Ferðalag

Ferðalag

Í dag er auðvelt að ferðast til annarra landa. Kostnaðurinn við það er þó töluverður og því er frábært hvaða möguleika tæknin er að bjóða okkur upp á í dag. Google Maps og Google Street View gerir okkur kleift að ferðast á framandi staði.

Þrátt fyrir alla tæknina sem Google býður verður þó áherslan í þessu verkefni á gamla góða landakortið sem stendur alltaf fyrir sínu.


Mynd af vefsíðu Wonder Workshop.

Markmið

Að nemendur:

  • Þjálfist í forritun
  • Átti sig á hlutverki landakorta og notagildi þeirra
  • Átti sig á að þeir eru hluti af stærra samfélagi
  • Læri áttirnar á korti
  • Sýni tillitsemi og umhyggju í leik og starfi
  • Geti sagt einföld orð á öðrum tungumálum

Undirbúningur

  • Spjaldtölvur fullhlaðnar
  • Dash og Dot séu fullhlaðnir
  • Skipta nemendum upp í hópa
  • Landakort sem hægt er að leggja á gólf

Í þessari vinnu er upplagt að vinna með landakort sem hægt er að leggja á gólf. Þar sem þau eru ekki mjög stór og nemendur að vinna með nokkra róbota í einu þá er mikilvægt að rifja upp með nemendum hvernig við sýnum hvert öðru tillitsemi. Það geta kannski ekki allir hópar verið að vinna á sama tíma.

Ef skólar eiga ekki kort til að leggja á gólf. Þá má nota karton og teikna t.d. Evrópu eða aðrar heimsálfur lauslega upp og nemendur láta svo Dash og Dot fara á milli landanna.

Umræðupunktar

  • Til hvers notum við landakort?
  • Hvernig er hægt að ferðast á milli landa?

Áskorun I - Ferðalag um heiminn

  • Dash ferðast um heiminn
  • Stórt heimskort lagt á gólfið, nemendur fá fyrirmæli um hvert Dash á að ferðast
  • Nemendur leita að stöðum á kortinu og spreyta sig við að forrita Dash til að komast þangað
  • Ferðalag um heiminn gefur tilefni til alls kyns umræðana og spjalls. Það getur verið gaman að vera með bækur um heiminn tiltækar eða fara á vefinn og skoða myndir af stöðunum. Einnig mætti nota þrívíddargleraugu og Google Street view smáforritið til að skoða staðina í þrívídd

Áskorun II - Ferðalag um Ísland

  • Dash ferðast um Ísland
  • Stórt Íslandskort lagt á gólfið, nemendur fá fyrirmæli um hvert Dash á að ferðast
  • Tilvalið er að spjalla um staði á Íslandi, spyrja nemendur hvert þeir hafa farið og hvað þeir sáu merkilegt á þeim stöðum. Eiga einhverjir ættingja sem eiga heima í öðrum bæjum eða í borginni?
  • Það er líka áhugavert að skoða vegalengdir, hvert er stutt að fara og hvert er langt að fara?
  • Getur Dash ferðast í kringum landið? Hvað getur hann heimsótt marga bæi?

Áskorun III - Að teikna útlínur landa

  • Nemendur velja sér land
  • Leggja maskínupappír á gólfið og festa penna við róbótann
  • Nemendur prófa sig áfram við að forrita útlínur landsins sem þeir völdu á maskínupappírinn

Hugmyndir og ábendingar

  • Það er alltaf gaman að byrja kennslustundina á forritunarleik þar sem nemendur forrita hver annan, þá eru tveir eða fleiri nemendur saman, annar framkvæmir forritið en hinn forritar. Markmiðið getur t.d. verið að komast frá einum stað á annan. Forritið má búa til með því að skrifa skipanir á blað, t.d. með því að nota örvar, liti eða myndir. Einnig er hægt að setja skipanirnar fram munnlega.
  • Í þessu verkefni er tilvalið að tengja jarðfræði við forritunina. Ræða við nemendur afhverju heimsálfurnar eru ekki allar fastar saman og hvers vegna landakort eru í mismunandi litum. Einnig er hægt að eiga samræður um norður- og suðurskautið. Hvar á jörðinni býr fólk og hvar ekki. Hvað þarf að vera til staðar til að við getum búið í landinu.
  • Hafa einhverjir nemendur búið annarsstaðar en á Íslandi. Var það frábrugðið og ef svo er að hvaða leyti.
  • Hér væri tilvalið að láta róbótana tala á tungumáli landsins sem þeir eru að skoða í gegnum forritunina. Sem dæmi þá gæti nemandi búið til leiðangur þar sem Dash fer til þriggja landa og segir góðan daginn á öllum tungumálunum. Eldri nemendur gætu látið Dash og Dot segja heilu málsgreinarnar.
  • Það er um að gera að nýta tæknina til að gefa nemendum betri sýn á þá staði sem Dash heimsækir, t.d. er hægt að skoða myndbönd, vefsíður og myndir á vefnum. Svo er upplagt að heimsækja Google maps og nota þrívíddargleraugu með forritinu Google street view til að upplifa nýja og spennandi staði. Með þrívíddargleraugum, síma og Google street view smáforritinu er hægt að skoða 360 gráðu myndir. Þegar nemendur setja upp gleraugun upplifa þeir að þeir standi inni í miðri myndinni, þar geta þeir horft í kringum sig í allar áttir. Þrívíddargleraugu þurfa ekki að vera dýr og oft má fá pappaútgáfu af þeim t.d. í Tiger á 300 kr. Margir eiga gamla snjallsíma ofan í skúffu sem henta vel til að nota með gleraugunum.
  • Fræði- og sögubækur eru skemmtileg viðbót við landakortin og gaman að lesa og skoða bækur sem tengjast þeim stöðum sem Dash heimsækir. Ferðalögin gefa tækifæri til að kynna til sögunnar ýmis hugtök sem tengjast umhverfinu s.s. fjöll, dalir, hálendi, láglendi, ár, lækir o.s.frv. Þegar unnið er með hugtök er alltaf gott að hafa í huga að tengja umfjöllunina og umræðurnar við reynsluheim nemenda.
  • Í framhaldi af vinnu með kort geta börnin búið til sín eigin landakort, bæjarkort eða hverfiskort með helstu kennileitum, byggingum og stöðum sem nemendum finnast áhugaverðir.