Kubbar eru frábær viðbót í allri vinnu og leik með Kubb, hægt er að nota einingakubba, legó kubba, kaplakubba, trékubba eða hvaða kubba sem er. Kubbana er hægt að nota á fjölbreytta vegu, t.d. til að búa til þrautabrautir/völundarhús og glæða umhverfi Kubbs lífi með þrívíðum byggingum. Byggingarnar geta verið mjög fjölbreyttar s.s. hús, verslanir, turnar, kastalar og brýr til að keyra undir.
Vinna með kubba gefur fjölmörg tækifæri til að æfa hugtök tengd stærðfræði, svo sem fjöldahugtakið, samlagningu, frádrátt, deilingu, flokkun, lögun og skipulag. Fleiri hugtök koma einnig við sögu þegar börn leika með kubba s.s. staðsetningar- og afstöðuhugtök, samanburðarhugtök og hugtök tengd rými. Leikur með kubba æfir samhæfingu hugar og handa sem og fín- og grófhreyfingar og er því tilvalið að bjóða upp á kubba sem aukahluti þegar börnin æfa forritun.
Einingakubbarnir sem til eru í flestum leikskólum eru mjög skemmtilegur efniviður til að búa til þrautabrautir og velta fyrir sér vegalengdum, t.d. hversu langt fer Kubbur með einni skipun? Og hvernig getum við búið til braut sem passar við forritið okkar?
Einingarkubbarnir byggjast á rétthyrndum grunnkubbi sem allt kubba settið miðast út frá, í settinu eru auk rétthyrndra kubba, þríhyrningar, sívalningar, bogar, beygjur og fleiri form sem gefa marga möguleika til sköpunar.
Lego kubbarnir vinsælu er frábærir með Kubbi. Þá er hægt að nota til að búa til þrautabrautir og völundarhús sem og til að búa til bakgrunn fyrir leik, hús fyrir Kubb o.s.frv.
Í Lego kassanum má einnig finna alls kyns skemmtilega aukahluti sem hægt er að nota í leik. Þar eru yfirleitt dýr, fólk, bílar, matur og fleira sem auðveldlega má tengja inn í leik barnanna.
Til viðbótar við kubba er hægt að nýta alls konar efnivið og önnur leikföng í skapandi vinnu með Kubb eins og t.d. fígúrur og dýr, bíla, pappír og skriffæri, skeljar, steina, greinar, köngla, efnisafganga, garn, spotta o.s.frv.
Í Legókubbakassanum má einnig finna ýmsa skemmtilega hluti og fígúrur sem gaman er að nota.