Völundarhús og þrautabrautir

Völundarhús og þrautabrautir

Þrautabrautir og völundarhús henta vel til að vinna með forritun. Slík verkefni bjóða upp á frábært tækifæri til samvinnu þar sem nemendur leita í sameiningu leiða til að leysa þau vandamál sem koma upp.

Dash er skemmtilegur róbóti til að nota með verkefnum tengdum þrautabrautum og völundarhúsum þar sem að hann á auðvelt með að keyra á fjölbreyttu undirlagi, heldur hleðslu vel og hefur fjarlægðarskynjara sem gera honum kleift að nema hindranir sem verða á vegi hans.

Þrautabrautir og völundarhús má byggja úr fjölbreyttum efniviði og geta þau verið mjög einföld eða töluvert flókin, á myndinni hér til vinstri má sjá fjölbreytta og skemmtilega braut. Myndin er fengin frá Barry J. Brennan af Twitter.

Markmið

Að nemendur:

  • þjálfist í forritun
  • taki þátt í að þróa skipulega fjölbreyttar lausnaleiðir, m.a. með notkun upplýsingatækni
  • geti unnið í samvinnu við aðra að lausnum stærðfræðiverkefna þar sem byggt er á hugmyndum nemenda

Undirbúningur

  • Spjaldtölvur fullhlaðnar
  • Dash og Dot séu fullhlaðnir
  • Skipta nemendum upp í hópa
  • Kaplakubba
  • Límband
  • Langar spýtur eða einingakubba
  • Legokubba og annað sem ykkur dettur í hug

Hér er markmiðið að nemendur búi til þrautabraut fyrir vélmennin þar sem þau eiga að fara frá upphafspunkti til lokapunkts og leysa verkefni á leiðinni. Nemendur geta samtvinnað völundarhús og þrautabraut eða unnið þetta í sitthvoru lagi. Með yngri nemendur er betra að hafa verkefnin sitt í hvoru lagi.

Umræðupunktar

  • Ræða hvað felst í hugtakinu samvinnu
  • Hver er munurinn á þrautabraut og völundarhúsi?
  • Hverju þurfum við að huga að þegar við búum til þrautabraut/völundarhús?
  • Hvaða eiginleika hefur Dash til að bera sem geta hjálpað honum að fara í gegnum brautina? Hér er t.d. hægt að minna á fjarlægðarskynjarana.
  • Væri hægt að forrita Dot til að stýra Dash í gegnum brautina? (Fyrir lengra komna - Sjá síðuna um Símon segir...)

Áskorun I - Þrautabraut

  • Nemendur teikna upp þrautabraut á blað eða tússtöflu
  • Nemendur finna þann efnivið sem til þarf í þrautabrautina
  • Nemendur forrita Dash til að komast í gegnum þrautabrautina
  • Áhugavert að prófa að búa til forrit sem reynir á fjarlægðarskynjarana


Mynd af vefsíðunni Jbrary.com

Áskorun II - Völundarhús


  • Nemendur teikna upp völundarhús á blað eða tússtöflu
  • Nemendur finna þann efnivið sem til þarf í völundarhúsið
  • Nemendur forrita Dash til að komast í gegnum völundarhúsið
  • Áhugavert að prófa að búa til forrit sem reynir á fjarlægðarskynjarana


Mynd af vefsíðunni Jbrary.com

Hugmyndir og ábendingar

  • Það er alltaf gaman að byrja kennslustundina á forritunarleik þar sem nemendur forrita hver annan, þá eru tveir eða fleiri nemendur saman, annar framkvæmir forritið en hinn forritar. Markmiðið getur t.d. verið að komast í gegnum þrautabraut eða völundarhús. Forritið má búa til með því að skrifa skipanir á blað, t.d. með því að nota örvar, liti eða myndir. Einnig er hægt að setja skipanirnar fram munnlega.
  • Hægt er að láta nemendur búa til sína eigin þrautabraut/völundarhús og svo forrita þeir róbotana og láta þá leysa verkefnin. Einnig er hægt að láta einn hóp búa til þrautabraut /völundarhús og svo á annar hópur að forrita róbotana og leysa verkefnið. Hafa í huga að skiptast á þannig að allir fái að búa til þrautabraut og fái líka að prófa forritun.