Náttúran er full af fæðu og krökkum þykir spennandi að geta sjálf aflað sér matar. Hvönnin er bæði holl og góð og hægt að nýta á margvíslegan hátt. Við höfum tínt hvönn seint á vorin, þegar blómsveipurinn er enn lokaður í stórum laufkúlum sem við klippum af stönglinum. Þetta er tilvalin stund að kenna nemendum um hversvegna við rífum ekki plöntuna upp með rótum.
Á sama tíma er túnfífillinn gjarnan að blómstra og það er bæði fallegt og hollt að hafa hann með. Við notum einungis gulu hluta blómsins.
Hvönnin er skorin gróft og steikt á vægum hita í feiti. Þegar hún er farin að mýkjast stráum við gulum fíflablómum og grófu salti yfir og allir fá sér að smakka.
skæri (til að klippa hvannarkúlur með blómsveip)
skurðarbretti
hnífur
feiti
sleif/steikarspaði
panna
salt
ílát fyrir nemendur að fá salat í - og áhöld ef þeir vilja ekki borða með höndunum.
hitagjafi (gas, bál, eldavél)