List í náttúrunni

List í náttúrunni

Innlögn fyrir verkefnið

Það er hægt að búa til list næstum alls staðar. Þessar hugmyndir er hægt að nota allt árið um kring, hvort sem farið er með nemendur í gönguferð í fjöruna, á næsta skógarstíg eða bara gangstéttina í kringum skólann.

Gott er að nota þessa glærusýningu sem innlögn, hægt er að hlaða henni niður og þá getur kennari gert þær breytingar sem hann vill miðað við aðstæður hverju sinni.

Athugið vel að kenna börnum regluna: Það sem er fast er fast og það sem er laust er laust.

Þetta þýðir að þau mega ekki slíta upp blóm og tré en það má nota það sem hefur fallið af að sjálfu sér.
Þegar við nýtum okkur lifandi plöntur gætum við þess að taka ekki allt af einum stað, á hverri þúfu má ekki taka meira en 1/3.
Gott að ræða líka aðeins að mosi er viðkvæmur og vex mjög hægt.
Undir steinum í fjörunni er oft mikið lífríki og því þarf að fara varlega í að velta við steinum.

Virðing fyrir náttúrunni er þarna lykilatriði.