera sögu og láta Kubb svo ferðast í gegnum hana líkt og gert er í bókunum um Kubb. Það er alltaf gaman að skrifa sögurnar niður og lesa þær aftur seinna. Sögugerð örvar orðaforða barna og þau nota annarskonar málfar en venjulega. Önnur hugmynd er að lesa sögu og endurgera hana með Kubb í aðalhlutverki, þá er hægt að bæta inn búningum og skemmtilegum fylgihlutum sem tengjast sögunni.
Leikur
Málörvun í gegnum leik er áhrifarík. Kennarinn getur tekið þátt í leik með Kubb, ýtt undir umræður og komið að ákveðnum hugtökum. Einnig er hægt að bjóða upp á viðbótarefnivið og fylgihluti sem gefa tilefni til umræðna og ákveðinnar málnotkunar.