Fræðsla

Það er sniðugt að nota Kubb sem útgangspunkt í alls kyns verkefnum. Ferðalög hans gefa endalausa möguleika á að koma að fróðleiksmolum til barnanna um hvað eina. Það er gaman að láta Kubb ferðast um á Íslandskorti og velta fyrir sér fjarlægðum á milli bæja og áhugaverðum stöðum á Íslandi. Á heimskorti er hægt að skoða hvaða lönd eru nálægt okkur og hver eru lengra frá og kynna í leiðinni menningu þeirra fyrir börnunum. Með því að búa til eigin teppi t.d. í samvinnu við börnin er hægt að sníða verkefnin að áhugasviði þeirra og þeim viðfangsefnum sem þau eru að vinna með hverju sinni í leikskólanum.

Einnig er tilvalið að nota bækurnar um Kubb sem útgangspunkt í umræðum og rannsóknum, þær eru á ensku en það er einfalt að snara þeim yfir á íslensku. Bókin sem fylgir námsefninu fjallar um fyrsta daginn hans Kubbs í skólanum, þar lærir Kubbur ýmislegt um jörðina, fólkið sem býr á henni og umhverfið. Í aukahlutapakkanum eru fjórar bækur í viðbót sem fjalla um geiminn, hafið, Egyptaland til forna og þegar Kubbur týnist í borginni. Þessar bækur tengjast ákveðnum þemum sem hægt er að vinna meira út frá .

Cubetto's First Day

Bókin sem fylgir grunnpakkanum gefur marga möguleika á umræðum og spjalli. Út frá henni er hægt að skoða hnött, landakort og/eða bækur sem sýna ólík lönd og lifnaðarhætti bæði manna og dýra. Mannlífið á jörðinni er háð náttúrunni og fjallar bókin um það á einfaldan hátt, út frá bókinni er margt hægt að skoða og ræða, t.d. að velta fyrir sér hvernig umhverfið hefur áhrif á fólkið, dýrin, gróðurinn og byggingarnar sem við sjáum í löndum heimsins. Hvernig eru dýrin í eyðimörkinni miðað við dýrin á Íslandi? Hvernig eru mannabústaðir og hvers vegna eru þeir svona ólíkir?

Börn hafa gaman af því að skoða myndir af spennandi hlutum og geta þær verið hvort heldur sem er útprentaðar, á rafrænu formi eða í bókum.

Vangaveltur út frá bókinni - dýr sem lifa í heitu loftslagi

Vangaveltur út frá bókinni - dýr sem lifa í köldu loftslagi

Vangaveltur út frá bókinni - ólíkir bústaðir manna

Kubbur er rótbóti sem býður upp á mjög fjölbreytta notkunarmöguleika, hann er hentugur til að kenna forritun en einnig sniðugur í öllu málörvunarstarfi. Leikur með Kubb býður upp á marga möguleika til sköpunar bæði er hægt að búa til sögur í kringum hann, gera ný teppi og töfraheima og nýta hann í þemavinnu.