Blue-bot

Skemmtilegur lítill róbóti sem hentar vel til að kenna börnum í leik- og grunnskólum grunnhugtök forritunar. Hægt er að forrita Blue-bot/Bjölluna bæði með því að ýta á takkana ofan á róbótanum og með spjaldtölvu. Forritunin getur því bæði verið með eða án skjás.

Bjöllurnar eru skemmtilegar fyrir börn frá leikskólaaldri og uppúr, þær eru aðlaðandi og eiga vel heima t.d. í leik með kubba. Þær geta ferðast um og því tilvalið að blanda saman sköpun og forritun með því að búa þrautabrautir eða jafnvel heila heima fyrir þær með fjölbreyttum efniviði. Bjallan er sá rótbóti sem hefur komið okkur á MSHA mest á óvart hvað varðar notagildi og praktísk atriði svo sem hleðslu. Bjallan virðist höfða til breiðs aldursbils og er iðulega sá róbóti sem bæði kennarar og nemendur heillast mest af þegar kemur að skapandi vinnu. Bjöllurnar hafa þann kost að vera fljótar að hlaðast og halda hleðslu nokkuð vel.

Leikur með Blue-bot eflir rökhugsun og talnaskilning.

Blue-bot - Bjallan

  • Býður bæði upp á skjálausa forritun og að nota spjaldtölvu
  • Grunnpakki: Blue-bot og hleðslutæki, einnig hægt að kaupa 6 bjöllur saman með hleðslustöð
  • Aukahlutir: Skipanaborð og ýmsar gerðir af mottum
  • Virkar bæði með PC tölvum, Apple og Android spjaldtölvum.
  • Myndband um Blue-bot

Hver er munurinn á Blue-bot (glæra)og Bee-bot (gula)

Bjallan er til í tveimur útgáfum, sú sem fjallað verður um á þessari vefsíðu kallast Blue-bot og er glær. Hin útgáfan kallast Bee-bot og er gul.

Munurinn liggur aðallega í því að Blue-bot getur tengst spjaldtölvum með Bluetooth á meðan að Bee-bot býður aðeins upp á skjálausa forritun. Auk þess er Blue-bot glær, nemendur geta því séð hvernig hún lítur út að innan sem getur verið áhugavert. Bee-bot er ódýrari en Blue-bot.

Öll skjálaus forritunarverkefni á þessari síðu passa líka fyrir Bee-bot.

Verkefnasafn