Ræktun þarf ekki að vera stórtæk til að vekja gleði hjá nemendum. Hægt er að byrja með haustlaukum. Það er hægt að fá mikið magn fyrir tiltölulega lítinn pening. Haustlaukar eru settir niður í september eða október. Við höfum bæði sett niður lauka með útivali sem og boðið vinarbekkjum að koma út og setja niður lauka. Það er sérstaklega gaman að fylgjast með nemendum uppskera erfiði sitt að vori.
Ef skólinn á ekki skóflur, er hægt að reyna að fá nokkrar lánaðar.
Það er hægt að sækja um hjá Yrkjusjóði að fá græðlinga til að setja niður á skólalóðinni. Þegar nemendur setja sjálfir niður tré mynda þeir gjarnan tengsl við umhverfið sitt sem skilar meiri virðingu fyrir náttúrunni í kring.
Á vorin er líka hægt að sá fyrir sumarblómum og kryddjurtum. Eftir heimsókn í Helgafellsskóla þar sem stórt gróðurhús var byggt á sama tíma og list- og verkgreinastofurnar sjáum við að það er ýmislegt hægt að gera í góðum aðstæðum. Þau eru svo heppin að hafa smíðakennara, hana Margréti sem er líka garðyrkjufræðingur, sem hefur notað gróðurhúsið óspart til að rækta allt mögulegt með nemendum. Hún hefur líka sáð salati í bakka sem eru við mötuneytið og nemendur geta klippt sér ferskt salat með hádegismatnum.
Til að sá fræjum er gott að nota næringarsnauða mold (fæst hjá Innigörðum). Margrét kaupir hana í 70 lítra umbúðum, moldin er alveg þurr og óværufrí. Til að undirbúa moldina er hluti settur í kassa og vökvaður því ekki er hægt að vökva í bakkann eftir að fræjunum hefur verið sáð. Raka moldin í kassanum er stundum blönduð örlitlum vikri til að gera hana léttari í sér.
Þegar sáðbakkinn er undirbúinn eru fyrst boruð göt í botninn, síðan er rök mold sett í hann og þjappað laust og varlega.
Margrét hefur látið nemendur útbúa þjöppur í þeim stærðum sem bakkarnir hennar eru. Ofan á léttþjappaða moldina er fræjunum stráð. Næsta skref er að setja sængina ofan á fræin eins og hún segir nemendum, en þá er þunnu vikurlagi dreift yfir moldina og fræin.
Hvíti pokinn er vikurinn sem fer ofan á fræin. Bakkinn er svo settur ofan í stærri bakka sem er með nokkurra sentimetra lagi af vatni og glerplata yfir til að halda rakanum inni.
Þegar fræin hafa spírað og vaxið þannig að nokkur lauf hafa myndast er kominn tími til að prikla í stærri potta. Þá er gott að eiga mikið magn af jógúrtdósum eða öðru sambærilegu þar sem boruð hafa verið göt í botninn. Mold er sett í dósina og lítil hola gerð í miðjuna með prikl-pinna eða fingri. Tveimur plöntum er lyft varlega upp úr sáðbakkanum og reynt að ná allri rótinni. Plöntunum komið fyrir í holunni og þjappað mjög varlega að. Dósin er síðan látin sitja í skál/bakka með vatni. Plönturnar eru alltaf vökvaðar neðan frá með þessari aðferð.
Þessi mold, Jongkind, er næringarrík og góð fyrir plönturnar eftir að þeim hefur verið priklað.
Bekki og borð hafa nemendur smíðað undir verkstjórn Margrétar.
Út frá gróðurhúsinu er stórt útisvæði á svölunum sem er með kerjum.
Við þökkum Margréti fyrir heimboðið og góða kynningu á ræktun með nemendum.
Fræsöfnun og sáning birkifræja
Landgræðslan stendur fyrir landsátaki í söfnun birkifræja til að endurheimta birkiskóga á Íslandi. Í verkefnasafni Landverndar er verkefnið fræsöfnun og sáning birkifræja. Skólar geta bæði safnað fræjum og skilað til landverndar og geta einnig fengið fræ til sáningar.