Skordýrahótel

Skordýrahótel

Líffræðilegur fjölbreytileiki er hugtak sem mikilvægt er að vekja athygli á. Heimsmarkmið 15, Líf á landi fjallar um að vernda villta náttúru. Skordýrahótel er leið til að tryggja skordýrum gott búsvæði. Þetta er kjörið verkefni fyrir nemendur að vinna saman í hópum og skapa sína útfærslu að hóteli. Þau geta safnað efniviði í náttúrunni, í skólanum eða heiman frá sér.  Á þennan hátt  fer saman fræðsla útivera og sköpun. Hótelið getur verið stórt samvinnuverkefni eða fleiri smærri verkefni. Í framhaldi fá nemendur tækifæri til að fylgjast með skordýrunum. Þetta verkefni er að finna í verkefnakistu Landverndar. 

Kassi úr vínbúðinni og efni úr skógarbotni

Stærsta efnið sett inn fyrst

Tilbúið, steinar ofan á með holum sem í safnast vatn

Fyrsti hótelgesturinn var í stærra lagi :)

Skordýrahótel nemenda

Nemendur í 5. bekk í Borgaskóla útbjuggu skordýrahótel í útikennsluvali. Þau söfnuðu sniglum sem voru mjög líflegir en vildu ekki allir staldra við á hótelinu. Það skapaðist skemmtileg umræða um að dýrunum liði líklega best í sínu náttúrulega umhverfi.

Skordýrahótel sem var til sýnis á Maker Fair í Róm í október 2022. Hér hefur einfalt hús verið smíðað og borað með mismunandi borastærð í endatrés sneiðar sem settar eru í húsið ásamt bambus, múrsteini og berki.

Heimsmarkmið 15 

Heimsmarkmið 15 Líf á landi útskýrt á Krakkarúv.

Hér fyrir neðan eru nokkur myndbönd sem sýna gerð skrodýrahótela. Þau geta verið mjög einföld upp í flóknari smíð eftir aðstöðu og tíma fyrir verkefnið.

Hér er myndband með leiðbeiningum um hvernig er hægt að útbúa skordýrahótel með nokkrum múrsteinum, hellu, greinum, könglum, mosa, laufbröðum og kuðungum.

Skordýrahótel í viðarkassa. Viðarbútar, plastblómapottar, könglar, börkur, greni, lauf, strá, holaðar greinar, mosi og bylgjupappi. Sett á sólríkan stað með hellum undir og ofan á.

Myndband sem sýnir skordýrahótel smíðað úr furu  með hænsnanet í bakinu. Fyllt með þurrkuðu grasi, greinum, leirblómapotti, má vera brotinn og fleira sem finnst í umhverfinu. Stilla upp á sólríkum stað.

Bókaflokkurinn Milli himins og jarðar hjá mms.is er með tvær bækur um smádýr, um humlur og köngulær.