Útikennsla
Þessi vefur um útikennslu er að mestu fullbúinn en þó eru nokkur atriði sem enn er verið að vinna í. Hugmyndir um viðbætur við vefinn eru vel þegnar.
Hugmyndafræði
Við sem erum höfundar þessarar síðu eigum það sameiginlegt að hafa farið á þau námskeið sem Ólafur Oddson (1951-2023) hélt fyrir smíðadeild Kennaraháskólans (nú Menntavísindasvið HÍ). Á þessum námskeiðum fundum við kraftinn sem hefur leitt hans starf með kennaranemum í fjölda ára og smitandi áhuga hans á skógartengdu útinámi og virðingu fyrir náttúrunni. Það var okkur því áfall að heyra af fráfalli hans í janúar 2023 og af virðingu við starf hans og alla þá þekkingu sem við náðum að tileinka okkur frá honum viljum við tileinka þessa síðu hans frábæra starfi í þágu kennaranema og barna á Íslandi.
Við þökkum Ólafi Oddsyni fyrir ómetanlegt ævistarf. Við vorum svo heppnar að taka þátt í námskeiðum hans um útimenntun sem gaf okkur tækifæri til að fá innsýn í hans hugmyndafræði.
Engjaskóli og Borgaskóli eru þátttakendur í Grænfánaverkefninu, heilsueflandi grunnskóla og Réttindaskóla UNICEF. Í verkefnunum beinum við augum að heilbrigði og hollustu, náttúruvernd og mannréttindum. Útinám hefur samhljóm í þessum þáttum og tengir allt í eina heild. Það sem fæst við að taka svo mörg lík verkefni inn í einu er að vinnubrögð og hugsunarháttur sem einkennir þessi verkefni verður fljótt hluti af menningu skólans og skilar sér í öflugra starfi og bættri líðan þeirra barna sem taka þátt í verkefnunum.
Það hefur mikið verið fjallað um útikennslu eða útinám . Útikennsla hefur verið flokkuð í marga flokka eftir áherslum. Hér er áherslan á verklega færni eins og meðferð elds, að höggva eldivið og kveikja bál, tálga, elda yfir eldi. Á síðunni er líka að finna verkefni sem tengjast náttúrufræði og þá einna helst verkefni sem tengjast lífríkinu. Flest verkefnin snúa að því að nemendur tengist náttúrunni og auki náttúruvitund sína. Í verkefnasafninu er líka fjallað um ratleiki sem kennsluform í útikennslu. Það er tilvalið að nemendur taki þátt í smíði hluta fyrir útikennslu og fái tækifæri til að koma með hugmyndir að útfærslum þannig verður námið samvinnuverkefni sem allir eiga hlutdeild að.
Rannsóknir benda til þess að bæði börn og fullorðnir séu minna utandyra vegna tilkomu snjalltækja og þéttrar dagskrár í skipulögðu félagsstarfi (Louv, Richard, 2008). Það eru margir sem hafa áhyggjur af þessari þróun og þeim afleiðingum sem þessi þróun kann að hafa á komandi kynslóðir. Richard Louv gaf út bókina Last Child in the Woods: Saving Our Children From Nature-Deficit Disorder þar sem hann fjallar um að aftenging við náttúruna hafi neikvæð áhrif á heilsu, samskiptahæfni, umgengni og vellíðan. Bókin hvetur foreldra, kennara og samfélagið í heild til að forgangsraða og skapa börnum tækifæri til að kanna og meta náttúrulegt umhverfi (Louv, 2008). Börn sem verja meiri tíma í að tengjast náttúrunni eru líklegri til að þróa jákvæð viðhorf til umhverfisverndar.
Þessi grein um borgartré og gagnsemi þeirra frá Skógrækt Reykjavíkur í tilefni af alþjóðadegi skóga 21. mars 2023 bendir á rannsóknir sem sýna heilsufarslegan ávinning af trjágróðri í borgarumhverfi.
Verkefni
Á þessari síðu eru leiðbeiningar að útikennslustólum, -borðum, ílátum og popp prikum sem hægt er að smíða fyrir útikennsluna. Auk þess er verkefnabanki með kennsluverkefnum fyrir nemendur. Hér er einnig að finna safn kennslumyndbanda sem geta nýst við undirbúning útikennslunnar. Mikilvægt er að leggja áherslu á öryggi í meðferð verkfæra og elds til þess að tryggja öryggi nemenda. Að lokum er vísað í áhugaverða og gagnlega tengla í ítarefni.
Uppbygging valnámskeiðsins í Engjaskóla
Valnámskeiðin eru yfirleitt 5 skipti, 80 mínútur í senn. Nemendur geta valið að koma oftar en einu sinni. Námskeiðin eru eins uppbyggð hjá okkur í hvert sinn sem þau eru haldin og ákveðin lykilatriði sem við viljum alltaf koma að:
Við tölum mikið um traust, að við verðum að geta treyst þeim til að fara eftir fyrirmælum því við erum að vinna með hættulega hluti, hnífa og eld.
