Borð

Það er alltaf gott að hafa möguleika á fráleggsborði í útikennslu. Í flestum útikennslustofum er það kostur að geta farið með allan búnað inn í geymslu að notkun lokinni. Þetta borð er mjög hentugt, auðvelt að smíða (jafnvel fyrir nemendur) og handhægt að bera (líka fyrir nemendur). Þetta borð er til í ýmsum útfærslum á netinu en hér fyrir neðan eru gefin mál á borðinu sem við smíðuðum. 

Efnið í fætur er 32 x 45 mm. Samsetningin er gerð með því að taka úr þeim endum til helminga sem eiga að skarast. Hægt er að setja saman hornin á ýmsa vegu, t.d. að skrúfa hornin saman eða eins og við gerum að tappa hornin saman. En hvernig sem þetta er fest saman er alltaf nauðsynlegt að líma líka.

Efnið í fjölina sem myndar borðplötuna er 20 x 140 mm. Lengdin á fjölunum er um 120 cm sem okkur finnst hæfilegt í ljósi þess að í flestum tilfellum eru það börn sem eiga að bera þetta á milli staða og því ekki gott að hafa þetta of langt eða of þungt. Við notum tvær 140 mm fjalir til að mynda borðið. Það er svo hægt að eiga fleiri fjalir til að mynd neðri hilluna.

Bilið á milli efstu og næstefstu þverspítunnar er 30 mm sem er 10 mm breiðara en fjölin sem á að klemmast þar á milli til þess að fæturnir geti orðið útskeifir og borðið þar með stöðugt.

Merkingin á efstu spítunni er til þess gerð að við vitum hvernig fóturinn á snúa vegna þess að það er mismikið álag á þverspítunum eftir því hvernig borðfjalirnar klemmast í og mynda spennuna sem þarf til að borðið verði stöðugt.

Merkingin á fótunum var gerð með brennipenna eftir að útlínur stafanna höfðu verið strikaðir eftir stensli sem var búinn til með Cricut fjölskera, en auðvitað er ekkert mál að handteikna útlínurnar eða nota einhverja allt aðra aðferð til að merkja.

Hér eru myndir af ferlinu. 

Borðfjalirnar eru mjög einfaldar, þær eru réttar af í afréttara og síðan teknar í rétta þykkt í þykktarhefli.

Brúnir og endar pússaðir með sandpappír og síðan þarf að vatnsverja allt saman með olíu eða viðarvörn.

Hér er verið að gera tilraun með hve stórt gatið á að vera á borðfótum og hversu mikið þeir eigi að halla áður en samsetningin er kláruð.