Te úr jurtum

Flest börn þekkja te og vita að það er bruggað úr einhverjum laufum, en þegar þau fá að tína jurtirnar sjálf, þá breytist drykkurinn í einhverskonar galdraseyði. Það er töfrum líkast að geta fundið efni í góðan drykk í bakgarðinum.

Þegar við förum í telaufaleit, þá byrjum við á að finna stað þar sem ekki er mikil umferð, því við viljum ekki mengun í laufin okkar.  Það er mikilvægt að hafa einhverskonar vitneskju um plöntur, og einfaldast er að hafa hana með í formi bóka og snjalltækja.  Plöntuvefur mms.is er góð uppspretta fróðleiks um plöntur og nytjar þeirra.

Meðan vatnið hitnar á prímus rölta nemendur um móann með skæri - hér læra þeir um nýtingu grasa, að taka aldrei allt og gæta þess að rífa ekki upp rætur.  Mikilvægt er að engar plöntur fari í vatnið sem ekki er búið að grandskoða og greina til að vita hvaða áhrif þær hafa.

Þótt flestar plönturnar séu bestar og hafi mestan máttinn á vorin, þá er alveg hægt að finna plöntur síðsumars og jafnvel um haustið sem geta gert góðan drykk. 

Bækurnar sem fylgja okkur í alla útitíma þar sem nýta á náttúruna eru Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu L. Jóhannsdóttur, Grasnytjar á Íslandi eftir Guðrúnu Bjarnadóttur og Jóhann Óla Hilmarsson og ein gömul: Íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir eftir Björn L. Jónsson.

Þónokkurt magn er til af ágætum bókum um efnið, til dæmis Íslenska plöntuhandbókin eftir Hörð Kristinsson og einnig bækurnar Íslensk ferðaflóra eftir Áskel Löve og Íslenskar lækningajurtir eftir Önnu Rósu grasalækni. Þær síðastnefndu er þó orðið erfitt að finna.  Þá er hægt að grípa snjalltækin:

Plöntuvefurinn

Flóra Íslands

Náttúrufræðistofnun

Rétt hjá skólanum okkar er mói sem við nýtum mikið.  Hann er passlega langt frá næstu umferðargötum til að forðast mengaðan gróður.

Einn sykurmoli út í teið gerir kraftaverk og börnin dásama þetta skemmtilega og bragðgóða te.