Við tölum um tré og gróður, mikilvægi þeirra, vernd og umgengni. Virðing fyrir náttúrunni er lykilatriði.
Við viljum styrkja nemendalýðræði samkvæmt hugmyndafræði Grænfánans og Barnasáttmálans, fyrsti tíminn fer því alltaf að hluta til í að skoða hvaða hugmyndir þau hafa og hvað þau vilja gera. Þeirra hugmyndir ríma oftast að flestu leiti við okkar hugmyndir um verkefni.
Við viljum kenna þeim meðferð elds og tölum mikið um við hvaða aðstæður óhætt er að kveikja eld, hvaða öryggisatriði þarf að hafa í huga og hvaða áhrif sinubrunar hafa á vaknandi lífríki á vorin.
Við viljum kenna öllum okkar nemendum að tálga með öruggu hnífsbragði (sjá myndband á síðu um kennslumyndbönd). Mikil áhersla er lögð á ýmis öryggisatriði eins og ganga aldrei um með hnífinn opinn, leggja hnífinn frá sér ef þau þurfa að klóra sér í nefinu, þeim er bent á að hnífarnir eru flugbeittir og nemendum ber að umgangast þá af virðingu. Það er alveg ótrúlegt að sjá hvað nemendur sökkva sér ofan í þetta verkefni og þau eru alltaf jafnhissa hvað tíminn líður hratt við tálgun. Það gerist aftur og aftur í útikennslunni að nemendur komast í flæði.
Hér má sjá fréttaskot úr útikennslunni við Engjaskóla í lok 10-frétta 26. apríl 2023.
Myndband af dæmigerðum útikennslutíma
Aðstaða
Engjaskóli og Borgaskóli eru báðir staðsettir í norðanverðum Grafarvogi þar sem stutt er í svo til ósnortna náttúru, fjöruna og ríkulegt fuglalíf. Hér eru því góðar aðstæður til útiveru í margskonar aðstæðum.
Til þess að tími nemenda og kennara nýtist vel er gott að aðstaða til útikennslu sé í nágrenni skólans, gott er að hafa útikennslustofu/bækistöð á skólalóðinni og aðra aðstöðu á grónu svæði eða fjöru í nokkurra mínútna göngufjarlægð.
Í Reykjavík er hægt að fá aðstoð hjá MÚÚ (Miðstöð útivistar og útináms) til að fá hugmyndir og koma upp aðstöðu, sem þarf ekki að vera flókin eða dýr til að byrja með.
Útikennslustofan í Engjaskóla er einföld en nýtist samt svo vel. Lítið grenirjóður aftan við húsið sem gefur skjól frá austanáttinni. Trjádrumbar mynda setsvæði í hálfhring í kringum bálskálina.
Útikennsla í Borgaskóla
Útikennsla sem valgrein á haustin og vorin í 5. bekk þrjú skipti og 6. og 7. bekkur saman í fimm skipti. Áhersla hefur verið lögð á að fara út í náttúruna í nágrenni skólans, oftast í skógarrjóður fyrir neðan styttugarðinn í Grafarvogi. Tálgun, skordýrahótel, fuglafóður, ratleikir og útieldun hafa verið viðfangsefni nemenda sem hafa notið þess að fá tækifæri til þess að vera innan um náttúruna á skólatíma.
Útikennsla hefur verið hluti af list- og verkgreinatímum í skólanum. Á haustin og vorin vinna list- og verkgreinakennarar saman með nemendahópinn að ímsum verkefnum. Til dæmis týna nemendur ber fyrir sultugerð, skoða gróðurinn og gera ljósmyndasýningar, fara í fjöruferð og búa til útilistaverk.
Áhöld og búnaður
Það er ekki nauðsynlegt að eiga mikinn búnað til að byrja með en gott er að eiga góða tálguhnífa, greinaklippur, einhvern hitunarbúnað og sessur fyrir nemendur að sitja á jörðinni. Þegar kennarahópurinn er kominn af stað má bæta við búnaði eftir því sem verkefnin þróast og áhugasvið mótast.
Hvar skal byrja?
Búnaður sem gott er að eiga
tálguhnífar (fást m.a. í Handverkshúsinu eða Brynja.is)
greinaklippur, bæði litlar og stórar (fást í flestum byggingavöruverslunum)
bálpanna (fæst í nokkrum stærðum, t.d. í Bauhaus)
eldiviðarkljúfur (fæst í Vorverk.is)
hamar/sleggja fyrir eldiviðarkljúfinn (byggingarvöruverslanir og vorverk.is)
prímus, hægt er að fá litla handhæga prímusa í útivistarverslunum sem hægt er að skrúfa beint á lítinn gaskút
bakpoki til að bera glös, kveikibúnað og fleira sem þarf að hafa með sér í ferðir utan skólalóðar
handdregin kerra - gott að velja létta og sterka kerru
pottar og pönnur
Hvaða viður hentar?
