Grunnpakkinn

Grunnpakkinn

Cubetto eða Kubbur eins og hann er oft kallaður á íslensku hentar vel fyrir börn á leikskólaaldri og á yngsta stigi grunnskólans. Það sem fyrst vekur athygli við Kubb er vönduð hönnun sem minnir um margt á Waldorf leikföngin. Í grunnpakkanum er Kubbur, skipanaborð, teppi (ævintýraheimur), tvær bækur og skipanakubbar. Kubbur fæst t.d. hjá www.primotoys.com en einnig í stórum vefverslunum á borð við Amazon.

Kubbur er búinn til úr vönduðum efnum, hönnunin er einföld og mikið lagt upp úr hreinum línum og vönduðum efnum bæði í Kubbi, stjórnborðinu og teppinu sem fylgir. Kubbur sjálfur er vinalegur og aðlaðandi í einfaldleika sínum.

Bækurnar tvær eru annars vegar leiðbeiningabók sem gott er að hafa við höndina á meðan að lært er á skipanaborðið og hins vegar stutt forritunarsaga, Cubetto's First Day, sem fjallar um fyrsta dag Kubbs í skólanum. Í sögunni fylgja börnin Kubbi í gegnum skóladaginn og læra í leiðinni að forrita. Öll forritun fer fram án þess að nota skjá.

Kubbur notar 3 AA batterí og skipanaborðið þarf einnig 3 AA batterí. Sniðugt er að kaupa hleðslubatterí og eiga sett til skiptana.

Skipanaborðið

Skipanir

Ævintýraheimur Kubbs

Fyrstu skrefin

Bókin sem fylgir grunnpakkanum leiðir notendur í gegnum fyrstu skrefin í forritun. Það er sniðugt að byrja á að renna í gegnum leiðbeiningabókina (book O) og fara svo í sögubókina (book 1) og fylgja söguþræðinum í henni. Teppið er lagt á gólfið og Kubbur settur á reitinn efst í vinstra horninu. Kveikja þarf á Kubbi og stjórnborðinu og aðgæta að batteríin séu í lagi. Best er að lesa í gegnum bókina og fara eftir leiðbeiningunum. Á hverri síðu er stuttur texti og fyrirmæli um hvert Kubbur á að fara. Til að koma honum áfram þarf að raða skipunum í skipanaborðið.

Grænn kubbur stendur fyrir að fara áfram um einn.
Rauður kubbur stendur fyrir að beygja til hægri.
Gulur kubbur stendur fyrir að beygja til vinstri. 

Skipanirnar raðaðst frá vinstri eftir línunni sem skorin er ofan í skipanaborðið, pláss er fyrir 12 skipanir í einu en einnig er hægt að nota neðstu línuna til að fjölga skipunum til muna. Neðsta línan stendur fyrir röð aðgerða, þ.e. blái kubburinn táknar þær skipanir sem þar eru settar.

Þegar búið er að ákveða hvert Kubbur á að fara og raða skipunum á skipanaborðið er ýtt á bláa hnappinn til hægri á borðinu. Þá fer Kubbur á stað, hægt er að fylgjast með hvaða skipun hann er að framkvæma á borðinu en ljós kvikna fyrir neðan skipanirnar þegar þær eru framkvæmdar. Þetta er sniðugt að benda börnunum á, því að ef Kubbur fer ranga leið þá er hægt að sjá hvar forritunin fór úrskeiðis með því að fylgjast með ljósunum. Í framhaldi er auðvelt að betrumbæta forritið og reyna aftur.

Bókin og teppið

Bókin Cubetto's First Day er kjörin til að æfa sig að nota Kubb. Bókin er notuð með teppinu. Í bókinni er fjallað um fyrsta dag Kubbs í skólanum. Á hverri síðu er stuttur texti og ein skipun sem þarf að framkvæma. Þar eru einnig fróðleiksmolar og spurningar sem tengjast ferðalagi Kubbs um teppið. Þema bókarinnar er mismunandi umhverfi í heiminum, s.s. eyðimerkur, fjöll, ár, vötn en einnig er fjallað um byggingar og lífshætti fólks í mismunandi umhverfi á einfaldan hátt.

Bókin vekur ýmsar spurningar og um að gera að nýta sér hana til að spjalla, vinna með orð og tengja efnið við bakgunnsþekkingu barnanna.

Teppið og bókin eru skemmtileg leið til að vinna með Kubb en hann má einnig nota í alls kyns leikjum og verkefnavinnu án þeirra, finna má fjölda skapandi hugmynda hér á síðunni.

Hægt er að skoða bókina með því að smella HÉR.

Verkefni

Skipanir

Grænn kubbur - áfram um einn
Rauður kubbur - beygja til hægri
Gulur kubbur - beygja til vinstri
Blár kubbur - röð aðgerða (táknar allar þær aðgerðir sem settar eru í neðstu línuna)

Áskorun I

Hvað skipun gefur:

  • fjólublái kubburinn?
  • svarti kubburinn?
  • guli kubburinn?

Áskorun II

Hversu marga reiti kemst Kubbur í einni ferð:

  • með því að nota grænar, rauðar og appelsínugular skipanir?
  • með því að nota líka bláa kubba?