Töfrasproti

Þetta verkefni er afar hentugt sem fyrsta tálguverkefni nýliða. Þarna er hægt að þjálfa rétt hnífsbrögð og nemendur fá strax tilbúinn hlut.

Skoðið vel myndbandið um rétt hnífsbrögð undir flipanum kennslumyndbönd.


Best er að tálga í ferskan við. Ef nágrenni skólans hefur einhverjar víðitegundir á almenningssvæði er hægt að byrja tímann á að klippa nokkrar greinar fyrir nemendur að tálga úr. Þá er hægt að nota tækifærið og sýna nemendum hvernig á að klippa greinarnar svo tréð/runninn nái að vaxa betur. Greinar eru alltaf klipptar af alveg upp við stofninn.

Myndin sýnir hvernig krumpan við stofninn vex yfir sárið þegar grein er klippt alveg upp við stofninn. Ekki er þörf á að bera neitt í sárið ef klippt er á réttan hátt. Tréð sér sjálft um að sótthreinsa sárið og verjast sýkingum. (mynd: Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn)

Úr bókinni Lesið í skóginn, tálgað í tré:
Þegar grein er tekin af tré þarf að gæta þess að saga sem næst barkarkrumpunni þar sem greinin vex út úr stofninum eða greininni. Þar er smá barkarbunga sem er tilbúin að vaxa yfir sárið þegar greinin er farin. Tréð lokar síðan sárinu á mislöngum tíma, allt eftir því hversu stórt sárið er, en það gerir tréð til að varna sýkingum og fúa. Nálatré eru fljót að loka sárinu með harpix en fyrir lauftré tekur það lengri tíma. Það er engin ástæða til að loka sárinu með utanaðkomandi efnum. Ekki er gott að klippa tré um það leiti sem það er að leggjast í dvala (bls. 25).

Myndband um rétt hnífsbrögð við tálgun.