Það er einfalt og skemmtilegt að búa til veröld fyrir Blue-bot. Hægt er að nota maskínupappír og líma saman nokkra langa strimla. Það er gaman að gera stórt undirlag og nota svo kubba, plastdýr, legófígúrur, pappír, gamlar mjólkurfernur og alls kyns verðlaust efni tl að útbúa heilan heim. Áður en vinnan hefst er nauðsynlegt að taka umræðu um hvað á að vera til staðar í veröld Blue-bot, hvernig kemst hann á milli staða? Þurfa að vera götur? O.s.frv.
Ævintýraheimar
Börn hafa gaman af leik með Blue-bot þar sem þau geta prófað sig áfram og búið til eigin forrit, mottur og ævintýraheima. Börnin geta teiknað, litað, málað eða saumað undirlag en einnig er hægt að búa til flotta heima t.d. með kapla- eða einingakubbum. Það getur verið skemmtilegt að nota leikmuni með eins og t.d. smádót og kubba til að lífga upp á umhverfið. Þegar börnin hafa lært að umgangast róbótana getur verið gaman fyrir þau að fá tækifæri til að leika sér með þá án þess að leiknum sé stýrt af kennara.
Landakort
Það getur verið bæði fróðlegt og gaman gefa róbótanum tækifæri til að ferðast um á landakorti. Þar getur hann heimsótt ýmsa staði innanlands og utan. Í verkefnum með landakort er áhugavert að velta fyrir sér vegalengdum og gera athuganir á því hversu margar skipanir eru á milli staða.
Spilaborð
Það er gaman að eiga spilaborð fyrir Blue-bot, það má búa til með því að mæla ferningana á mottunum sem fylgja grunnpakkanum (15x15 cm) og búa til samsvarandi rúðustrikað undirlag annað hvort á pappír eða með því að líma límband á gólf. Spilaborð gefur ótal möguleika, t.d. er hægt að leggja litla hluti, bókstafi, tölustafi, form, liti eða myndir (orðaforði) á reitina og forrita róbótann til að sækja hlutina.
Sögur
Hægt er að búa til leikrit út frá sögubókum, þetta getur verið stórt verkefni þar sem börnin búa til handrit, bakgrunn/umhverfi, búninga, leikmuni og jafnvel aukapersónur. Önnur hugmynd er að skrifa nýja forritunarsögu um Blue-bot og búa til leiðbeiningar og mottu sem fylgja. Þannig gætu aðrir lesið söguna og forritað Blue-bot til að ferðast í gegnum hana, með öðrum orðum - á hverri blaðsíðu í bókinni gæti verið verkefni sem Blue-bot þarf að vinna til að hægt sé að komast á næstu síðu.