Þessi æfing krefst undirbúnings í byrjun við að búa til spjöldin en eftir það er lítill sem enginn undirbúningur.
Fjöldi spjalda þarf að vera um 10 spjöld á hvern nemanda.
Best er að nota stórt opið svæði inni eða úti, t.d. íþróttasal, stóran fótboltavöll, grassvæði. Nemendur para sig í tveggja manna hópa og krækja handleggjum saman. Hvor nemandi fyrir sig hefur um 10 spjöld með margföldunardæmi öðrum megin og svarinu hinum megin. Pörin raða sér upp við endann á svæðinu sem á að nota og snúa öll í sömu átt.
Þegar kennari gefur merki byrja nemendur að spyrja námsfélaga sinn spurninga til skiptis. Í hvert sinn sem rétt svar kemur má parið taka eitt skref áfram. Ef námsfélaginn svarar rangt standa þau kyrr.
Kennari stendur á hliðarlínunni og hefur góða yfirsýn yfir hvernig gengur. Hvaða par hefur ekkert hreyfst úr stað? Hvaða par gengur óvenjuhratt yfir?
Þegar parið hefur farið í gegnum öll spjöldin sín kemur það til kennarans og fær nýjan bunka eða skiptir við annað par sem líka hefur lokið við öll sín spjöld.
Þessi æfing er upplögð til að brjóta upp kennslustund í stærðfræði og fara út í smástund.