Ævintýraheimar

Ævintýraheimar

Það er einfalt og skemmtilegt að búa til ævintýraheima fyrir Kubb. Kubbur er seigur að koma sér áfram og getur keyrt á ýmiskonar undirlagi og möguleikarnir því endalausir. Hægt er að búa til undirlag sem hefur ákveðin tilgang eins og t.d. spilaborð eða gefa ímyndurnaraflinu og sköpunargleðinni lausan tauminn og skapa heila heima fyrir Kubb. Stundum er líka hægt að nota eitthvað sem til er í leikskólanum eins og t.d. landa- eða heimskort eða jafnvel borðspil í stærri kantinum.



Mynd af vefsíðu Primotoys

Hugmyndir að ævintýraheimum


Landakort

Það getur verið bæði fróðlegt og gaman að leyfa Kubbi að ferðast um á landakorti. Þar getur hann heimsótt ýmsa staði innanlands og utan. Í verkefnum með landakort er áhugavert að velta fyrir sér vegalengdum og gera athuganir á því hversu margar skipanir eru á milli staða.

Spilaborð

Það er gaman að eiga spilaborð fyrir Kubb, það má búa til með því að mæla ferningana á teppinu sem fylgir grunnpakkanum og búa til samsvarandi rúðustrikað undirlag annað hvort á pappír eða með því að líma límband á gólf. Spilaborð gefur ótal möguleika, t.d. er hægt að leggja litla hluti, bókstafi, tölustafi, form, liti eða myndir (orðaforði) á reitina og forrita Kubb til að sækja hlutina eftir fyrirmælum.

Ævintýraheimar

Börn hafa gaman af leik með Kubb þar sem þau geta prófað sig áfram með skipanaborðið og búið til eigin teppi og sögur. Börnin geta teiknað, litað, málað eða saumað undirlag og búið til veröldina hans Kubbs. Það getur verið skemmtilegt að nota leikmuni með eins og t.d. smádót og kubba til að lífga upp á umhverfið. Þegar börnin hafa lært að umgangast Kubb getur verið gaman fyrir þau að fá tækifæri til að leika sér með hann án þess að leiknum sé stýrt af kennara eða sögubókum.

Sögur

Hægt er að búa til undirlag eða bakgrunn að sögu/leikriti, þar sem ákveðnir hlutir þurfa að vera til staðar. Í tengslum við sögugerð er gaman að gera búninga fyrir Kubb (sjá hugmyndir undir sköpun) og búa til eða finna aukapersónur í söguna. Önnur hugmynd er að skrifa nýja forritunarbók um Kubb og búa til samsvarandi teppi, það er t.d. hægt að tengja við þemavinnu í skólanum.

Verkefni

Áskorun I

Frumsamin forritunarsaga

  • Semjið sögu um Kubb
  • Hannið teppi sem passar við söguna
  • Skrifið söguna niður, teiknið myndir
  • Fáið aðra til að prófa forritunarsöguna

Áskorun II

Sögugerð

  • Lesið áhugaverða sögu eða ævintýri
  • Endurgerið söguna, hvaða persónur þarf að búa til og hvernig bakgrunn?
  • Hvernig passar Kubbur inn í söguna, hvaða hlutverki getur hann gengt?
  • Búið til búninga á Kubb sem passa við söguþráðinn (sjá hugmyndir og sniðmát undir kaflanum um sköpun)