Ís með efnahvörfum

Þegar snjóar eru nemendur alveg til í alls konar ævintýri. Eitt af því sem er skemmtilegt að gera með nemendum er að búa til ís með efnahvörfum.  Þetta verkefni er skemmtilegt stærðfræðiverkefni um mælingar og sniðugt náttúrufræðiverkefni.

Hér að neðan er góð eðlisfræðiskýring á þessu ferli frá Vísindavefnum, smellið á myndina til að lesa alla greinina.

Vetrarís

2,5 dl mjólk

1 msk sykur

Væn skvetta af íssósu (t.d. jarðaberja, súkkulaði eða karamellu, ekki nota ísingu því hún harðnar)

Að auki þarf:

1/2 dl gróft salt

Zip-lock poka (1 lítinn og 1 stóran, t.d. frystipoka úr IKEA)

Setjið mjólk, sykur og sósu í litla pokann og lokið vel. Passið að ekki sé mikið loft í pokanum þegar þegar honum er lokað.

Setjið salt og litla pokann með mjólkurblöndunni í stóra pokann og fyllið hann síðan af snjó. Lokið stóra pokanum vel og vandlega, ekki má vera of mikið loft því þá er meiri hætta á að pokinn springi.

Að lokum þarf að velta pokanum í höndunum eða snjónum. Snúa honum vel og hrista, þannig að salt og snjór blandist vel saman. Það tekur smá tíma fyrir mjólkurblönduna að frjósa, en miðað er við að velta þurfi pokanum í u.þ.b. 15 mínútur.

Snjónum og saltinu er þá sturtað úr stóra pokanum. Litli pokinn er tekinn uppúr og ísnum hellt í skál.