Hægt er að tálga í flestan við, en það er óneitanlega þægilegra að tálga í ferskar greinar af lauftrjám því börkur þeirra er sléttari en á barrtrjánum. Víðir er mjúkur og léttur, en birki, reynir og aspir eru algengir nágrannar skóla og vel hægt að tálga í þau.
Barrtré eru þó góð í mörg verkefni, enda hægt að kljúfa bitana og þannig er enginn að stinga sig á grófum berkinum.
Barrtré skiptast í nokkrar ættkvíslir en algengustu barrtré Íslands eru lerki, þinur, greni og fura. Bæði greni og fura eru góð í handverk, en lerkið er síðra þar sem greinarnar eru mjög stökkar.
Tengsl við Aðalnámskrá grunnskóla
Skógartengt útinám er ekki að finna með beinum hætti í Aðalnámskrá grunnskóla en í Heilbrigði og Velferð – riti um grunnþætti menntunar (2013, bls. 6-7) er fjallað um mikilvægi andlegs og félagslegs þroska og góðrar heilsu. Þar kemur fram að skólar eigi að skapa börnum aðstæður til heilbrigðra lífshátta, efla færni þeirra í samskiptum, byggja upp sjálfsmynd, setja sér markmið og hafa stjórn á streitu. Í skógartengda útináminu er stefnan einmitt að vinna með þessa þætti.
Í ritröð um grunnþættina, Sjálfbærni - Rit Um Grunnþætti Menntunar (2013, bls. 24) er fjallað um útinám og mikilvægi þess að umgangast nánasta umhverfi og að vera læs á náttúruna umhverfis okkur. Þar er fjallað um að þegar við leggjum okkur fram við að kynnast og skilja umhverfið fer okkur að þykja vænt um það og líður betur í því. Útinámið á þessari síðu er skipulagt í nærumhverfi skólanna og miðar að því að nemendur kynnist og komist í snertingu við náttúruna umhverfis skólann og í hverfinu þeirra.
Í Riti um sköpun í grunnþáttum menntunar (2013, bls. 27) er fjallað um hugarástandið flæði sem Mihaly Csikszentmyhalyi hefur skrifað mikið um og er talið eflandi fyrir einstaklinga. Nokkrar forsendur þurfa að vera til staðar til þess að einstaklingur komist í flæðiástand. Tilgangur þarf að vera skýr og í samhengi við áhuga og löngun. Verkið þarf að vaxa og dýpka og framvinda þarf að vera skýr. Verkefnin þurfa að vera fjölbreytt og krefjandi miðað við þroska og getu. Þegar flæðiástand næst er einstaklingur fullkomlega einbeittur og er með allan hugann á viðfangsefninu og gleymir sér. Að komast í flæðiástand er mjög eftirsóknarvert og veitir mikla gleði. Markmiðið er að njóta ferlisins og hafa ánægju af því en ekki að útkomunni. Útinámið getur haft þessi áhrif á nemendur ef vel tekst til og skal ávallt stefna að því. Í ritinu um sköpun (2013, bls. 28) er sköpun lýst sem samtali við umhverfið sem styrki skilning á heiminum með því að veita umhverfinu og samfélaginu athygli og túlka það. Verkefnin í útináminu bjóða mörg upp á skapandi hugsun og gefa nemendum tækifæri á upplifun í nærumhverfinu.
Undir handverk í hönnun og smíði, í Aðalnámskrá grunnskóla (2013), falla markmið er miða að því að efla verkvit, þekkingu á efnum og færni í notkun verkfæra. Nemendur eiga að geta valið og notað á réttan hátt helstu verkfæri og mælitæki. Þeir eiga líka að þekkja uppruna efniviðarins. Í útikennslu gefst einstakt tækifæri til þess að læra um uppruna efniviðarins og um trjátegundir. Handverk á borð við tálgun þjálfar fínhreyfingar og nemendur læra hvernig liggur í viðnum og hvernig best er að beita sér með bitverkfæri.
Í Aðalnámskrá (2013) er í náttúrufræðikafla fyrir miðstig fjallað um náttúru Íslands. Nemendur eiga að geta lýst reynslu sinni, athugun og upplifun af lífverum í náttúrulegu umhverfi. Þetta viðmið er leiðarljósið í útináminu þar sem áherslan er á virk tengsl nemenda við náttúruna þar sem þeir upplifa og nýta náttúruna í verkefnum.
Heimildir
Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013.
Heilbrigði og velferð – Rit um grunnþætti menntunar. (2013). Heilbrigði og velferð – rit um grunnþætti menntunar. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/heilbrigdiogvelferd/
Louv, R. (2008). Last Child in the Woods: Saving Our Children from Nature-Deficit Disorder. https://doi.org/10.1604/9781565126053
Sjálfbærni - Rit um grunnþætti menntunar. (2013). Sjálfbærni - rit um grunnþætti menntunar. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/sjalfbaerni/
Sköpun - Ritröð um grunnþætti menntunar. (2013). Sköpun - ritröð um grunnþætti menntunar. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/skopun/