Fyrsti tálgutíminn
Tálguverkefni
Undirbúningur
Ákveða hvaða hæfniviðmið við ætlum að vinna með.
Ákveða hvaða efni skal nota, ef það er ekki klippt af trjám á skólalóðinni, þá þarf að útvega efnið fyrirfram - best að nota blautan við (frekar nýklipptann). Ef klippa á tré á skólalóð þarf að finna til trjáklippur og sagir við hæfi.
Athuga tálguhnífa, magn og hvort þeir bíti.
Hæfniviðmið úr hönnun og smíði, handverki
Valið og notað á réttan hátt helstu verkfæri og mælitæki.
Gert grein fyrir uppruna og notagildi þess efniviðar sem notaður er í smíðastofunni.
Útskýrt réttar vinnustellingar og valið viðeigandi hlífðarbúnað.
Lykilhæfni sem unnið er með
Nemandi getur gert grein fyrir og miðlað af þekkingu sinni og leikni, skoðunum, hugsunum og tilfinningum á þann hátt sem við á hverju sinni.
Nemandi getur skilgreint viðmið um árangur,
Nemandi getur lært af mistökum og nýtt sér óvæntar niðurstöður við lausn verkefna á skapandi hátt,
Nemandi getur vegið og metið hvort aðferð við verkefnavinnu hafi borið árangur og tekið þátt í mótun og miðlun viðfangsefna á skapandi hátt.
Nemandi getur gert sér grein fyrir styrkleikum sínum með það að markmiði að efla og byggja upp sjálfsmynd sína,
Nemandi getur tekið leiðsögn og uppbyggilegri gagnrýni á jákvæðan hátt.
Nemandi getur gert sér grein fyrir styrkleikum sínum og hvernig hann getur nýtt sér það í námi,
Nemandi getur sett sér markmið í námi og unnið eftir þeim,
Vinnuferli
2 kennslustundir
Innlögn í kennslustofu og tálgun utandyra. Innlögnin felur í sér reglur um meðhöndlun hnífa. Þær eru algildar og engar undantekningar!
Við sækjum efni og hníf og finnum okkur sæti.
Við tökum hnífinn varlega úr slíðrinu.
Við tálgum sitjandi.
Ef við viljum standa upp, þá setjum við hnífinn fyrst í slíðrið.
Ef ég þarf að klóra mér, þá legg ég fyrst hnífinn frá mér.
Við notum hnífinn einungis til að tálga það tré sem til þess er ætlað.
Við notum alltaf læst hnífsbragð.
Tálgun er einungis í boði fyrir þá sem ráða við að fylgja þessum reglum.
Áður en út er haldið sýnir kennari læst hnífsbragð og sýnir myndbönd af nemendum beita því.
Nemendur aðstoða við að bera hluti frá geymslu sem er innandyra, í útikennslustofuna. Ef klippa á greinar til að tálga, er það gert á leiðinni út. Þá er einnig kennt hvernig skuli klippa greinar svo trén geti látið gróa yfir sárið. Hér er hægt að sjá myndband með leiðbeiningum, einnig er hægt að lesa meira hér.
Þegar nemendur eru komnir með efnivið, sækja þeir hníf og byrja að tálga.
Tálguverkefnið er einfaldlega að tálga! Eins og Émile hans Rousseau fann styrkleika sína í náttúrunni, þá rata nemendur á sína styrkleika í þeirri ró sem færist yfir þá þegar þau byrja að vinna. Smátt og smátt fá þeir áhuga á að geta búið eitthvað til, og þá er það okkar hlutverk að leiðbeina þeim.
Vangaveltur varðandi verkefnið
Fjöldi kennara og nemenda: Tveir kennarar með hóp á um 20-25 nemendur. Það er passlegt. Einn kennari ræður við að hjálpa um 10 nemendum, en má aldrei fara frá hópnum. Nemendur eru aldrei einir með hnífa.
Fjöldi hnífa. Mikilvægt er að þekkja magnið, telja hnífa áður og eftir vinnu.
Plástrar. Það er gott að hafa plástra með fyrir minni skeinur, sáraklútar eru líka ágæt hugmynd.
Fyrirmyndarverkefni. Það er ljómandi hugmynd að eiga nokkur fyrirmyndarverkefni í handraðanum, þau veita innblástur. Dæmi um góð og einföld byrjendaverkefni eru töfrasproti, sveppur, fugl, smjörhnífur og skeið.
Viðurlög. Nemendur sem ráða ekki við að fara eftir reglunum missa rétt sinn á að tálga. Það er ekki eitthvað sem gerist oft.