Vatnajökulsþjóðgarður er ekki aðeins einstakt safn náttúruundra og vettvangur sérstæðrar menningar, heldur hefur hann alla burði til að verða drifkraftur íslenskrar ferðaþjónustu. Það er því mikilvægt að vel takist til við undirbúning og alla skipulagningu og ekki síst að átak allra sem að þjóðgarðinum koma verði samstillt og markvisst. Þetta næst best með samræðu um meginspurningar, þar sem þátttakendur leggja fram þekkingu sína, reynslu, sjónarmið og gildismat.
Nú þegar hefur mikið starf verið unnið við gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn. Þegar kemur að samræmingu þeirrar vinnu er brýnt að stjórn þjóðgarðsins hafi góða fótfestu í skýrri heildarsýn, sem mótuð er með breiðum hópi þeirra sem vel til þekkja og mestra hagsmuna eiga að gæta.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs vinnur nú að mótun heildarsýnar vegna uppbyggingar þjóðgarðsins og hélt þann 17. nóvember 2009 samráðsfund með hópi fólks sem hefur víðtæka þekkingu á þeim viðfangsefnum sem nýtast við mótun þessarar sýnar.
Á þessum vef er að finna allar upplýsingar sem fram komu á samráðsfundinum. Viðfangsefnum fundarins var skipt upp í sýn, leiðarljós og meginmarkmið. Ábendingar og sjónarmið frá þátttakendum koma fram í aragrúa setninga sem eru svör við spurningum sem þeim var falið að glíma við. Ákveðið var að láta allt efnið koma fram, óstytt, til þess að það nýtist sem best sem náma hugmynda og þekkingar við stefnumótunarvinnuna. Það þarf þó ekki að lesa lengi til að sjá hverjar megináherslurnar eru.
Ráðgjafarfyrirtækið Alta sá um skipulagningu fundarins og setti upp þennan vef.